Donetsk Úkraínskur skriðdreki sendir sprengikúlu yfir gróinn völl í æfingaskyni, en víglínan mjakast lítið til eða frá í gagnsókninni miklu.
Donetsk Úkraínskur skriðdreki sendir sprengikúlu yfir gróinn völl í æfingaskyni, en víglínan mjakast lítið til eða frá í gagnsókninni miklu. — AFP/Anatolii Stepanov
Á Vesturlöndum hefur það valdið mörgum vonbrigðum, ekki síður en í Úkraínu, hvað margboðaðri gagnsókn gegn innrásarher Rússa hefur miðað lítið áfram, loksins þegar látið var til skarar skríða. Tveimur mánuðum eftir að gagnsóknin hófst er eiginlegur…

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Á Vesturlöndum hefur það valdið mörgum vonbrigðum, ekki síður en í Úkraínu, hvað margboðaðri gagnsókn gegn innrásarher Rússa hefur miðað lítið áfram, loksins þegar látið var til skarar skríða.

Tveimur mánuðum eftir að gagnsóknin hófst er eiginlegur hernaðarlegur ávinningur í hinu stóra samhengi ekki augljós. Allnokkrir bæir og þorp hafa verið frelsuð úr klóm innrásarhersins, en þó að tekist hafi að þoka rússneskum herjum lítið eitt hér og þar, þá er staðan lítið breytt meðfram um þúsund kílómetra langri víglínunni.

Þetta varð ljóst þegar á fyrstu dögum gagnsóknarinnar, þegar sókn nýskipaðra vélaherdeilda Úkraínu með vestrænum bryndrekum koðnaði fljótt niður. Í framhaldinu hófst skothríð stórskotaliðs og eldflauga á aðfangalínur, birgðastöðvar og stjórnstöðvar rússneska hersins, sem gekk út af fyrir sig ágætlega, en hefur ekki valdið straumhvörfum í stríðinu. Ekki enn sem komið er að minnsta kosti,

Þolinmæði og þrautir

Rússneskt herlið hefur hins vegar verið grisjað talsvert og er ekki vel í sveit sett til þess að svara skyndiárásum og könnunarleiðöngrum Úkraínumanna. Það hefur ekki heldur aukið viðbragðshraðann eða baráttuviljann að rússneskir yfirmenn halda sig margir eins fjarri víglínunni og þeir komast upp með.

Á sama tíma hafa Úkraínumenn haldið áfram linnulitlum drónaárásum sínum, sem fótgöngliðar og birgðaverðir geta lítið gert til að verjast. Flotadrónar hafa gert Rauða flotanum í Svartahafi ýmsar skráveifur og upp á síðkastið hafa Úkraínumenn jafnvel gert niðurlægjandi árásir á skotmörk í Moskvu eins og fram hefur komið.

Í fyrri viku vöknuðu vonir um að gagnsóknin væri loks að ná árangri þegar nýjar og óþreyttar herdeildir, gráar fyrir járnum af vestrænum búnaði, létu til skarar skríða. Þær hafa komist lengra áfram en fyrri sóknir, en samt sem áður sækist sóknin afar hægt, hörð sem hún er, því Rússar taka á móti af fullri hörku og hafa grafið vel um sig, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu.

Úkraínumenn hafa gert tangarsókn að Bakmút og Saporisja og þjarmað að vesturhluta Donetsk, en sóknin mjakast afar hægt, svo skiljanlegt er að margir vilji að breytt sé um aðferð eða herstjórnarlist, svo einhver árangur sjáist.

Árangursríkt nudd

Ekki er þó allt sem sýnist, segja ýmsir vestrænir hernaðarsérfræðingar. Úkraínumenn hafi náð talsverðum árangri án þess að fórna of miklu. Allar aðgerðir Úkraínumanna séu klassískar aðferðir til þess að þreyta óvininn og gera honum erfitt fyrir eða ómögulegt að bregðast við um leið og baráttuþrek óvinahermanna sé smám saman sallað niður.

Úkraínuher hefur hins vegar ýmsa kosti í þeim efnum, það er hans að sækja og Rússa að verjast, sem er nú varla það sem að var stefnt með innrásinni. Sókn suður að Azov-hafi er vafalaust mest freistandi, enda til mikils að vinna. Með því væri unnt að kljúfa rússneska heri á Krímskaga frá meginliðinu og koma í veg fyrir að þeim bærust vistir eða liðsauki. Fáar landleiðir eru til Krím og auðvelt að herja á rússneskan her með stórskotaliði eða einfaldlega svelta hann til uppgjafar.

Það væri þó enginn hægðarleikur, en 200 km leið er niður að sjó og hún liggur einmitt í gegnum þéttustu varnir Rússa á hernámssvæði þeirra í Úkraínu. Þeir þekkja það af biturri reynslu að vélaherdeildir þeirra eru berskjaldaðar fyrir loftárásum Rússa um leið og sóknin tefst við jarðsprengjusvæði, brýr eða aðrar hindranir.

Annar kostur væri að halda í austur í grennd við Bakmút þar sem varnir Rússa eru talsvert veikari og halda svo suður inn í Donbass. Það væri niðurlægjandi fyrir Rússa, sem hafa lagt mikið á sig við að ná svæðinu undir sig, en hernaðarlegt gildi þess fyrir gang stríðsins er hæpnara.

Hvað gera Rússar þá?

Þegar sóknin kemur mun mikið velta á viðbrögðum rússneskra hermanna: Munu þeir ná að hörfa skipulega til betri varnarstöðu eða mun flótti bresta á liðið? Úkraínumenn veðja á hið síðarnefnda og þessi hægfara lýjandi sókn þeirra gerir það líklegra. Langvinnir bardagar án hvíldar segja til sín og baráttuþrekið er ekki mikið, en ef skotfærin eru af skornum skammti og herforingjarnir fyrstir til þess að láta sig hverfa, þá geta varnir Rússa brostið mjög hratt. Í því samhengi er einnig rétt að hafa í huga að stjórnkerfi rússneska hersins hefur ekki enn náð sér á strik eftir uppreisnartilburði Jevgenís Prígosjíns.

Það er eftir sem áður veðmál. Tveir mánuðir hafa liðið án mikils árangurs, en nú er komið síðsumar og Úkraínumenn verða að taka af skarið í einhverjum skilningi fyrir haustið, þegar eðja og leðja mun aftur hægja á allri sókn. Fyrir því eru góðar hernaðarlegar ástæður, en einnig huglægari svo sem þær að viðhalda von hjá úkraínsku þjóðinni og staðfestu vestrænna bandamanna, en ekki þó síður að auka hugarvíl Kremlarbóndans.

Höf.: Andrés Magnússon