Stækka hótelið Framkvæmdir við Hótel Grímsborgir hafa staðið yfir í allan vetur en alls eru fimm ný hús risin.
Stækka hótelið Framkvæmdir við Hótel Grímsborgir hafa staðið yfir í allan vetur en alls eru fimm ný hús risin. — Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson
„Það eru ekki nein áform um það eins og er,“ segir Páll L. Sigurjónsson, forstjóri Keahótela, spurður að því hvort til standi að stækka enn frekar við Hótel Grímsborgir sem Keahótel reka í dag

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

„Það eru ekki nein áform um það eins og er,“ segir Páll L. Sigurjónsson, forstjóri Keahótela, spurður að því hvort til standi að stækka enn frekar við Hótel Grímsborgir sem Keahótel reka í dag. Framkvæmdir við stækkun hótelsins hafa staðið yfir í vetur en nú eru risin fimm ný hús sem verða tekin í notkun hvert á fætur öðru.

„Þessi fimm hús eru með fimm herbergjum hvert, þannig að það eru tuttugu og fimm herbergi sem eru að bætast við, og hvert þeirra er með stórri setustofu sem hægt er að nota til fundarhalda eða veislu eða hreinlega til að fá sér kaffi. Svo er heitur pottur við hvert hús, stór og góður pottur, sem þjónar þá hverju húsi.“

Taka við blómlegum rekstri

Samningurinn, sem Keahótel undirrituðu þann 20. júní, er til 20 ára og nær hann yfir alla starfsemi hótelsins, þar með talið veitingastað, funda- og ráðstefnusali og veisluþjónustu. Þá segir Páll að Keahótel séu að taka við blómlegum og góðum rekstri þar sem fyrri rekstaraðilar hótelsins hafi lagt sig fram um að bjóða upp á tónleikaveislur og skemmtanir. Stefnt sé á að halda þeim góða rekstri áfram og reka frábært hótel og fylgja því sem vel hefur verið gert auk þess að höfða til breiðs hóps viðskiptavina.

„Við ætlum að fylgja því svolítið eftir og reka hótelið að mestu í óbreyttri mynd en bæta svo við okkar sérþekkingu sem er þá hinn almenni ferðamaður. Við erum með 11 hótel, okkar eigin sölu- og markaðsskrifstofu sem og tengslanet þannig að við ætlum að nýta það meira að fá þennan venjulega ferðamann sem er að ferðast um landið til okkar. Einnig munum við nota aðstöðuna til að fókusa á fyrirtæki og fundi,“ segir Páll og bætir við að á hótelinu sé að finna flóru herbergja svo allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

„Þetta er í hærri gæðaflokki en almennt gerist en við erum með breitt úrval herbergja, alveg frá standard herbergjum, sem eru á sama verði og á fjögurra stjörnu hótelum, og upp í lúxussvítur og heilu húsin sem eru með fimm herbergjum þannig að þarna er hægt að finna sambærilegt verð og á öðrum hótelum í fjögurra stjörnu klassa.“

Húsin detta inn eitt af öðru

Nú þegar hefur eitt af nýju húsunum verið tekið í notkun en stefnt er á að það næsta verði klárt um miðjan mánuð.

„Svo detta þau inn koll af kolli í vetur og verða öll komin í notkun fyrir næsta sumar að minnsta kosti,“ segir Páll og tekur fram að ekki þurfi að leigja húsin í heild sinni heldur standi einnig til boða að leigja stök herbergi.

„Þau eru alveg sér en þetta eru 30 fm herbergi, með sérbaðherbergi, og þarna er sérstaklega gætt að hljóðvistinni. Upplifunin sem þú færð í þessum húsum er að vera svolítið út af fyrir sig og þetta er náttúrulega bara hugsað fyrir svona minni fyrirtæki og hópa að taka sig saman, til dæmis vinahópa og fjölskyldur.“

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir