Guðni Kolbeinsson sendi mér gott bréf á mánudag: Um þetta leyti sumars er ég talsvert að reyna að veiða sjóbleikjur á Vestfjörðum og Vesturlandi. En aðstæður eru þannig að ég get bara ekki orða bundist

Guðni Kolbeinsson sendi mér gott bréf á mánudag: Um þetta leyti sumars er ég talsvert að reyna að veiða sjóbleikjur á Vestfjörðum og Vesturlandi.

En aðstæður eru þannig að ég get bara ekki orða bundist.

Ég veiði af vandvirkni og natni

en vil þó að aðstæður batni

því hver verður mín dáð ef

og hvað er til ráða’ ef

í ánni er ekkert af vatni?

Ingólfur Ómar laumaði að mér eins og tveim vísum í léttum dúr:

Stundum er drukkið lítið.

Alltaf kætist öndin mín

oft við stútinn gæli.

Ef ég bragða brennivín

bara í litlum mæli.

Daginn eftir mikla drykkju.

Ennþá skjálfti er í mér

augun rauð og þrútin.

Niðurlútur orðinn er

eftir landakútinn.

Á Boðnarmiði yrkir Sigrún Haraldsdóttir:·

Upp að gefa ætla seint

óþægð, grobb og stríðni,

þótt lífið hafi löngum reynt

að lemja mig til hlýðni.

Hér yrkir Sigrún um sumarkvöld:

Bregður glóð á burknastóð,

blána flóð og garðar,

rökkrið hljóðan yrkir óð,

angar gróður jarðar.

Gunnar Hólm Hjálmarsson yrkir:

Margoft hef ég minnst á það

við máttarstólpa þjóðar.

Valdastéttin verður að

virða reglur góðar.

Ekkistaða’ úr vísnabingnum eftir Hallmund Guðmundsson:

Ég settist í stóra stólinn

því steikjandi heit var sólin.

Þar ég nú dvel

og þykir það; vel

því það fer svo vel um tólin.

Tvær limrur eftir Jón Jens Kristjánsson:

Hrollaugur hamast á brettinu

með heljar nef út úr smettinu

menn skrafa þar inni

að skelfing hann minni

á skaftið í topplyklasettinu.

Valdi fékk nóg af víninu

og vék sér í sláttinn frá gríninu

þá var allt horfið

þó fann hann orfið

þar sem hann týndi brýninu.