Evrópa
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Evrópuævintýri KA heldur áfram. Akureyrarliðið er komið í þriðju umferð Sambandsdeildar karla í fótbolta eftir jafntefli, 2:2, gegn Dundalk á Írlandi í gærkvöld og mætir belgíska liðinu Club Brugge tvo næstu fimmtudaga.
Fyrri leikur liðanna fer fram í Brugge í Belgíu 10. ágúst og sá síðari fimmtudaginn 17. ágúst á Evrópuheimavelli KA-manna hjá Fram í Úlfarsárdalnum.
KA-menn gerðu mjög vel gegn áköfum Írum í Dundalk í gærkvöld, vörðu forskot sitt frá fyrri leiknum í Úlfarsárdal, 3:1, og lentu í raun og veru aldrei í teljandi hættu eftir að hafa náð forystunni strax á 14. mínútu.
Færeyingurinn skoraði strax
Það var mark sem minnti á íslenska landsliðið á bestu dögum þess um miðjan síðasta áratug. Löng markspyrna frá Kristijan Jajalo markverði, Ásgeir Sigurgeirsson skallaði boltann áfram inn fyrir vörnina. Nýi Færeyingurinn, Jóan Símun Edmundsen, stakk sér inn fyrir, lagði boltann fyrir sig og skoraði af öryggi sitt fyrsta mark fyrir félagið. Staðan 1:0 fyrir KA og 4:1 samanlagt.
Írarnir sóttu mestan part leiksins eftir þetta en fengu ekki mörg færi. John Martin jafnaði þó með fallegu skallamarki á 33. mínútu, 1:1, og KA-menn þurftu því að verjast vel og af skynsemi til að hleypa liði Dundalk ekki nær sér.
Vítaspyrnan gerði útslagið
Það tókst, Dundalk átti sláarskot seint í síðari hálfleiknum en rétt á eftir gerði KA út um einvígið. Dæmd var vítaspyrna á Dundalk þegar Ívar Örn Árnason var felldur og úr henni skoraði Hallgrímur Mar Steingrímsson af öryggi, 2:1 fyrir KA og 5:2 samanlagt.
Engu máli skipti þótt Gregory Sloggett næði að jafna fyrir Dundalk á 89. mínútu með skalla eftir hornspyrnu. Lokatölur urðu 2:2 og KA sigldi örugglega áfram.
Þrír sigrar og eitt jafntefli í fjórum Evrópuleikjum hjá KA í sumar, á meðan liðinu hefur gengið upp og ofan á Íslandsmótinu. Vel gert hjá Akureyringum sem auk þess eru komnir í úrslitaleik bikarkeppninnar. Það er því nóg að gera hjá þeim í ágústmánuði og vegna leikjanna við Club Brugge hefur næsta leik þeirra í deildinni verið flýtt frá miðvikudegi til mánudags, frídags verslunarmanna, en þá mæta þeir Val á Hlíðarenda áður en þeir halda til Belgíu.
Heildarárangur KA í Evrópukeppni er orðinn ansi áhugaverður. Félagið hafði aðeins leikið fjóra Evrópuleiki frá upphafi fyrir þetta tímabil og hefur nú tvöfaldað þá tölu. Af átta Evrópuleikjum hefur KA aðeins tapað einum, 3:0 gegn CSKA Sofia í Búlgaríu árið 1990.
Erfitt verkefni fram undan
Næsta verkefni verður hins vegar erfitt og ekki hægt að gera neinar kröfur á KA-menn um að þeir slái firnasterkt lið Club Brugge úr keppni. Club Brugge endaði í fjórða sæti í Belgíu í fyrra, sextán stigum á eftir meistaraliðinu Gent en félagið er eitt það sigursælasta í Belgíu með 18 meistaratitla, þar af fimm á sjö árum frá 2016 til 2022.
Félagið lék úrslitaleikinn gegn Liverpool í Evrópukeppni meistaraliða árið 1978 og úrslitaleik í UEFA-bikarnum, líka gegn Liverpool, árið 1976.
Club Brugge sló AGF frá Danmörku út í 2. umferðinni, tapaði reyndar 1:0 í Árósum í gærkvöld en hafði unnið heimaleikinn 3:0.
Meðal leikmanna liðsins eru Simon Mignolet, fyrrverandi markvörður Liverpool, Dedryck Boyata, fyrrverandi leikmaður Manchester City og Celtic, og Hans Vanaken sem hefur leikið 23 landsleiki fyrir Belgíu.