Katrín Þórdís Birnudóttir Thorsteinsson fæddist í Reykjavík 13. febrúar 1982. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 17. júlí 2023.

Hún er dóttir hjónanna Péturs Gunnars Thorsteinsson, f. 26.9. 1955, lögfræðings, og Birnu Hreiðarsdóttur, f. 15.9. 1951, lögfræðings. Foreldrar Péturs Gunnars voru hjónin Pétur Jens Thorsteinsson, f. 1917, d. 1995, og Oddný Elísabet Thorsteinsson, f. 1922, d. 2015. Foreldrar Birnu voru hjónin Hreiðar Jónsson, f. 1916, d. 2008, og Þórdís Jóna Sigurðardóttir, f. 1926, d. 2016. Systkini Katrínar eru: 1) Elsa Matthildur, f. 1971, viðskiptafræðingur, gift Magnúsi S. Óskarssyni, f. 1972, viðskiptafræðingi. Þeirra börn eru Dagur, Pétur Mikael og Hjördís Júlía. 2) Pétur Björn, f. 1980, verkfræðingur, giftur Öglu Margréti Egilsdóttur, f. 1985, lögfræðingi. Þeirra börn eru Pétur Leví, Egill Ísak og Bríet Birna. 3) Tómas Gunnar, f. 1987, hagfræðingur, í sambúð með Hrafnhildi Bjarnadóttur, f. 1993, lækni. Dóttir þeirra er Bergdís Alda. 4) Anna Ásthildur, f. 1988, viðskiptafræðingur, í sambúð með Pierre Le Coadou, tónlistarmanni, f. 1990.

Árið 2010 hóf Katrín sambúð með Agnari Frey ­Helgasyni, f. 8.4. 1982, nú dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hann er sonur Ernu Aðalheiðar Guðjónsdóttur, f. 1941, d. 2022, og Helga V. Guðmundssonar, f. 1938. Katrín og Agnar giftu sig þann 28. ágúst 2012 í Las Vegas, Bandaríkjunum. Börn þeirra eru tvíburasyst­urnar Anna Vigdís og Birna Elísabet, f. 10. apríl 2012, og sonurinn Ernir, f. 9. mars 2017.

Katrín ólst að mestu leyti upp í Reykjavík og á Seltjarnarnesi, en dvaldi enn fremur erlendis með fjölskyldunni vegna starfa föður síns, m.a. Í New York, Moskvu og Washington D.C. Hún lauk stúdentsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík vorið 2002 en lagði síðan stund á frönskunám í Sviss. Katrín hóf laganám við ­Háskólann í Reykjavík árið 2003 og útskrifaðist þaðan með meistarapróf árið 2008. Að því loknu starfaði hún m.a. við uppgjör vegna slita bankanna en flutti árið 2010 ásamt til­vonandi eiginmanni sínum til Columbus, Ohio, í Bandaríkjunum. Þar lauk hún LL.M. gráðu í lögfræði frá The Ohio State University og starfaði um hríð hjá lögmannsstofunni Carpenter Lipps & Leland. Eftir heimkomu árið 2013 starfaði Katrín hjá Seðlabankanum, Landsrétti og Dómstólasýslunni.

Katrín var víðlesin og áhugamálin lágu víða. M.a. lærði hún á píanó í sjö ár, var pistlahöfundur og hafði brennandi áhuga á femínískum fræðum. Auk þess var hún afbragðsmanneskja í matargerð. Hún hafði yndi af ferðalögum, innanlands sem utan, en uppáhaldsstaðurinn hennar var Kaldalón og umhverfi þess í Ísafjarðardjúpi, þar sem hún naut sín til fulls á hverju ári frá tíu ára aldri. Fyrir hana var fjölskyldan þó allt – hún var vakin og sofin yfir velferð barnanna sinna og sýndi hún þeim aðdáunarverða umhyggju og natni, enda bera þau þess fagurt merki.

Útför Katrínar verður gerð frá Hallgrímskirkju í dag, 27. júlí 2023, kl. 15.

Elsku dóttir okkar, Katrín, er farin frá okkur og eftir sitjum við hnípin og með sorg í hjarta. En á sama tíma yljum við okkur við ánægjulegar minningar um einstaka dóttur sem vann í lífsins lottói á öllum sviðum en varð þó að lúta í lægra haldi fyrir krabbameini eftir hatramma baráttu. Hún var geislandi falleg, sparaði ekki yndislega og bjarta brosið sitt, var hláturmild og sá gjarnan spaugilegar hliðar mála. Það var alltaf svo bjart yfir henni og svo notalegt og gott að vera í kringum hana því hlýjan streymdi frá henni. Jafnframt var hún mjög jarðbundin og málefnaleg og gott að leita til hennar með hin ýmsu úrlausnarefni.

Katrín var vel gefin og allt sem hún tók sér fyrir hendur gerði hún framúrskarandi vel og lauk með sóma. Mikill er missir stórfjölskyldunnar en þó eru það eiginmaður hennar og börn sem mest hafa misst, akkerið í lífi þeirra.

Söknuðurinn er og verður yfirþyrmandi.

Blessuð sé minning yndislegrar dóttur, við elskum þig, þá, nú og alltaf.

Mamma og pabbi.

Mig langar að minnast í fáeinum orðum elskulegrar tengdadóttur minnar sem nú er fallin frá alltof snemma. Það færði mér mikla gleði þegar Kata kom inn í líf okkar. Ég hefði ekki getað hugsað mér betri tengdadóttur, því Kata var kærleiksrík, hlý og umhyggjusöm. Þau Agnar eignuðust þrjú yndisleg börn sem gaman hefur verið að fylgjast með vaxa og dafna. Kata og Aggi voru einstaklega samheldin hjón og alltaf var gaman að koma inn á heimili þeirra og ljúft að eiga með þeim samverustund. Það er sárara en orð fá lýst þegar svo ung kona í blóma lífsins er tekin frá eiginmanni og ungum börnum sínum. Kötu verður sárt saknað. Minningin um góðu og hjartahlýju Kötu mun lifa áfram í hjarta okkar. Elsku Agnar minn, Anna Vigdís, Birna Elísabet og Ernir, missir ykkar er mikill. Mig langar að votta ykkur og fjölskyldunni alla mína samúð. Jarðnesk tár okkar flæða nú, en gleðitárin eru huggun harmi gegn. Lind kærleikans lifir að eilífu,

Helgi V. Guðmundsson
og fjölskylda.

Elsku Kata systir og mágkona,

takk fyrir allar yndislegu og ómetanlegu stundirnar sem við áttum saman. Alveg frá því að ég var lítill fannst mér við hafa sérstakt samband okkar á milli. Ég man alltaf þá sögu sem þú sagðir mér, þegar þú varst lítil og festist í lyftu. Þú sagðist hafa farið að gráta út af því að þú varst svo hrædd um að sjá mig aldrei aftur. Ég var þá bara smábarn.

Ég man líka þegar þú varst með sýningu á bekkjarkvöldi eitt skiptið, ég hef verið fjögurra ára. Þegar ég sá þig upp á sviði kom ég strax hlaupandi til þín og steig ofan á plakat sem þú varst búin að búa til. Þér var ekki skemmt!

Þú hafðir líka alltaf gríðarleg áhrif á hvaða tónlist ég hlustaði á og hvaða þætti ég fylgdist með. Ég vildi horfa á Beverly Hills 90210, MTV og VH1 af því að það var það sem Kata systir horfði á. Þú varst alltaf svo hjálpsöm, að skutla manni hingað og þangað og aðstoða mig með heimalærdóminn.

Ég man hvað það var gaman að fá þig í heimsókn til Sviss, sérstaklega þau jól þegar við systkinin fórum saman á skíði, borðuðum góðan mat og horfðum á Friends dögum saman. Vinátta okkar styrktist þó mest þegar ég flutti til Íslands í kjallarann á Ægisíðunni á meðan foreldrar okkur bjuggu enn þá í Sviss. Ég var 16 ára og þú 21 árs. Þetta var ótrúlega mótandi tími fyrir mig og ég var þakklátur fyrir að eyða svona miklum tíma með þér. Við vorum alltaf sammála um hvernig átti að ganga frá heima og hafa snyrtilegt, þótt hin systkini okkar væru stundum á öndverðri skoðun.

Ég man síðan þegar þú byrjaðir að hitta Agga, framtíðareiginmann þinn. Ég var svo sáttur út af því að hann var krati eins og ég, leist svo vel á hann. Ykkar samband var svo frábært og fyrirmynd fyrir mig og Hrafnhildi. Það að þið hafið gift ykkur í Las Vegas er svo lygilegt og sýnir ykkar stórkostlegu karaktera. Ég var samt svo þakklátur fyrir að þið hélduð líka veislu á Íslandi.

Börnin ykkar Agga eru með yndislegustu, klárustu og skemmtilegustu börnum sem ég hef kynnst á ævinni. Uppeldi þeirra var algjörlega framúrskarandi og hefur veitt okkur Hrafnhildi innblástur um það hvernig við viljum haga uppeldi Bergdísar okkar. Þú varst alltaf svo þolinmóð, hlý, áhugasöm og yfirveguð. Besta mamma í heimi.

Við elskum þig svo mikið Kata mín. Það mun ekki líða sá dagur sem við munum ekki hugsa til þín.

Kveðja,

Tómas (Tommi),
Hrafnhildur og Bergdís.

Ástkæra yndislega Kata litla systir mín hefur verið með mér allt mitt líf á einn eða annan hátt. Hún var aðeins rúmlega 18 mánuðum yngri en ég, og við vorum alltaf mikið saman. Ég á varla minningu þar sem hún var ekki með og við vorum ávallt góðir vinir. Hvort sem við vorum í New York að leika Barbie og He-Man, eða þegar við vorum seinna komin til Moskvu og vorum að svindla okkur fremst í röðina á McDonald’s. Við áttum ótal góðar stundir saman.

Sem börn töluðum við mest ensku saman en þegar við fluttum til Íslands þá hjálpuðum við hvort öðru að venjast íslenskunni og hættum alfarið að tala ensku hvort við annað. Þegar við vorum í menntaskóla vorum við oft mikið saman og áttum marga sameiginlega vini. Mér þótti alltaf svo kært að hugsa til þess að við vorum svo mikið að upplifa og læra á lífið saman. Á námsárum okkar bjuggum við ekki alltaf í sama landi en þá héldum við góðu sambandi og heimsóttum hvort annað. Það sama má segja um þegar við bæði stofnuðum fjölskyldur, en við eigum börn á sama aldri. Þó svo að við byggjum ekki í sama landi þá reyndum við að hittast sem mest með börnin okkar við flest tækifæri. Ég er óendanlega þakklátur fyrir hvað börnin okkar eru góðir vinir í dag.

Það sem einkenndi Kötu var að hún var bráðfyndin og var einstaklega fær um að setja mann út af laginu. Hún lét mig oft gráta af hlátri og ég hef oft hugsað til þess. Einnig var hún hrein og bein – hún sagði oft sannleikann þótt það væri ekki alltaf auðvelt, og ég lærði mikið af því.

Kata var ákaflega góð móðir og gerði allt fyrir börnin sín. Börnin hennar eru glæsileg og einkar vel upp alin, en það má líka þakka Agnari manninum hennar fyrir það. En þar sem ég þekkti Kötu svo vel þá sé ég svo vel hennar eiginleika í börnunum hennar – eitthvað sem mér finnst svo dýrmætt og fallegt.

Orð fá því ekki lýst hversu mikið ég mun sakna hennar Kötu. Það er svo sárt að hugsa til þess að ekki geta hitt hana aftur, heyra hláturinn hennar og upplifa hennar lífsgleði. Hennar verður ávallt saknað og minnst.

Pétur Björn
Thorsteinsson.

Það er þyngra en tárum taki að skrifa um þig minningargrein, kæra mágkona. Myndarlega og góðviljaða konu sem ætti, ef rétt væri gefið, að vera í blóma lífsins en hefur nú þurft að lúta í lægra haldi fyrir illvígum sjúkdómi eftir stutta og erfiða baráttu við hann, aðeins 41 árs.

Þið Aggi bróðir höfðuð komið ykkur upp fallegu heimili og börnin ykkar þrjú, tvíburarnir Anna Vigdís og Birna Elísabet, 11 ára, og Ernir, 6 ára, bera þess vitni að vel var um þau hugsað, efnileg börn, hvort heldur er í námi eða öðru því sem þau eru að fást við. Missir þeirra allra er mikill, meiri en orð fá lýst.

Elsku Aggi, þetta er í þriðja skiptið á örfáum mánuðum sem við í fjölskyldunni stöndum frammi fyrir dauðsfalli nákomins ættingja. Það er mikið á herðar þínar lagt, þó aldrei eins og núna, en þú veist að við stöndum saman nú sem fyrr.

Kata mín! Við leiðarlok vil ég þakka þér fyrir góð kynni. Þín verður sárt saknað.

Guðjón Ingi Eiríksson.

Mikill harmur er kveðinn að fjölskyldu og vinum Katrínar systurdóttur minnar sem er nýlátin eftir stutt veikindi. Kata var í blóma lífsins, yndisleg móðir þriggja ungra barna, góð og glæsileg ung kona. Hún átti góðan og traustan eiginmann, Agnar. Þegar hún var að undirbúa fertugsafmæli hans fyrir örfáum árum safnaði hún skemmtilegheitum um hann til þess að nota í veislunni. Þá rifjaðist upp fyrir mér að Aggi var á sínum tíma í tímabundnu verkefni á mínum fyrrverandi vinnustað. Þegar ég komst að því að þau væru að byrja að hittast vaknaði forvitnin og ég fór að virða hann betur fyrir mér. Hann var hinn glæsilegasti, yfir honum stóísk ró og hlýja og vottur af feimni. Augljóslega mannkostamaður og jafnræði með honum og Kötu. Þau héldu áfram að hittast, giftu sig í Las Vegas þegar þau voru erlendis í námi og héldu síðan stórveislu á Íslandi að námi loknu. Nú hefur sorgin barið dyra óvænt og án allrar miskunnar. Mikið mæðir á Agga að halda áfram án Kötu og sinna börnunum þeirra ungu. Þeirra missir er svo óendanlega mikill.

Katrín var yndisleg kona, hlý, hugulsöm og hjálpsöm. Fyrir stuttu sendi hún mér skilaboð, þá sárveik, og bað mig að hjálpa sér að passa upp á mömmu sína vegna þess að þetta væri svo erfitt fyrir hana. Það var Kötu efst í huga og umfram eigin líðan og lýsir vel skapgerð hennar.

Hvíl í friði elsku Kata, þín verður sárt saknað og minning þín mun lifa.

Guðrún Erna
Hreiðarsdóttir.

Það var mjög þungbært að heyra að elskuleg frænka mín, Kata, væri fallin frá eftir erfið veikindi.

Við Kata vorum systradætur og var hún sjö árum yngri en ég. Við bjuggum báðar erlendis sem börn og hittumst við fyrst árið 1984 í New York í heimsókn hjá Birnu frænku og fjölskyldu hennar. Ég man enn eftir litlum tveggja ára glókolli að leika sér í garðinum.

Leiðir okkar lágu saman á Íslandi á árunum sem fylgdu en eftir meira heimshornaflakk og nám okkar beggja sitt hvorum megin Atlantsála tengdumst við aftur sterkari böndum árið 2012. Við áttum það sameiginlegt að eignast báðar dætur það ár með stuttu millibili, hún tvíburastelpurnar sínar og ég Freyju mína. Stórfjölskyldan hittist við ýmis tækifæri en við Kata og makar okkar hittumst einnig þess utan með börnin okkar eða við tvær. Mér þykir vænt um þá vináttu sem við áttum.

Kata frænka var falleg að utan sem innan, góðhjörtuð, hæfileikarík og hlý. Hún stóð sig vel í því sem sem hún tók sér fyrir hendur; sem móðir, vinkona, frænka og lögfræðingur. Kata hafði mikið jafnaðargeð og hafði þann hæfileika að vera jákvæð og óeigingjörn sama hvað á dundi. Síðustu samskipti okkar endurspegluðu það vel, ég skyldi ekki hafa áhyggjur af henni.

Það er stórt skarð höggvið í fjölskylduna og sárið er djúpt. Elsku Aggi og börn, Birna og Pétur, Elsa, Pétur B., Tommi, Anna, makar og börn, ég sendi ykkur mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Aðalheiður
Atladóttir (Alla).

Alltaf þegar Kata birtist fylltist allt birtu og yl – þetta hlýja og glettna bros og blik í auga. Kata hafði sérlega góða nærveru og hún var einstaklega blíð og ljúf manneskja sem fór ekki í manngreinarálit. Kata var vönduð manneskja og heillandi á allan hátt. Hún gerði allt vel sem hún tók sér fyrir hendur með bros á vör og húmorinn að vopni. Hún var góð og umhyggjusöm móðir og bera börnin þeirra Agga, þau Anna, Birna og Ernir, foreldrum sínum gott vitni, þessi einstaklega fallegu, ljúfu og skemmtilegu börn sem þar að auki eru miklir bókaunnendur.

Kata var sérlega hnyttin í tilsvörum og mikill húmoristi, en aldrei var fyrirgangi eða hávaða fyrir að fara, það var ekki hennar stíll. Húmorinn átti sér margar birtingarmyndir, en það verður samt að segjast eins og er að í fyrstu kom það svolítið flatt upp á fjölskylduna þegar Kata og Aggi skelltu sér til Las Vegas þegar þau voru í námi Bandaríkjunum og létu sjálfan Elvis í sínu fínasta pússi gefa sig saman. Seinna var haldin heljarinnar brúðkaupsveisla hér heima sem seint gleymist.

Kata var mjög fær fagmanneskja og var hún á framabraut í sínu fagi. Eftir að hún veiktist tók við afar stutt og snörp orrusta við skæðan fjanda sem að lokum hrifsaði hana frá eiginmanni, börnum og fjölskyldu. Allt gerðist svo hratt og hún var tekin frá fjölskyldu sinni og okkur öllum svo allt of fljótt.

Það er erfitt að ná utan um þá staðreynd að þessi unga og stórglæsilega kona í blóma lífsins er ekki lengur hér. Það er erfitt að ná utan um þá staðreynd að við fáum aldrei aftur að hitta elskulega frænku okkar, heyra rödd hennar, eða sjá hana brosa með blik í auga.

Áfall fjölskyldu hennar er ólýsanlegt og söknuðurinn sár. Hugur okkar er hjá Agga og elsku börnunum, sem nú sjá á bak móður sinni, einnig hjá foreldrum hennar, þeim Birnu og Pétri, systkinum og fjölskyldum þeirra. Orð fá ekki lýst þeirra þungu sorg.

Takk fyrir allt, elsku hjartans Kata okkar. Minning þín mun ávallt lifa.

Sólveig, Ólafur
og fjölskylda.

Ein stærsta lukka lífs míns var að eignast góðan vinkvennahóp um tíu ára gömul. Ég var svo heppin að Katrín Thorsteinsson var ein þeirra.

Árið er 1991. Við erum 10 ára og hjólaskautum upp og niður allar brekkur á Seltjarnarnesi. Förum í sund og heim að hlusta á Stjórnina. Við erum 11 ára og erum í Vindáshlíð með fléttuð vinaarmbönd. Komum heim og horfum á Beverly Hills. Við erum 12 ára og spáum fyrir um brúðkaup, barneignir og starfsframa hvor annarrar. Við verðum táningar og eigum stuðninginn vísan hvor í annarri.

Kata féll vel inn í vinkonuhópinn en var einstök. Hún var eins og kryddið sem er nauðsynlegt til að uppskriftin verði það sérstök að gestir biðji um uppskriftina. Yfir henni lá einhver ára sem var bæði spennandi og framandi. Hún kunni útlensku, hafði búið lengi erlendis og var sérstaklega hugmyndarík. Saman bjuggum við vinkonurnar til marga leiki, heima, úti og í sundi.

Við áttum einn leik sem er mér sérstaklega minnisstæður. Leikurinn gekk út á að við vorum hefðarfrúr sem mæltu með eindæmum formlegt mál. Við sátum oft í betri stofunni á Sævargörðum í hefðarfrúarleiknum. Það var fullkomið umhverfi fyrir hefðarfrúr enda heimilið fullt af fallegum hlutum frá útlöndum. Það kæmi mér ekki á óvart ef hefðarfrúarleikurinn væri kominn úr smiðju Kötu. Enda var hún snillingur í orðatiltækjum og málsháttum rétt um tíu ára aldurinn, þrátt fyrir að vera tvítyngd. Á fullorðinsárum hélt Kata áfram að þróa sína orðsnilli og átti til að skrifa háfleygan texta í einkaskilaboðum. Fyrir nokkru skrifaði hún mér: „… annars er ekki mikið að frétta héðan, nema það er skyndilega skollið á haust, mér til mikillar armæðu.“ Það gladdi mig alltaf jafn mikið að sjá skína í hefðarfrúna með fágaða talsmátann.

Mér fannst ég njóta forréttinda að eiga þessa flottu vinkonu á Sævargörðunum. Hún var með málningartrönur í herberginu sínu og badmintonnet og sundlaug í garðinum.

Stundum fórum við í sund í lauginni en ég man meira eftir að þegar það var ekki vatn í lauginni létum við okkur síga ofan í tóma steinsteypta sundlaugina og notuðum hana sem hjólaskautavöll. Það er ein af mínum uppáhaldsæskuminningum. Að hjólaskauta ofan í sundlaug. Hversu töff? Bara Kata gat boðið upp á það ævintýri.

Fyrir mér vorum við bundnar meiru en vinaböndum, við vorum bundnar fjölskylduböndum. Lífsgleði mín var fullhlaðin á æskuárunum þökk sé okkar böndum. Fyrir það er ég ævinlega þakklát.

Á menntaskólaárunum fórum við saman á öll menntaskólaböllin, sem voru fyrir mér það eina sem skipti máli á þeim tíma. Þá var glatt á hjalla hjá öllum hefðarfrúm.

Eftir tvítugsaldurinn fórum við sín í hvora áttina og bjuggum mörg árin ekki í sama landi en heyrðumst annað slagið. Ég er þakklát fyrir að við náðum að hittast í fyrrasumar og aftur í vor. Það var svo gott að finna hvað tengingin er alltaf sterk. Blessuð sé minning Kötu.

Elsku Agnar og börn og Birna, Pétur og systkini, innilegar samúðarkveðjur. Hugur minn og hjarta er hjá ykkur, elsku fjölskylda.

Tinna Guðjónsdóttir.

Elsku Kata okkar.

Endrum og eins er maður harkalega minntur á hvað lífið getur verið grimmt og ósanngjarnt. Þrátt fyrir sorg og reiði yfir því að á einhvern óskiljanlegan hátt sé komið að kveðjustund upplifum við fyrst og fremst mikið þakklæti fyrir að hafa kynnst þér.

Þú varst einstök, það vita allir sem þér kynntust. Traust og góð vinkona sem ávallt var hægt að leita til. Einstaklega trú þínum og með forgangsröðunina á hreinu, börnin og fjölskyldan ávallt í fyrsta sæti. Svo varstu auðvitað einstaklega orðheppin og fyndnust í heiminum. Þó vinskapur okkar hafi eingöngu spannað nokkur ár eru minningarnar margar, hvort sem þær snúa að ógleymanlegri Edinborgarferð, endalausum hlátri eða hversdagslegum hlutum í dagsins önn sem við sjáum núna að við tókum sem sjálfgefnum. Alltaf varstu tilbúin til að taka þátt í öllu og skipuleggja skemmtilega viðburði.

Takk elsku Kata fyrir bestu ferðirnar, húmorinn, hláturinn, partíleikina, samtölin og allt hitt. Við munum sakna þín.

Þínar vinkonur,

Erla Vinsý, Hrafnhildur, Lilja Björk og Snædís Ósk.

Einn fegursta hlýviðrisdag sumarsins barst sú frétt að Katrín Thorsteinsson, hún Kata dóttir Birnu og Péturs, vinafólks okkar, væri dáin. Hrifin burt í blóma lífsins, frá manninum sínum, börnunum litlu, foreldrum og systkinum. Þótt við hefðum vitað af alvarlegum veikindum hennar nú um nokkurra vikna skeið var fréttin svo óraunveruleg enda dauðinn svo fjarlægur.

Við vinkonur Birnu úr lagadeildinni höfum haldið hópinn í gegnum lífið. Við lukum náminu sex saman en fyrir nokkrum árum lést ein okkar, Snædís Gunnlaugsdóttir. Við höfum alla tíð hist og ferðast mikið saman, leikið golf og fylgst hver með annarri, börnunum okkar, sem sum fæddust á meðan á náminu stóð, uppvexti þeirra, menntun, giftingum og í seinni tíð barnabörnunum. Í huga okkar hefur barnahópurinn hennar Birnu skipað sérstakan sess. Fimm börn hvert öðru fallegra og efnilegra, börn sem alltaf voru vel tilhöfð og höfðu fallega framkomu, enda alin upp á menningarheimili víðs vegar um heiminn. Hvernig þeim Birnu og Pétri tókst að halda utan um hópinn sinn á öllum þessum ferðalögum og í öllum þessum flutningum frá einum stað til annars var ótrúlegt og útheimti samheldni og skipulag. Við sem þekkjum Birnu vissum svo vel hvað hún gaf börnunum sínum. Kata var í miðju systkinahópsins, glæsileg og greind og hafði áhuga á samfélagsmálum. Hún varð lögfræðingur eins og foreldrarnir, var gift góðum manni og átti með honum þrjú börn, naut sín vel í foreldrahlutverkinu og börnin litlu yndisleg. Kata vann hjá Landsrétti og þar kynntumst við henni sem fagmanneskju, og fundum að hún hafði svo sannarlega erft allt hið góða frá foreldrum sínum, greindina, samskiptahæfnina og hógværðina auk glæsilegs útlits. Lífið lék við litlu fjölskylduna og framtíðin var björt.

Við sitjum eftir með spurninguna um hvers vegna kona í blóma lífsins, sem virðist eiga framtíðina fyrir sér og hafa svo miklu hlutverki að gegna, sé tekin frá okkur og hversu ósanngjarnt almættið getur verið. Við sendum ykkur öllum innilegar samúðarkveðjur í sorginni.

Jónína Jónasdóttir, Lára V. Júlíusdóttir, Sigríður Ingvarsdóttir og Sólveig Pétursdóttir.

Lífið er ekki alltaf sanngjarnt og oft óskiljanlegt og nú þegar við erum að kveðja Kötu, nánast fyrirvaralaust eftir stutta baráttu, sem hún háði af hugrekki við illvígan sjúkdóm, fyllumst við af sorg og söknuði.

Við kynntumst Kötu fyrir alvöru þegar hún og Agnar voru orðin par. Hann ljómaði þegar hann talaði um hana og hún hafði strax góð áhrif á hann. Sambandið hélt áfram að þroskast og dafna og leiddi af sér nám og fæðingu systranna í Bandaríkjunum, giftingu í Vegas, frábæra brúðkaupsveislu á Íslandi og fæðingu sonar í kjölfarið. Síðan þá eru liðin mörg ár og við erum þakklát fyrir marga skemmtilega hittinga í vinahópnum.

Þegar við hugsum til Kötu koma fram minningar um fallega sál með þægilega nærveru, góða konu með stórt hjarta sem var alltaf til í að gefa af sér og hvetja sitt fólk áfram. Hugur okkar er hjá Önnu Vigdísi, Birnu Elísabetu, Erni og Agnari sem þurfa að kveðja mömmu sína og eiginkonu allt of fljótt. Við vottum þeim og öðrum aðstandendum okkar dýpstu samúð.

Andrés, Ágúst,
Ásgeir, Einar, Hrafn, Jens, Kjartan,
Magnús og makar.

Elsku yndislega og fallega vinkona mín. Engin orð fá því lýst hve þungbær sorg okkar er. Við sitjum eftir sem lömuð, með öndina í hálsinum, minningarnar streyma um hugann og það nístir hjartað. Ég sé þig enn svo ljóslifandi fyrir mér með breiða brosið þitt, háu kinnbeinin og fallegu skáleitu augun, kaldhæðnislega húmorinn þinn og hlátrasköllin sem voru svo innileg og ekta. Samræðurnar um lífið og tilveruna og þín góðu gildi sem í þeim birtust. Því þínar hugsjónir voru svo fallegar og þú varst oft svo „spot on“ þegar kom að stóru málunum. Þú gafst sko engan afslátt af þínum gildum.

Þú varst góðhjörtuð alveg inn að beini og talaðir svo fallega um fólkið þitt, litlu demantana þína og Agga þinn. Umvafðir alla svo miklum kærleika og hlýju og lagðir þig svo innilega fram við að halda í tengslin við þá sem þér þótti vænt um. Þegar við fluttum í Vættaborgirnar varst þú auðvitað mættust með stelpurnar þínar að aðstoða okkur og þvílíkur dugnaður í stelpunum, ég átti ekki orð yfir hugulsemina og hjálpsemina. Greinilega dætur móður sinnar.

Það voru einstök forréttindi að fá að eyða heilu og hálfu dögunum með þér í vinnunni hér í den og auðvitað mesta snilldarframtakið hjá þér, forsprakkanum og formanninum, að stofna bókaklúbb undanþágnanna fyrir okkur gamla gengið þegar gamla gjaldeyriseftirlitið leið undir lok. Við munum svo sannarlega halda honum áfram á lofti þér til heiðurs elsku engillinn minn. Enga okkar hinna grunaði að síðasti bókaklúbburinn heima hjá okkur í Vættaborgunum 3. maí sl. yrði okkar síðasti. Áður en þú kvaddir tókstu svo fallega hópmynd af okkur stelpunum sem nú prýðir opnusíðu klúbbsins og nú skil ég af hverju þér var mikið í mun að ég ætti áfram fallega Karen Millen-kjólinn sem þú gafst mér hérna um árið. „Nei, þú átt að eiga hann handa Unni Siggu,“ sagðir þú og tókst ekki í mál að taka hann aftur.

Guð hvað ég sakna þín elsku vinkona mín og mun alltaf gera. Þú lifir áfram í hjarta okkar og huga og í dásemdarbörnunum ykkar Agga. Elska þig að eilífu hjartað mitt. Megi allar heimsins vættir styrkja ykkur í sorginni elsku Aggi, Anna Vigdís, Birna Elísabet, Ernir og stórfjölskylda.

Guð fylgi þér engill þá ferð sem þér ber.

Þótt farin þú sért, þá veistu sem er.

Að sorg okkar hjörtu nístir og sker.

Við sjáumst á ný þegar kemur
að mér.

(K.K. – þýð. Ó.G.K.)

Þín vinkona,

Guðrún Halla
Daníelsdóttir.

Það er átakanlegt að þurfa að skrifa hinstu kveðju og minnast elsku Kötu okkar. Kata var innilega góðhjörtuð og alltaf til staðar. Jafnvel núna á síðustu vikum þegar hún sjálf var að berjast við veikindi þá var hún að hugsa um okkur vinkonurnar og bjóða fram aðstoð. Þetta er ótrúlega lýsandi fyrir Kötu.

Kata vakti athygli allra, hvert sem hún fór, en hún var svo hláturmild, guðdómlega falleg og fáguð. Hún tók sjálfa sig samt aldrei of alvarlega og var með ótrúlega skemmtilegan kaldhæðinn húmor sem gat gengið fram af viðkvæmum en það var einmitt partur af okkar einkahúmor.

Við erum þakklátar fyrir allar minningarnar og vináttu sem hófst í barnaskóla, hélst í gegnum menntaskólaárin og fram á fullorðinsár. Í seinni tíð, þegar við vorum uppteknar konur, bjó yfirleitt a.m.k. ein okkar erlendis og þá voru hittingar með okkur öllum dýrmætir. Gæðastundir í bústað þar sem við hlógum yfir rauðvíni og enduðum kvöldið í trylltum dansi og gleði eru núna minningar sem við hlýjum okkur við. Kata hefur fylgt okkur mestalla ævina, við höfum mótast með Kötu og hún er og verður alltaf hluti af okkur.

Það er sársaukafullt að hugsa til þess að heyra ekki í henni og geta ekki hlegið með henni aftur. Við fyllumst þakklæti yfir því að hafa fengið að hafa hana sem hluta af lífshlaupi okkar. Við erum ríkari fyrir það að hafa átt hana að. Síðustu skilaboð hennar til okkar voru lýsandi og dýrmæt, hún skrifaði: hahaha.

Kvenskörungur

Glæsileg, ótrúlega klár

með allt sitt upp á hár.

Hún var alltaf þekkingu að sér
að viða

en hæfileikar eins og að tala afturábak gerðu alla forviða.

Traust, fórnfús og réttlát

svarti húmorinn gat gert alla mát.

Hrein og bein, glettinn gleðigjafi

frumlegur, natinn og skemmtilegur gestgjafi.

Mögnuð móðir; blíð, ötul og
umhyggjusöm

tíma og virðingu hennar þau voru töm.

Fjölskyldan og börnin voru henni allt

Hún sagði það og sýndi þúsundfalt.

Gjafmildi og dugnaður, aldrei vorkunn eða væl

bar höfuð sitt hátt og brosti sæl.

Hjarta og huga okkar hefur gleði, minningum og visku pakkað

fyrir það fáum við aldrei að fullu þakkað.

Elsku Aggi, Anna, Birna, Ernir og fjölskylda, hjartans samúðarkveðjur. Hugur okkar er hjá ykkur.

Berglind, Dísa og Hrefna.

Elsku Kata.

Ég trúi ekki að þú sért farin. Mín yndislega æskuvinkona sem kenndir mér svo mikið. Ég er innilega þakklát fyrir okkar litla spjall sem við áttum fyrir nokkrum dögum og ég vildi að þú hefðir verið viðstödd þegar dætur þínar og dætur mínar voru að keppa hver á móti annarri á Símamótinu. Ég horfði á leikinn með kökk í hálsinum og gat ekki haft augun af þínum fallegu tvíburum sem tóku leikinn með stæl alveg eins og þú hefðir gert.

Ég mun aldrei gleyma þegar þú komst í níu ára bekk í ljósbláu úlpunni með mynd af litlu lambi og mig langaði um leið að kynnast þér. Við urðum strax vinkonur og gengum saman í gegnum æskuna og unglingsárin sem voru okkur stundum erfið en alltaf skemmtileg. Við tækluðum vandamálin á okkar hátt og gerðum hlutina eins og okkur hentaði. Okkar ár saman eru ómetanleg og mér þykir vænt um hvern einasta dag sem við áttum. Það var mín lífsins lukka að kynnast þér og þínum stóra heimi, veraldarvönu og skemmtilegu fjölskyldunni þinni þar sem var alltaf nóg um að vera. Það var svo gaman að vera heima hjá þér, þar var alltaf líf, gleði og gaman og ég elskaði að koma á Sævargarðana þar sem allt mátti og allt var til. Sundlaugin, allur framandi maturinn sem ég hafði aldrei séð og heimsóknirnar til Oddnýjar ömmu þinnar á Ægisíðuna víkkuðu minn sjóndeildarhring og ég man hvað ég elskaði sögurnar hennar. Það var erfitt þegar þú fluttir til Washington en bréfin og gjafirnar frá þér voru ómetanleg og gáfu litlu mér mikið líf. Þú sendir mér armbönd og hálsmen og alls konar amerískt sem fékkst ekki á Íslandi og mér fannst ég heppin að eiga svona flotta vinkonu sem bjó úti í hinum stóra heimi.

Ég verð að minnast á okkar gengi sem við nefndum Lexurnar, þessi tími mótaði okkur allar og var okkar upphaf að því að takast á við hinn stóra heim. Við vorum fimm, ég, þú, Begga, Dísa og Tinna, og okkur fannst við ósigrandi. Það átti enginn séns í okkur, við ætluðum að sigra heiminn saman og gáfum hver annarri styrk, hugrekki og þor. Þessi vinkonuhópur er svo einstakur og ég vildi að við hefðum getað hist allar eins og við ræddum bara fyrir stuttu. Við gömlu vinkonurnar ætlum nú að hittast áfram og heiðra minningu þína elsku hjartans Kata, við munum aldrei gleyma þér. Ég á endalausar minningar, fyndnar, skrítnar, asnalegar og hlægilegar en þær eru allar dýrmætar og ég þakka fyrir að eiga þær. Þú varst og verður alltaf í hjarta mínu sem fallega Kata langbesta vinkona, Hole-sálufélagi, kaldhæðinn húmoristi og ótrúlega klár, dugleg og besta mamma í heimi. Það svíður að geta ekki rifjað upp þessa tíma með þér. Þú varst alveg einstök vinkona og ég sakna þín innilega mikið. Hvíldu í friði.

Þín gamla vinkona,

Anna Soffía.