Sigurmarkið Kanadísku leikmennirnir fagna Adriönu Leon eftir að hún skoraði markið sem réð úrslitum gegn Írlandi í Perth í gær.
Sigurmarkið Kanadísku leikmennirnir fagna Adriönu Leon eftir að hún skoraði markið sem réð úrslitum gegn Írlandi í Perth í gær. — AFP/Colin Murty
Ólympíumeistarar Kanada náðu að knýja fram sinn fyrsta sigur á heimsmeistaramóti kvenna í fótbolta í gær með því að vinna baráttuglaða Íra í hörkuleik í Perth í Ástralíu, 2:1. Þar með er ljóst að Írar þurfa að pakka saman og halda heimleiðis eftir…

HM 2023

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Ólympíumeistarar Kanada náðu að knýja fram sinn fyrsta sigur á heimsmeistaramóti kvenna í fótbolta í gær með því að vinna baráttuglaða Íra í hörkuleik í Perth í Ástralíu, 2:1.

Þar með er ljóst að Írar þurfa að pakka saman og halda heimleiðis eftir riðlakeppnina en eftir tvo nauma ósigra gegn Ástralíu og Kanada er þessu fyrsta HM-ævintýri írsku kvennanna að ljúka að sinni. Þær eiga eftir að mæta Nígeríu í lokaumferðinni.

Nígería er enn í baráttu við Kanada og Ástralíu um að komast áfram úr riðlinum en viðureign Nígeríu og Ástralíu hefst klukkan 10 í dag, þar sem Ástralir geta tryggt sér farseðlana í sextán liða úrslitin með sigri.

Liðin tvö sem fara áfram úr þessum riðli mæta tveimur efstu liðum D-riðils en þar standa England og Danmörk betur að vígi í baráttu við Haítí og Kína eftir sigra í fyrstu umferðinni.

Katie McCabe, fyrirliði Írlands og leikmaður Arsenal, setti mikinn skrekk í Kanadaliðið með því að skora beint úr hornspyrnu á 4. mínútu. Kanada náði að jafna með sjálfsmarki í uppbótartíma fyrri hálfleiks og Adriana Leon skoraði sigurmarkið á 53. mínútu. Hún er þrautreyndur framherji sem er á mála hjá Manchester United og spilaði áður með Dagnýju Brynjarsdóttur hjá West Ham en var í láni hjá Portland Thorns í Bandaríkjunum síðustu vikurnar fyrir HM.

Cloé Eyja Lacasse kom inn á sem varamaður hjá Kanada á 59. mínútu og hefur því komið við sögu í tveimur fyrstu leikjum liðsins á mótinu.

C-riðillinn á hreinu

Spánn og Japan urðu í gærmorgun tvö fyrstu liðin til að tryggja sér sæti í sextán liða úrslitunum með því að vinna örugga sigra í leikjum sínum í C-riðlinum á Nýja-Sjálandi.

Japan vann Kosta Ríka 2:0 í Dunedin og Spánn vann Sambíu 5:0 í Auckland. Liðin eru bæði með sex stig og viðureign þeirra í lokaumferðinni á mánudaginn sker úr um hvort þeirra vinnur riðilinn. Spánverjum nægir jafntefli vegna betri markatölu.

Mótherjar Spánar og Japans í sextán liða úrslitum koma úr A-riðlinum þar sem Sviss, Nýja-Sjáland, Filippseyjar og Noregur eru öll í baráttu um að komast áfram fyrir lokaumferðina þar en hún er leikin á sunnudaginn.

Hikaru Naomoto og Aoba Fujino skoruðu mörk Japans um miðjan fyrri hálfleik gegn Kosta Ríka. Mina Tanaka kom að báðum mörkunum og hefur átt þrjár stoðsendingar á mótinu.

Jennifer Hermoso, sem lék sinn 100. landsleik, og varamaðurinn Alba Redondo skoruðu tvö mörk hvor fyrir Spán gegn Sambíu og varamaðurinn Eva Navarro lagði upp bæði mörkin fyrir Redondo. Seinna mark Hermoso var hennar 50. landsliðsmark.

Alexia Putellas, besta knattspyrnukona heims 2021 og 2022, var í fyrsta sinn í byrjunarliði í mótsleik í meira en ár en hún er að komast í gang á ný eftir krossbandsslit í fyrra. Hún lagði upp eitt marka spænska liðsins.

Þrátt fyrir fimm marka tap átti Sambía tíu marktilraunir gegn Spáni og Barbra Banda, kröftugur framherji Afríkuliðsins, gerði mikinn usla í vörn Spánverja allan leikinn.