Heimilin greiddu óverðtryggð íbúðalán á breytilegum vöxtum upp um sem nemur 8,3 milljörðum umfram ný lán í bankakerfinu í júní, en um er að ræða metmánuð í þeim efnum. Í maí nam uppgreiðsla slíkra lána tæpum 6 milljörðum króna umfram nýja lántöku, líkt og í apríl

Heimilin greiddu óverðtryggð íbúðalán á breytilegum vöxtum upp um sem nemur 8,3 milljörðum umfram ný lán í bankakerfinu í júní, en um er að ræða metmánuð í þeim efnum. Í maí nam uppgreiðsla slíkra lána tæpum 6 milljörðum króna umfram nýja lántöku, líkt og í apríl. Þetta kemur fram í nýbirtum gögnum Seðlabanka Íslands um ný lán í bankakerfinu.

Ný óverðtryggð íbúðalán á föstum vöxtum námu 1,3 milljörðum umfram uppgreiðslur. Alls nam því uppgreiðsla óverðtryggðra lána óháð vaxtafyrirkomulagi tæpum 7 milljörðum króna umfram ný lán í mánuðinum, samanborið við 4,2 milljarða í fyrri mánuði.

Ný verðtryggð íbúðalán heimilanna, óháð vaxtafyrirkomulagi, námu 7,2 milljörðum umfram uppgreiðslu í júní. Dregur þar aðeins úr frá fyrri mánuði þegar ný lán af því tagi námu 8,7 milljörðum. Mikill meirihluti verðtryggðu lánanna ber fasta vexti, það eru 5,3 milljarðar sem bera fasta vexti á móti tveimur milljörðum sem bera breytilega vexti.

Heimilin tóku ný bílalán um sem nemur 1,2 milljörðum umfram uppgreiðslur í mánuðinum, og lækkar ný lántaka slíkra lána um milljarð milli mánaða.

Ný útlán atvinnufyrirtækja námu 13 milljörðum umfram uppgreiðslur, sem er umtalsverð lækkun frá fyrri mánuðum en hún hefur verið í kringum 30 milljarða á mánuði frá ársbyrjun. Sambærilega sveiflu er ekki að sjá í júní á síðasta ári.