Nýsköpun Guðlaug Hrönn Jóhannsdóttir og Eyvindur Tryggvason, stofnendur GET Ráðgjafar, hlakka til hraðalsins.
Nýsköpun Guðlaug Hrönn Jóhannsdóttir og Eyvindur Tryggvason, stofnendur GET Ráðgjafar, hlakka til hraðalsins. — Morgunblaðið/Eyþór
Magdalena Anna Torfadóttir magdalena@mbl.is Fyrirtækið GET Ráðgjöf kynnir nýja nálgun á „Mínar síður“ þar sem fyrirtæki vinna með viðskiptagögn margra aðila en í gegnum eitt viðmót á hraðan, þægilegan og öruggan hátt. GET Ráðgjöf er eitt þeirra tíu fyrirtækja sem taka þátt í StartUp Supernova-viðskiptahraðlinum í ár.

Magdalena Anna Torfadóttir

magdalena@mbl.is

Fyrirtækið GET Ráðgjöf kynnir nýja nálgun á „Mínar síður“ þar sem fyrirtæki vinna með viðskiptagögn margra aðila en í gegnum eitt viðmót á hraðan, þægilegan og öruggan hátt. GET Ráðgjöf er eitt þeirra tíu fyrirtækja sem taka þátt í StartUp Supernova-viðskiptahraðlinum í ár.

Guðlaug Hrönn Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri og annar stofnenda GET Ráðgjafar, segir að hugmyndin að fyrirtækinu hafi kviknað árið 2017.

„Ég og maðurinn minn, Eyvindur Tryggvason, tókum þá ákvörðun um að láta slag standa og stofna fyrirtæki. Við höfðum áður verið að vinna hjá hugbúnaðarfyrirtækjum og tölvudeildum fyrirtækja en við ákváðum að reyna fyrir okkur í eigin rekstri. Í raun gera það sem við höfðum verið að gera fyrir aðra fyrir okkur sjálf,“ segir Guðlaug og bætir við að lausnin sem þau eru með í þróun muni einfalda daglegt líf fólks sem vinnur með viðskiptakerfi.

„Við erum í rauninni að taka saman þjónustusíður á einn stað. Við búum til staðlaðan vef fyrir þjónustusíður og einföldum þannig hlutina mjög fyrir notandann þar sem hann þarf ekki að skrá sig inn á marga staði.“

Vantaði aðstoð

Guðlaug segir að fyrirtækið stefni að því að byrja á að hasla sér völl á íslenska markaðnum og síðan stefni þau að því að markaðssetja lausnina erlendis.

Aðspurð hvers vegna þau hafi tekið þá ákvörðun að taka þátt í StartUp Supernova, segir Guðlaug að þau hafi fundið að þau vantaði bakland.

„Okkur vantaði í raun aðstoð til að taka næstu skref. Við kunnum að forrita og smíða lausnir en stuðningurinn sem felst í þessum hraðli er eitthvað sem við þurfum. Til dæmis lærum við hvernig á að koma vöru á markað og móta hana betur. Við sjáum mikil tækifæri í að taka þátt í StartUp Supernova.“

Guðlaug bætir við að það felist miklir möguleikar í þeirri lausn sem þau séu með í þróun. Þau fyrirtæki sem noti lausnina þeirra kaupi aðgang að stöðluðum viðskiptasíðum fyrir reikninga, reikningsyfirlit, pantanir og fleira.

„Fyrirtækið græðir ýmislegt á að nota okkar lausn. Meðal annars lægri innleiðingarkostnað og styttri innleiðingartíma. Einnig er lausnin okkar í stöðugri uppfærslu og það verða samlegðaráhrif af því að samnýta stórt umhverfi með öðrum.“

Bjartsýn á framhaldið

Í lausinni felst að notandinn skráir sig inn til að sækja gögn og vinnur síðan í samræmdu viðmóti þar sem hugtök og slóðir eru eins milli fyrirtækja.

„Við sjáum fyrir okkur að með þessari lausn náum við m.a. til fyrirtækja sem hafa ekki enn farið út í þá vinnu að innleiða „Mínar síður“ en einnig til þeirra sem sjá sér hag í því að vera með viðskiptasíður í þjónustu fremur en að standa straum af eigin þróun.“

Guðlaug bætir við að lausnin hafi fengið mjög góðar viðtökur hjá þeim sem hafa prófað hana.

„Þess vegna erum við mjög bjartsýn á framhaldið og það sem er fram undan hjá okkur er að demba okkur í hraðalinn og koma lausninni okkar á markað sem fyrst.”