Nýbygging Svona hugsa arkitektarnir sér að nýja hótelið líti út. Mögulega á tillagan eftir að taka breytingum.
Nýbygging Svona hugsa arkitektarnir sér að nýja hótelið líti út. Mögulega á tillagan eftir að taka breytingum. — Tölvumynd/T.ark
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur tekið jákvætt í ósk um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar Borgartúns 1. Núverandi byggingar víki og í staðinn verði byggt stórt hótel samkvæmt uppdrætti T.ark arkitekta

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur tekið jákvætt í ósk um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar Borgartúns 1. Núverandi byggingar víki og í staðinn verði byggt stórt hótel samkvæmt uppdrætti T.ark arkitekta. Margir kannast við skrifstofubygginguna Borgartún 1 vegna sérstaks útlits hennar. Bogadregin ásýnd hússins nýtur verndunar götumyndar og skal útlit hótelsins taka mið af því. Húsið stendur gegnt þekktri byggingu í borginni, Rúgbrauðsgerðinni.

Það er félagið BE eignir ehf. sem sendi fyrirspurn um breytingu á Borgartúni 1 til Reykjavíkurborgar. Samkvæmt hlutafélagaskrá var félagið stofnað árið 2013 af Höfðatorgi ehf. Á heimasíðu Íþöku fasteignafélags er verkefnið kynnt svo: Hótelbygging á fjórum hæðum. Áætlaður fjöldi herbergja: 105-115. Áætluð stærð er um 5.600m². Verkefnið er í þróun og bíður eftir réttum leigutaka áður en bygging hefst.

Fram kemur í umsögn verkefnastjóra skipulagsfulltrúa að óskað sé eftir því að sameina lóðirnar Borgartún 1, Borgartún 3 og Guðrúnartún 4 og byggja á þeim eitt stórt hótel. Í dag eru nokkur fyrirtæki skráð í Borgartúni 1 og í bakhúsi er Samhjálp með kaffistofu.

Húsið að Borgartúni 1 telur í dag tvær hæðir á horninu og eina hæð austar, meðfram Borgartúni. Heimild er fyrir hótelbyggingu á lóðinni.

Dósir og vátryggingar

Samkvæmt fasteignaskrá var hornhúsið byggt árið 1942. Þar var vátryggingafélagið Trolle og Rothe hf. lengi til húsa. Þetta var fyrsta vátryggingafélag landsins en er ekki lengur starfandi. Lægri byggingin var reist 1939. Þar var Dósaverksmiðjan hf. til húsa. Dósaverksmiðjan framleiddi blikkdósir og brúsa og ýmiss konar umbúðir úr blikki fyrir niðursuðuverksmiðjur, málningarverksmiðjur og efnagerðir.

Fram kemur í umsögn verkefnastjórans að samkvæmt fyrirspurninni/tillögunni verði ný hótelbygging fimm hæðir, þar sem fimmta hæðin er inndregin, og sé það umfram gildandi heimildir. Gefið er upp í fyrirspurn að byggingarmagn ofanjarðar verði 6.800 fermetrar en ljóst sé að byggingamagn verði talsvert meira á lóðunum þremur miðað við skissur af húsinu. Tillagan falli ekki innan gildandi deiliskipulagsskilmála.

Gera þarf breytingar

Skipulagsfulltrúi gerir ekki athugasemd við að umsækjandi láti vinna breytingu á deiliskipulaginu til þess að heimila sameiningu lóðanna þriggja og byggingu hótelbyggingar á þeim. Ýmis atriði í útfærslunni þarf þó að endurskoða og/eða gera betur grein fyrir og leggja fyrir skipulagsfulltrúa áður en sótt verður um breytingu á deiliskipulaginu.

Skipulagsfulltrúi er ekki mótfallinn því að skoða hækkun hússins að hluta, og þá helst næst horninu, en getur ekki tekið afstöðu til nákvæmrar útfærslu/möguleika hækkunar fyrr en skuggavarpsmyndir (fyrir og eftir) liggja fyrir.

Vakin er athygli á að heimild er fyrir íbúðum að Guðrúnartúni 6 og er gert ráð fyrir að á baklóðinni séu græn dvalarsvæði fyrir íbúa. Uppbygging hótels má ekki rýra gæði þessara svæða. Gera má ráð fyrir því að tengibyggingu á baklóð þurfi að lækka en skoða þarf nánar skuggavarp.

Í gildandi deiliskipulagi er kvöð um gönguleið yfir Borgartún 1. Hún virðist felld út í tillögunni. Æskilegt er að halda í einhverja göngutengingu í gegnum reitinn. Óljóst er hvort göngukvöð sé fyrirhuguð austan við hótelið í staðinn, yfir lóðirnar Borgartún 3 og Guðrúnartún 4. Gera þarf nánar grein fyrir þessu, segir verkefnisstjórinn.

Samkvæmt deiliskipulaginu gildir „verndun götumyndar“ á bogadregna horninu. Verkefnastjórinn segir að í tillögunni sé byggingarstíll og karakter hússins mjög frábrugðinn núverandi húsi. Óskað er eftir því að umsækjandi leggi fram tillögu að því hvernig hann hyggst vinna með verndun götumyndarinnar á horninu.

Fyrirspurn BE eigna ehf. var lögð fram á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 8. júní sl. Fyrirspurninni var vísað til umsagnar verkefnastjóra og var lögð fram að nýju ásamt umsögn skipulagsfulltrúa á fundi 21. júlí. Var hún samþykkt og heimilað að láta vinna breytingu á deiliskipulagi, þegar tekið hefur verið á framangreindum atriðum.