Elín Eiríksdóttir fæddist á Dröngum, Árneshreppi í Strandasýslu 10. september 1927. Elín lést á heimili sínu, Hrafnistu Hafnarfirði, 8. júlí 2023.

Foreldrar hennar voru Eiríkur Guðmundsson bóndi þar og Ragnheiður Karitas Pétursdóttir. Elín átti sjö systkini: Guðmundur Eiríksson, Aðalsteinn Eiríksson, Anna Ágústa Eiríksdóttir, Anna Jakobína Eiríksdóttir, Lilja Guðrún Eiríksdóttir, Pétur Eiríksson og Álfheiður Eiríksdóttir. Eftirlifandi er þau þrjú síðasttöldu, Lilja Guðrún, Pétur og Álfheiður.

Elín giftist Aðalsteini Örnólfssyni 30.10. 1954, hann lést 27.6. 2019. Þau eignuðust fimm börn: Eiríkur S. Aðalsteinsson, Sigurður Örn Aðalsteinsson (lést 26.5. 1985), Aðalsteinn Viðar Aðalsteinsson, Ragnar Aðalsteinsson og Margrét Aðalsteinsdóttir.

Elín stundaði m.a. nám í Héraðsskólanum á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp, Húsmæðraskólanum á Blönduósi og klæðasaum í Reykjavík. Elín var m.a. heimavinnandi húsmóðir, vann við saumaskap og hjá Skógrækt Reykjavíkur.

Útförin fór fram frá Guðríðarkirkju 14. júlí 2023. Jarðsett var í Gufuneskirkjugarði.

Elsku mamma mín er nú farin frá okkur.

Hún lést á Hrafnistu Hafnarfirði 8. júlí sl. þar sem hún og pabbi bjuggu, hann lést 2019. Þau áttu góða tíma á Hrafnistu, á Sjávar- og Ægishrauni, yndislegt starfsfólk sem hugsaði svo vel um þau og er ég þeim afar þakklát fyrir allt.

Mamma var einstaklega lífsglöð og skemmtileg kona. Hún var mín besta vinkona og studdi mig alltaf í því sem ég vildi gera. Hún átti nú svolítið erfitt þegar ég tók upp á því að fara þerna á Goðafoss 18 ára gömul, rétt fyrir jólin, og sigla til Rússlands. En hún stoppaði mig ekki, þetta var draumurinn minn, ég líka að feta í fótspor hennar. Hún fór ung þerna á Esjuna og þar kynntist hún pabba. Ég kynntist mínum á Goðafossi. Það var mikið og gott samband á milli okkar og þau studdu mig með barnahópinn minn þegar Steinar var á sjónum. Börnin okkar sóttu mikið til þeirra, sérstaklega þegar þau áttu bústaðinn í Eilífsdalnum. Þar var mikið ævintýri að vera, og eigum við margar dýrmætar minningar þaðan.

Við ferðuðumst mikið saman og fórum m.a. í nokkrar sólarlandaferðir með þeim. Eftirminnilegust var ferðin til Kanarí um jól og áramót. Mamma gerði leikfimiæfingar á sólbekknum og fannst krökkunum það rosa fyndið. Það var hafragrautur á morgnana hjá ömmu og góðgæti sem hún tók með sér að heiman. Við fórum í messu á aðfangadag, dönsuðum í kringum jólatré hjá Klöru, áttum frábær áramót með flugeldum, góðum mat og dansi þar sem allir dönsuðu við undirspil Örvars Kristjánssonar. Mamma var svo mikil dansrófa og hreif alla með sér. Sannkölluð ævintýraferð sem seint gleymist.

Mamma og pabbi dönsuðu mikið, stunduðu harmonikkuböll, dönsuðu líka heima í stofu. Það er svo heilsusamlegt að dansa og hreyfa sig, sagði mamma. Hún dansaði síðast tæpum mánuði fyrir andlátið, á balli á Hrafnistu. Þá dansaði hún við mig og yngsta langömmubarnið.

Þau fóru í sund á nánast hverjum morgni, alla tíð. Mamma lagði áherslu á að maturinn sem við fengjum væri hollur og eldaður frá grunni, bakaði allt sjálf og helst engan sykur, kannski smá í pönnukökum og þ.h. Þá var grænmeti með í öll mál. Mamma var alltaf með matjurtagarð og alls konar ræktun. Hún eyddi öllum sumrum í garðinum, gat ekki verið inni. Mamma vann í Skógrækt Reykjavíkur, þar var hún alveg í essinu sínu. Það var mikið gróðursett í Eilífsdalnum og lóðin eins og skrúðgarður. Mamma ákvað að gróðursetja 2.000 tré fyrir árið 2000 og tókst það.

Ég hef alla tíð verið mikið með foreldrum mínum og þau með okkar bestu vinum. Þau hafa alltaf stutt okkur og við þau, alveg fram í andlátið. Það verður skrítið að hætta heimsóknum á Hrafnistu, dansa við mömmu, fara í gönguferðir, ísbíltúra, eða njóta þess að horfa út á sjóinn.

Já, það er stórt skarð komið í líf mitt. Ótrúlega sárt að missa mömmu, þó að ég sé ánægð með að hún skuli vera komin í fangið á pabba og Sigga bróður. Ég sé alveg fyrir mér pabba og mömmu dansandi í sumarlandinu. Þau voru svo ástfangin og góð hvort við annað. Þau eru mínar stærstu fyrirmyndir í lífinu.

Takk fyrir allt elsku mamma mín.

Þín dóttir,

Margrét.