Stella Hauksdóttir fæddist í Reykjavík 14. mars árið 1953. Hún lést á hjartadeild Landspítalans 21. júní 2023.

Foreldrar hennar voru hjónin Gyða Eyjólfsdóttir sjúkraliði, f. 17. júní 1923, d. 1. febrúar 2014, og Haukur Þorláksson vélstjóri, f. 26. mars 1925, d. 4. mars 1970. Stella var í miðjunni af fimm systkinum. Elst var Ester Hauksdóttir smurbrauðsmeistari, f. 7. október 1946, d. 2. mars 2013. Hulda Hauksdóttir kennari, f. 1. maí 1948. Ása Jórunn Hauksdóttir kennari, f. 4. mars 1959. Yngstur er Haukur Hauksson rafeindavirki, f. 8. febrúar 1961.

Stella giftist Magnúsi Viðari Helgasyni vélfræðingi 3. desember 1975. Börn þeirra eru Helgi Magnússon, rekstrarhagfræðingur og viðskiptafræðingur, f. 6. október 1973, Ragnhildur Gyða Magnúsdóttir, íþrótta- og heilsufræðingur, f. 7. febrúar 1984, og Ásdís María Magnúsdóttir, lauk japönsku háskólanámi í Japan, f. 20. september 1990. Synir Helga og Eyrúnar Hörpu Gunnarsdóttur, f. 14. september 1976, eru Magnús Freyr Helgason, f. 8. febrúar 2005, og Gunnar Már Helgason, f. 9. ágúst 2006.

Fyrstu æviár Stellu voru í Laugarnesinu. Örfáum árum síðar fluttist hún í Hlíðarnar, þar sem hún bjó allt þar til hún hóf búskap með Magnúsi árið 1972 á Bergstaðastrætinu. Þaðan fluttu þau í Barmahlíðina árið 1976 og bjuggu þar saman uns þau luku við byggingu á framtíðarheimili sínu í Ártúnsholtinu árið 1986.

Stella lauk barnaskólaprófi í Hlíðaskóla árið 1966 og gagnfræðaprófi úr Gaggó Aust árið 1970. Því næst lærði hún hárgreiðslu í Iðnskólanum í Reykjavík og lauk þaðan sveinsprófi árið 1980 og öðlaðist svo meistararéttindin árið 1985. Sama ár stofnaði Stella hársnyrtistofuna Evrópu ehf. við Laugaveg ásamt þremur öðrum hárgreiðslumeisturum, þeim Selmu Jónsdóttur, Friðbjörgu Kristmundsdóttur og Hrefnu Smith. Voru þær fyrstar með nýtt rekstrarform á Íslandi í tilraunaskyni fyrir sveinafélag hárgreiðslu- og hárskera til að bæta kjör hárgreiðslufólks.

Að loknu meistaraprófi var Stella iðin við að bæta við sig diplómum og sótti ótal námskeið í hárgreiðslu bæði hér á landi og erlendis, ásamt því að bæta við sig hárskeraprófi.

Þar að auki vann hún heimsmeistarakeppni í freestyle hárgreiðslu árið 1989 og um tíma var hún formaður í sveinafélaginu. Árið 1995 ákvað Stella að breyta til og gerðist heimavinnandi húsmóðir til að geta sinnt börnum sínum betur og aðstoða við skólagöngu. Eftir að öll börnin voru vaxin úr grasi gat Stella ekki setið auðum höndum og hóf störf sem öryggisvörður í verslunum Hagkaups árið 2009. Í lok árs 2011 færði Stella sig yfir til Hagkaups og vann þar við hin ýmsu störf þar til hún settist loksins í helgan stein í árslok 2020. Öðlaðist hún þá loksins langþráð eftirlaunafrelsi til að njóta lífsins til fulls með sínum nánustu. Sá draumur varð því miður skammvinnur.

Útförin fór fram í kyrrþey.

Það er erfitt að horfast í augu við það að Stella móðursystir mín sé látin. Ég hef þekkt Stellu allt mitt líf og er þakklát fyrir margar fallegar og skemmtilegar minningar í gegnum árin. Það var alltaf líf og fjör í kringum Stellu og hún hélt uppi fjörinu í fjölskylduboðum.

Sem barn sá ég ekki sólina fyrir henni, og þegar ég varð fullorðin var hún í mínum innsta hring. Ein jólin þegar ég var barn mætti afar hress jólasveinn í jólaboð. Við frænkurnar vorum svo hræddar að við földum okkur undir sófa og harðneituðum að líta upp. Það var ekki fyrr en mörgum árum seinna að við gerðum okkur grein fyrir hver hefði leikið jólasveininn, það var auðvitað Stella.

Stellu var margt til lista lagt og hún kom vel fyrir sig orði. Hún hélt ræðu í útskriftinni minni úr menntaskóla og við mörg önnur tækifæri. Það eru ótal sögur frá utanlandsferðum þar sem lýsingar Stellu sögðu meira en myndir. Þegar ég var í vandræðum að koma mat ofan í dóttur mína sagði Stella skemmtilega sögu af því að hún hefði verið svo dugleg að borða sem barn að hún hefði verið send í hús til að vera fyrirmynd fyrir önnur börn.

Stella var snögg til að mörgu leyti. Ég heyrði oft sögur af því hvað hún var fljót að hlaupa sem krakki.

Hún hafði svo gott viðbragð að það var nánast stressandi að hafa hana sem farþega í bíl, hún var búin að segja „það verður ekki grænna vinurinn“ við næsta bíl fyrir framan löngu áður en maður sjálfur tók eftir því að það væri komið grænt ljós. Einnig var Stella afar gjafmild. Hún var alltaf með opin augu fyrir næstu gjöf. Gjafir frá Stellu hittu alltaf í mark.

Frá því ég man eftir mér var garðurinn hjá Stellu vel nýttur í ræktun, allt lífrænt auðvitað. Seinna bættist við gróðurhús bak við hús. Það má segja að Stella hafi verið frumkvöðull í lífrænni ræktun.

Henni var umhugað um að kaupa og rækta lífrænan mat löngu áður en það varð algengt. Það var alltaf aðeins það besta á boðstólum hjá henni.

Sárast finnst mér að hugsa til þess að dóttir mín fái ekki að kynnast Stellu. Hún á aldrei aftur eftir að koma í heimsókn og syngja dansi dansi dúkkan mín og fjöldamörg fleiri lög fyrir hana.

Hvíl í friði elsku Stella mín.

Þín

Þuríður (Þura).