Njáll Skarphéðinsson fæddist á Siglufirði 13. júlí 1937. Hann lést 12. júlí 2023.

Foreldrar Njáls voru þau Elín Sigurðardóttir, f. 1907, d. 1995, og Skarphéðinn Júlíusson, f. 1909, d. 1941. Fósturforeldrar Njáls voru þau Kristinn Jónasson, f. 1887, d. 1967, og María Sigfúsdóttir, f. 1891, d. 1981. Njáll átti þrjú alsystkin, Gunnar, f. 1932, Héðin, f. 1934, d. 2016, og Elínu, f. 1940, d. 2013. Fóstursystkin Njáls voru Rósa, f. 1921, d. 1996, Karítas, f. 1928, d. 1993, og Kristín, f. 1928.

Árið 1960 giftist Njáll Þóru G. Helgadóttur, f. 29.10. 1937, d. 1.12. 2018. Börn þeirra eru: 1) Hrafnhildur, f. 18.10. 1959. Sambýlismaður Björn S. Pálsson. Börn Hrafnhildar eru Helgi Þór, f. 26.10. 1981, og Tanja Ann, f. 11.12. 1988. 2) Skarphéðinn, f. 23.4. 1961, giftur Jónínu S. Birgisdóttur. Börn þeirra eru Njáll, f. 26.5. 1994, Jón Ólafur, f. 5.11. 2004, og Helgi Þór, f. 5.11. 2004. 3) Kristín Gyða, f. 12.6. 1966, gift Valdimar Birgissyni. Börn þeirra eru Bryndís, f. 4.6. 1988, og Birgir, f. 18.3. 1993. Langafabörnin eru þrjú.

Njáll ólst upp á Árhóli á Dalvík hjá fósturforeldrum sínum. Hann hóf nám í bifvélavirkjun 15 ára hjá Þórshamri á Akureyri. Að námi loknu hélt hann suður til Keflavíkur þar sem hann bjó til dánardags. Hann starfaði samfellt í fjóra áratugi í slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli og gegndi hann stöðu aðstoðarslökkviliðsstjóra í um fimmtán ár. Njáll og Þóra bjuggu alla sína tíð í Keflavík en nutu þess um langt tímabil að dvelja í íbúð sinni í Orlando í fríum þar sem þau áttu stóran vinahóp. Njáll var virkur félagi í Rótarýklúbbi Keflavíkur þar sem hann var gerður heiðursfélagi. Hann var einnig í Púttklúbbi Suðurnesja og hafði auk þess mikinn áhuga á billjard og bridge.

Útför Njáls fer fram í Keflavíkurkirkju í dag, 27. júlí 2023, klukkan 13.

Elsku pabbi hefur kvatt okkur og er kominn í sumarlandið. Það er erfitt að kveðja þig, brotthvarf þitt er svo mikill missir fyrir okkur fjölskylduna því þú varst svo stór hluti af lífi okkar. Ég er samt svo þakklátur fyrir það að hafa átt þig sem föður.

Við systkinin vorum svo lánsöm að eiga gott og kærleiksríkt heimili. Foreldrar okkar voru alltaf til staðar fyrir okkur, við fengum gott uppeldi og þau lögðu ríka áherslu á að við værum gott og heiðarlegt fólk líkt og þau voru. Ég veit að þú ert stoltur af okkur öllum og elskaðir okkur.

Eftir starfslok naut pabbi þess að vera með barnabörnum og fylgjast með vexti þeirra og viðfangsefnum. Alltaf var hann reiðubúinn til þess að skutla þeim þangað sem þörf var á svo þau gætu sinnt sínum áhugamálum. Hann var mikill félagi þeirra og þau skynjuðu öll áhuga hans á því sem þau voru að gera. Hann var duglegur að miðla til þeirra visku og deila með þeim sinni kunnáttu og hann naut jafnframt mikilla vinsælda hjá vinum þeirra.

Pabbi var einstaklega umhyggjusamur og greiðvikinn maður sem var alltaf reiðubúinn að gera allt fyrir alla. Hann var líka mjög félagslyndur, jákvæður og glaðvær maður og átti mörg áhugamál. Hann var mikill bridgespilari og síðustu árin eyddi hann mörgum kvöldum í að spila bridge á netinu við fólk úti í heimi. Einnig átti púttið hug hans.

Pabbi hafði alltaf þörf fyrir að fræðast og læra nýja hluti. Fyrir nokkrum árum sótti hann námskeið í hringasmíði, festi kaup á rennibekk og eyddi löngum stundum í að smiða hringi fyrir vini og vandamenn, meira að segja giftingarhringi fyrir hjón. Hann hafði líka yndi af því að hlusta á tónlist og naut þess að fara á tónleika. Pabbi var trúrækinn, þótti mjög vænt um kirkjuna sína og var mjög duglegur að sækja viðburði í kirkjunni síðustu ár.

Guð geymi þig og minning þín mun lifa í hjörtum okkar.

Skarphéðinn Njálsson.

Elsku besti afi minn.

Það er erfitt að lýsa því með orðum hversu þakklátur ég er að hafa átt þig sem afa í hartnær þrjátíu ár. Þú varst svo hress og hraustur, fram á þinn síðasta dag, að ég hafði einhvern veginn búist við því að þú yrðir hér næstu þrjátíu árin líka. En þegar hlutirnir gerast svona skjótt þá tekur maður eftir því að eru þúsund hlutir sem mig langar að segja sem ég fékk ekki tækifæri til.

Það sem mig langar helst að segja er hversu lánsamur ég hef verið að eiga þig sem afa og vin. Þú varst einstaklega þolinmóður og gjafmildur á tíma þinn. Á mínum unglingsárum sótti ég píanókennslu í Reykjavík. Þú keyrðir frá Keflavík til Reykjavíkur í hverri einustu viku. Við ýmist hlustuðum á Nat King Cole, Ninu Simone eða Rachmaninoff eða töluðum um allt á milli himins og jarðar. Nú þegar ég kom aftur til Íslands í desember síðastliðnum, þá sprakk dekk á bílnum hjá mér. Það fyrsta sem ég gerði (áður en ég gúglaði hvað ég ætti að gera) var að hringja í þig. Þú varst alltaf til taks, alltaf að hjálpa öllum. Mér varð einnig hugsað til þess, þegar ég var að setja saman húsgögn í nýju íbúðinni minni í Kaliforníu, að þetta var í fyrsta sinn sem ég set saman hillu án þess að þú sért á staðnum með verkfærakassann og borvélina.

Mér hlýnar í hjartanu, vitandi það að ég er ekki sá eini sem hefur slíka sögu að segja af þér. Þú gafst þér alltaf tíma til að vera til staðar fyrir þitt fólk. Þú varst ótrúlega stór hluti af lífi okkar allra og því mikill og sár missir að þú sért farinn. Þótt sorgin sé mikil þá er þakklæti mér efst í huga. Þakklæti fyrir að hafa átt þig sem afa, vin og fyrirmynd.

Ég vona það innilega að þú vitir hversu innilega þakklátur ég er fyrir allt það sem þú hefur gert fyrir mig og tímann sem við áttum saman.

Njáll Skarphéðinsson.

Já það er oft stutt á milli stórra högga, aldrei hefði það hvarflað að mér

þegar mér bárust þær fregnir að Njáll Skarphéðinsson aðstoðarslökkviliðsstjóri á Keflavíkurflugvelli væri fallinn frá. Það var ekki nema vika síðan ég hitti þennan öðling fyrir utan Byko í Reykjanesbæ og áttum við ágætt spjall saman og umræðuefnið var fréttir af framtíð Kapellu okkar slökkviliðsmanna en Njáll

hafði frétt að til stæði að afhenda hana Samhjálp til afnota og eignar, vert er þess að minnast að honum fannst hugmyndin góð. Til að tíunda aðeins mín kynni af öðlingnum Njáli þá má segja að þau hafi hafist er Skarphéðinn sonur hans og ég hófum að vinna saman við verktöku hjá varnarliðinu og síðar meir lágu leiðir okkar saman hjá Slökkviliði Keflavíkurflugvallar. Ég man það eins og það hefði gerst í gær þegar ég var boðaður á mína fyrstu vakt í slökkviliðinu, en vaktin var einmitt hjá Njáli þar sem hann var yfirmaður A vaktar Nas keflavik FesDept. Njáll var ákveðinn maður, sanngjarn með allt sitt alltaf á hreinu, hann lagði mikla áherslu á að menn lærðu slökkviliðsstarfið rétt með öryggið ávallt að leiðarljósi. Njáll var vinsæll sem yfirmaður og hrókur alls fagnaðar, hann var mikill spilamaður og það voru ófáar stundirnar sem hann ásamt vaktfélögunum tók spil í hönd og spilað var bridge eða svört sjöa að mig minnir að það spil hafi heitið. Ágæti félagi og vinur, nú kveðjum við þig og þökkum fyrir allar góðu stundirnar sem við fyrrverandi vinnufélagar þínir geymum í minningarbanka okkar, öðrum til fróðleiks um þann frábæra yfirmann og félaga sem þú hafðir að geyma.

Fjölskyldu Njáls Skarphéðinssonar vottum við okkar dýpstu samúð.

Fyrir hönd Félags slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli.

Sigurjón Hafsteinsson.

Hann hafði nokkru áður haft við mig samband til að færa mér hring sem hann hafði smíðað á fyrrverandi sóknarprest Keflavíkurkirkju og beðið mig að færa honum í tilefni afmælis þess síðarnefnda. Gjörningurinn var lýsandi fyrir mannkærleika, hlýhug og hógværð sem einkenndi þann einstaka mann sem hér er minnst. Hann bað gjarnan aðra um að færa fólki gjafir sem hann sjálfur hafði gert til að draga úr sínu eigin sviðsljósi. Völundur var hann orðinn í málm- og rennismíði á efri árum, í þeirri viðleitni að halda færni mannsandans gangandi þar sem millimetrar skipta máli. Innbyggt skírmál í hendinni sem hann heilsaði þér með gat orðið upphaf fingurgulls sem síðar barst. Hann var aufúsugestur, hvar sem hann bar að, einlægur félagi félaga sinna, einlægur vinur vina sinna, einstakur faðir og afi, ætíð tilbúinn til að leggja hönd á plóg, gerðist þess þörf. Við höfðum verið félagar í Rótarýklúbbi Keflavíkur í hartnær 40 ár og hist þar reglulega. Vináttan mótaðist hins vegar á síðari árum og tengdist að einhverju leyti þjónustu við þann klúbb og væntanlega neista sem við fundum í fari hvor annars. Mér fannst ég ætíð betri maður í návist hans. Vinátta er í eðli sínu fögur og nærandi, á borði við kærleikann, ekki krefjandi, ekki raupsöm, heldur hljóðlát og dýpkar sé að henni hlúð. Við vorum auk Rótarýfunda farnir að hittast reglulega í Keflavíkurkirkju þar sem við spiluðum bridge og sóttum kyrrðarstundir, hann með langan spilaferil að baki, ég enn á byrjunarreit. Hann, ekkillinn, fór svo að koma heim í kaffi og spjall og síðar með mér í sveitina og njóta með mér tilvistar í mynni Hvammsfjarðar þar sem útsýnið yfir láð og eyjar veitir andlega næringu. Þar hafa margar skrúfur verið skrúfaðar og plöntum plantað, ætíð þörf fyrir auka hönd. Held þó að við höfum farið saman félagsskaparins vegna, en kannski dottið í verk eða farið að skoða saman eina borvél. Nú vissi hann af okkur hjónum í sveitinni í veðurblíðu og boðaði komu sína. Hljóðlaust var hann mættur í sólina enda á rafmagnsbíl og tekinn aö spjalla við konuna úti í blómabeði. Við heimsóttum síðan nýju ræktunarjörð skógarbóndans og gróðursettum reyniviðarstiklinga. Hann hafði aldrei séð Hjarðarholtskirkju og hreifst mjög af þessari frumsmíði meistara Rögnvaldar Ólafsssonar. Vel komnir heim beið okkar næring og tilheyrandi spjall í sumarblíðunni – við buðum góða nótt með þakklæti og virðingu og lögðumst til hvílu, hann í það rúm, sem hann ætið gisti á ferðum hingað. Hann gat sofið fram eftir, vissi ég af reynslu, hafði dundað mér á þriðju klukkustund þegar mig langaði að drekka með honum morgunkaffið og ákvað að vekja hann. Þar lá hann eins og hann hafði lagst út af á vinstri hlið, sængin yfir honum án misfellinga, höndin að munni, skreytt eigin völundarsmíð – þvílíkt friðsældaryfirbragð þegar einstakur maður kveður. Tilefni ferðarinnar hingað, án vitundar húsráðenda, var að halda upp á 86 ára afmæli daginn eftir.

Í minningu þessa góða vinar, þökkum við samfylgdina um leið og við vottum aðstandendum samúð okkar.

Konráð Lúðvíksson.

Enn og aftur eru höggvin skörð í raðir þeirra manna sem urðu þess aðnjótandi að starfa í slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli.

Nú er það starfsfélagi minn Njáll Skarphéðinsson sem lést mjög óvænt því eins og alltaf var hann manna hressastur tveimur dögum fyrir andlátið.

Kynni okkar hófust þegar undirritaður hóf störf í slökkviliðinu 1968 en árið 1996 hófst samstarf okkar þegar við urðum stjórnendur á sömu vaktinni. Það var ekki laust við að við, sem fyrir vorum á vaktinni, værum svolítið spenntir og kvíðnir að fá nýjan yfirmann, þar sem sá sem var hafði þá látið af störfum. Ég var ekki undanþeginn þeirri spennu þar sem við áttum að vinna mikið saman og ég að leysa hann af ef þess þurfti. Mjög fljótlega kom í ljós að þessi spenna og kvíði var algjörlega ástæðulaus þar sem Njáll reyndist hinn mesti eðaldrengur og frábær stjórnandi og vann hann hug og hjarta okkar allra sem með honum störfuðum í slökkviliðinu. Samstarf okkar varði þar til hann lét af störfum og það bar aldrei neinn skugga á það samstarf og var afskaplega gaman að vinna með honum. Þegar frá leið var það nokkuð oft sem hann fól mér stjórnina, hann fór í skítagallann og fór út á bílaverkstæði til þess að aðstoða við bílaviðgerðir, þá var hann í essinu sínu. Þar var hann algjörlega á heimavelli því hann hafði mikinn áhuga á bílum og bílaviðgerðum. Njáll var yfirleitt glaðlegur og léttur í lundu sem þarf til þess að vera góður yfirmaður en það er ekki þar með sagt að við kæmumst upp með allt. Við vissum alveg hver var stjórnandi vaktarinnar, það var alveg á hreinu, og hann gat verið harður ef þess þurfti sem var reyndar afskaplega sjaldan.

Njáll hafði góðan húmor og sérstaklega um sjálfan sig og mér er minnisstætt að þegar hann kom aftur til vinnu eftir veikindi og uppskurð sagði hann við mig: „Jónas, ég er kominn á einhverjar bölvaðar pillur og læknirinn sagði að mér gæti runnið í skap, viltu hnippa í mig ef það gerist!“ Jájá svaraði ég en að sjálfsögðu gerðist það aldrei. Einhverju sinni kom ég inn á skrifstofu okkar og þá var hann að reyna að ná í möppu upp á hillu en náði ekki upp. „Jónas, viltu rétta mér þessa möppu,“ sem ég og gerði þá segir hann: „Það er einstaka sinnum sem það háir mér hvað ég er smávaxinn en ég er voðalega þakklátur fyrir að ná niður!“ Ég brosi enn þegar ég hugsa um þessa setningu hans. Ég veit að ég tala fyrir okkur alla sem eftir lifum að þar féll virkilega ljúfur og góður drengur í valinn.

Að lokum vil ég senda fjölskyldu hans allri mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Hversvegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekki svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði)

Jónas H. Marteinsson.