[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í tilefni þess að nú styttist óðum í stærstu ferðahelgi ársins sló Þórunn upp glæsilegri garðveislu heima á pallinum með ljúffengum og litríkum kræsingum. Hún stillir þeim fagurlega upp enda er Þórunn annáluð fyrir skreytingarnar sínar og skreytir með sínu nefi

Sjöfn Þórðardóttir

sjofn@mbl.is

Í tilefni þess að nú styttist óðum í stærstu ferðahelgi ársins sló Þórunn upp glæsilegri garðveislu heima á pallinum með ljúffengum og litríkum kræsingum. Hún stillir þeim fagurlega upp enda er Þórunn annáluð fyrir skreytingarnar sínar og skreytir með sínu nefi. Hana skortir aldrei nýja hugmyndir þegar kemur að því að fanga augað eins sjá má á kræsingunum sem hún töfraði fram.

Einfaldleikinn og fagurfræðin

Kræsingarnar sem Þórunn bauð upp á er einfalt að gera og paraði Þórunn drykkjarföng við mat. „Ég bauð upp á mímósu fyrir fullorðna fólkið og bleikan drykk fyrir krakkana sem er í raun bara vatn og ribbenasafi, fyllt með klaka og jarðarberjum,“ segir Þórunn.

Einfaldleikinn og fagurfræðin réð ríkjum í vali Þórunnar á þeim kræsingum sem hún bauð upp á. Þórunn var meðal annars með gúrkusamlokur með túnfisksalati, skinku- og ostarúllur með saltstöng, súkkulaðihúðað Oreo-kex með „sprinkles“, brúntertu með sprinkles og melónupinna sem lauflétt er að setja saman. Síðan var hún með dýrinds míní-baguette með humarsalati, vöfflur með kjúklingi með gráðostasósu, bláberja-heslihnetuköku og avókadórúllur með kjúklingi. Þórunn deilir hér með lesendum nokkrum uppskriftum að réttum sem upplagt er að útbúa fyrir garðveislu, lautarferðina eða hvaðeina sem ykkur dettur í hug að gera til að gleðja bæði auga og munn. Gráðostasósuna og chili-majó má líka nota sem dressingu með vefjum eða því sem ykkur finnst passa.

Míní-baguette með humarsalati

3 pk af mini baguette (2 í pakka)

500 g skelflettur humar, léttsteiktur á pönnu

3 msk. Heinz-majónes

2 msk. 18% sýrður rjómi

gúrka, smátt söxuð

3 stk. harðsoðin egg, skorin niður í eggjaskerara

hvítlauksduft eftir smekk

sítrónusafi eftir smekk

salt og pipar eftir smekk

smá Sriracha-sósa

Forhitið ofninn í 180°C. Byrjið á því að hræra saman, í meðalstóri skál, majónesi og sýrðum rjóma og smakkið til með sítrónusafa, hvítlauksdufti, salti og pipar og smá Sriracha-sósu. Bætið síðan við saxaðri gúrku, eggjum og léttsteikta humrinum. Skerið síðan baguettebrauðin langsum að ofan, til að setja humarsalatið ofan í.

Bakið brauðin örstutt í ofninum á 180°C. Takið út og raðið brauðunum á fallegt bretti eða ílangan disk og fyllið með humarsalati og skreytið að vild.

Buffalokjúklinga-vöfflusamlokur með gráðostasósu

1 pk. af elduðum kjúklingi í kryddhjúpi

1 kassi af tilbúnum vöfflum, rista þær

1 krukka Frank-buffalósósa

gráðostasósa eftir smekk (sjá uppskrift fyrir neðan)

chili-majó eftir smekk (sjá uppskrift fyrir neðan)

kál eftir smekk

tómatar eftir smekk

partípinnar

Byrjið á því að rista nokkrar vöfflur, 6 til 8 stykki. Setjið á hverja vöfflu kál, tómata, kjúkling, gráðostasósu, chili-majó og Frank-buffalósósu eftir smekk. Lokið með því að setja aðra vöfflu ofan á.

Stingið partípinna í gegnum vöffluna til að halda samlokunni saman.

Gráðostasósa

3 msk. Heinz-majónes

2 msk. 18% sýrður rjómi

3 stk hvítlauksrif, marin

salt og pipar eftir smekk

1 stk. gráðostur

1 tsk. hunang

Setjið allt hráefnið í skál og hrærið vel saman. Geymið sósuna í kæli fyrir notkun.

Chili-majónes

3 msk. majónes

Sriracha-sósa eftir smekk

salt og pipar eftir smekk

sítrónusafi eftir smekk

Setjið allt hráefnið í skál og hrærið vel saman. Smakkið til með salti og pipar. Geymið í kæli fyrir noktun.

Bláberja-heslihnetukaka

1 pakki svampbotnar

1 pakki púðursykurmarengs

500 ml rjómi, þeyttur

1 stk. Philadelphia-ostur

100 g heslihnetur

bláber eftir smekk

fersk blóm til skrauts

Leggið svampbotninn á bakka eða disk sem þið viljið bera kökuna fram á. Setjið á botninn hráefnið í þeirri röð sem þið viljið. Setjið á efsta lagið marengs og þeytan rjóma og skreytið með bláberjum og ferskum blómum ef vill.

Avókadórúllur með kjúklingi

1 pk. tortillavefjur

½ eldaður kjúklingur, rifinn niður

3 stk. avókadó, skorin í sneiðar

kóríander, grófsaxað, eftir smekk, má sleppa

sítrónusafi eftir smekk

smá rauðlaukur, saxaður

2 stk. hvítlauksrif, marin

2 msk 18% sýrður rjómi

salt og pipar eftir smekk

maribo-ostur eftir smekk

Byrjið á því að hræra saman dressinguna, sýrðan rjóma, hvítlauk, sítrónusafa og smakkið til með salti og pipar. Smyrjið hverja tortillu með dressingunni. Raðið á vefjurnar hráefninu sem eftir er, kjúklingi, avókadó, osti, rauðlauk og kóríander ef vill. Rúllið þétt upp og skerið í hæfilega stóra bita. Raðið fallega upp á bakka eða bretti.

Höf.: Sjöfn Þórðardóttir