Þessa dagana streyma háar fjárhæðir erlendis frá til íslenskra knattspyrnufélaga. Þegar danska félagið FC Köbenhavn seldi Skagamanninn Hákon Arnar Haraldsson til Lille í Frakklandi varð ljóst að Akurnesingar myndu fá um það bil hálfan milljarð króna í sinn hlut

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Þessa dagana streyma háar fjárhæðir erlendis frá til íslenskra knattspyrnufélaga.

Þegar danska félagið FC Köbenhavn seldi Skagamanninn Hákon Arnar Haraldsson til Lille í Frakklandi varð ljóst að Akurnesingar myndu fá um það bil hálfan milljarð króna í sinn hlut.

Þar njóta þeir góðs af því að hafa selt hann til Dananna fyrir tiltölulega lága upphæð með því skilyrði að fá góða prósentu af sölu hans til stærra félags.

Breiðablik hefur þegar tryggt sér ríflega 220 milljónir króna fyrir þá Evrópuleiki sem karlalið félagsins hefur þegar spilað í sumar, samkvæmt fréttabréfi sem Íslenskur toppfótbolti sendi frá sér í gær.

Kópavogsfélagið á enn eftir fjóra leiki í ágúst og gæti jafnvel komist í riðlakeppni eftir það og þá rúlla aurarnir enn hraðar í kassann.

KA hefur tryggt sér 81 milljón króna með því að spila í tveimur umferðum í Sambandsdeild karla og getur bætt vel við þá upphæð, takist Akureyrarliðinu að slá Írana frá Dundalk út úr keppninni.

Víkingar urðu að láta sér nægja 37 milljónir fyrst þeir féllu út gegn Riga frá Lettlandi í fyrstu umferð en íslensk íþróttafélög tína ekki slíkar upphæðir upp af götunni. Þeir fengu líka ágætis upphæð fyrir átta Evrópuleiki á síðasta ári.

Vonandi verður sem allra minnst af þessum hagnaði eytt í að kaupa leikmenn.

Þetta er upplagt tækifæri fyrir viðkomandi félög til að styrkja sína innviði, bæta aðstöðu og þjálfun og sjá til þess að fjármunirnir nýtist þeim sem best til framtíðar. Ég efast svo sem ekkert um að þau geri það.