Jóna Gréta Hilmarsdóttir
jonagreta@mbl.is
„Aðalhljóðfærið okkar er röddin, þannig að nafnið er eins konar samblanda af því að vera móðir og fullir af eldmóði eða móðir af eldmóði,“ segir Þráinn Gunnlaug Þorsteinsson um nafnið á rappdúettinum, Eldmóðir, sem hann og Óli Hrafn Jónasson skipa, en þeir ganga líka undir listamannanöfnunum Thrilla GTHO og Holy Hrafn. Spurður hvernig hann myndi lýsa tónlist hljómsveitarinnar segir Þráinn: „Þetta er svona tilraunakennd og oft á tíðum svolítið drungaleg rapptónlist. Við reynum svo að halda hlustendum á tánum með því að grípa orðið hvor af öðrum í gegnum lögin, svipað og frægu rappsveitirnar Run the Jewels og Methodman & Redman gerðu á fyrri tíð.“
Slakir á sunnudagsrúnti
Að sögn Þráins leiddi tónlistaráhugi þeirra þá saman í framhaldsskóla og hafa þeir unnið margt samhliða síðan þá. Í gegnum tíðina hafa þeir báðir unnið tónlist undir hinum ýmsu merkjum og tónlistargeirum. Thrilla GTHO, áður kallaður Brisk, hefur komið fram á hinum ýmsu rappplötum frá árinu 2006. Holy Hrafn hefur einnig verið öflugur síðastliðinn áratug og er óhræddur við að tileinka sér ólíkar stefnur og strauma í tónlistarsköpun. Tvö lög af nýjasta efni Holy Hrafns, smáskífunni Super Shady: Fjólublátt flauel, rötuðu til dæmis á vinsældalista Rásar 2, samkvæmt fréttatilkynningu. „Við erum tveggja manna teymi og gerum allt sjálfir. Óli Hrafn sér um taktsmíði og upptökur á plötunni og ég um plötuumslög og kynningarefni, en textasmíðar og flutning vinnum við saman. Ég og Óli höfum unnið saman í mörg ár en undir þessu nafni leiddum við bara hesta okkar saman formlega síðastliðið haust og smáskífan er fyrsti afraksturinn af því,“ segir Þráinn.
Hljómsveitin Eldmóðir gaf út sína fyrstu plötu í vor og er hún meðal annars aðgengileg á Spotify. Platan, sem ber nafnið Bálsýnir, fer með hlustandann um víðan völl. Til að mynda gefur lagið „Há ljós, lág ljós“ bassamikla slökun sem tilvalin er fyrir sunnudagsrúntinn, eins og segir í kynningarefni frá sveitinni.
Galdrasæringar
„Platan ber með sér þennan bassaþunga tilraunakennda blæ með grípandi hljóðheimi og textaflutning sem einkennist af reglulegum framígripum, en mig langar sérstaklega að vekja athygli á fyrsta lagi plötunnar, „Sáratug“,“ segir Þráinn og heldur áfram: „Lagið sker sig svolítið úr að því leyti að það er í léttari lagi og er með pínu poppaðan keim en inniheldur trommuþungan ástaróð uppfullan af angurværri sjálfsvorkunn.“ Lagið hefst á setningunni: „Greyið ég, greyið ég, ég er fallinn fyrir þér.“ Samkvæmt Þráni er markmiðið með laginu að setja sig í hlutverk aumkunarverðs, ástfangins karlmanns. Í vestrænni poppmenningu er oft voða mikil rómantík yfir því að sjá karlmann ástfanginn upp fyrir haus, en við vildum fara svolítið með þá steríótýpu út í öfgar til að sýna fram á fáránleika þess og hvernig hegðun og hugsun slíks einstaklings getur verið óviðeigandi eða jafnvel fráhrindandi.“
Gestur plötunnar er tónlistarkonan Vigdís Vala Valgeirsdóttir, sem kemur fram undir nafninu Dr. Vigdís Vala. Hún flytur, ásamt dúóinu, annað lagið á plötunni sem ber nafnið „Hermd eftir mér“. „Í því lagi sóttum við innblástur í íslenskar galdrahefðir og þjóðsögur. Það er skuggalega flott. Hlustandi upplifir orkumiklar og ógnvekjandi elektrónískar galdrasæringar. Dr. Vigdís Vala kemur inn sem gestur með myrkri galdraþulu en hún vill ekki titla sig sem rappara, enda er þetta líka frekar ljóðrænn flutningur.“
Samfélagsmiðlamenningin
Með hverju lagi á nýju plötunni fylgir örmyndband sem þeir birta m.a. á Instagram (@thrillagtho) og TikTok. „Af því við erum bara tveir sjálfstætt starfandi og með lítið fjármagn, þá ákváðum við að vera ekki að setja mikla orku í tónlistarmyndbönd í fullri lengd heldur frekar að reyna stíla inn á samfélagsmiðlamenninguna. Neytendamenning í nútímanum virðist oft hafa styttri endingartíma og fókus og okkur fannst því eiga meira við að markaðssetja okkur með þeim hætti. Ég hef verið að sjá um myndböndin en þau eru öll tekin á síma eða með einhverjar lágmarksgræjur. Ég vinn svo myndböndin í eftirvinnsluforritum í símanum og reyni að grípa fólk í þessum stuttu og grípandi örmyndböndum.“
Að sögn Þráins er dúóið komið langt á leið með næstu plötu, sem það stefnir á að gefa út í haust. „Við viljum halda nafninu í sviðsljósinu með því að halda okkur við styttri plötur með reglulegri útgáfu, en við stefnum á að gefa út líka djammvænt lag fljótlega til að hita upp fyrir næstu plötu og bara til að halda hjólunum gangandi,“ segir Þráinn að lokum.