Lilja Ísfeld Kristjánsdóttir fæddist 11. maí 1924 að Sléttu í Mjóafirði. Hún andaðist á Hjúkrunarheimilinu Mörk 16. júlí 2023.

Foreldrar hennar voru Júlía Sigríður Steinsdóttir, f. 30. júlí 1891, d. 14. apríl 1956, og Jens Kristján Guðmundsson Ísfeld, f. 12. febrúar 1880, d. 26. september 1950. Systkini Lilju voru: Séra Jón Kr. Ísfeld, f. 4. janúar 1908, d. 1. desember 1993, Þórunn Ólöf Kr. Ísfeld, f. 16. apríl 1916, d. 29. maí 1995, Einar Kr. Ísfeld, f. 19. mars 1929, d. 19. apríl 1945, og Fjóla Kr. Ísfeld, f. 26. ágúst 1931, búsett á Lögmannshlíð Akureyri.

Lilja fæddist að Sléttu á Mjóafirði, en flutti fjögurra ára til Seyðisfjarðar þar sem hún bjó lengst af öll sín uppvaxtarár, þó með viðkomu á Norðfirði og í Loðmundarfirði. Foreldrar hennar stunduðu alla tíð búskap samhliða útgerð en á Seyðisfirði ráku þau einnig greiðasölu.

Eiginmaður Lilju var Helgi Vilhjálmsson, f. 15. september 1925, d. 7. apríl 2005. Hann var búfræðingur að mennt, fæddist og ólst upp í Dalatanga í Mjóafirði. Þau giftust 3. desember 1945. Lilja og Helgi hófu búskap á Skálnesi við Seyðisfjörð en 1955 tóku þau við vitavörslu á Dalatanga í Mjóafirði en það starf hafði haldist í ætt Helga óslitið frá 1819. Þar bjuggu þau og störfuðu í þrjú ár, en fluttu síðan til Reykjavíkur þar sem þau bjuggu alla tíð síðan, lengst af í Álfheimum 28. Helgi starfaði fyrst hjá Málssmíði Ámundar Sigurðssonar og síðar við vélgæslu í Áburðarverksmiðju ríkisins en Lilja vann ýmis störf, s.s. við verslun, á saumastofu og við póstútburð. Þá prjónaði hún lopapeysur í mörg ár og seldi í verslanir. Þau eignuðust tvö börn: 1) Vilhjálmur S. Helgason, f. 20. júní 1952, búsettur í Þýskalandi. Hann er giftur Teresitu Enderez, f. 22. september 1966, sonur þeirra er Helgi Sebastian, f. 16. janúar 2000. 2) Kristín Helgadóttir Ísfeld, f. 14. apríl 1955. Börn hennar eru: 1. Helgi Snær Sigurðsson blaðamaður, f. 3. október 1974, giftur Ólöfu Ólafsdóttur líffræðingi, f. 29. október 1980, þau búa í Reykjavík. 2. Ari Freyr Hermannsson verkfræðingur, f. 10. desember 1982, giftur Guðrúnu Örnu Jóhannsdóttur lækni, f. 13. júní 1986. Þau búa í Svíþjóð. Barnabörn Lilju eru: Andreas Máni Helgason, f. 22. ágúst 1997, Ólafur Þór Helgason, f. 27. desember 2006, Pétur Bragi Helgason, f. 14. maí 2011, Jóhann Ingi Arason Ísfeld, f. 21. desember 2012, og Guðmundur Helgi Arason, f. 22. september 2017.

Síðustu þrjú árin dvaldi Lilja á Hjúkrunarheimlinu Mörk í Reykjavík.

Útförin fór fram í kyrrþey, að ósk hinnar látnu, 31. júlí 2023.

Amma Lilja átti tæpt ár í að verða 100 ára. Það er einkennilegt að hugsa til þess að ná slíkum aldri og hvernig maður upplifir lífið með breytilegum hætti eftir því sem húmar að.

Amma var mér og bróður mínum afar kær og ég finn eingöngu fyrir hlýju þegar ég minnist hennar. Ég man hvernig hún pakkaði mér inn fyrir svefninn þegar ég var lítill og sagði stuttar og stórskrítnar kvöldsögur sem hún spann og voru furðulega líkar hver annarri. Oftast kom lítil mús við sögu og þá breytti amma röddinni, varð jafnkrúttleg og lítil mús. Ég man líka þegar amma laumaði súkkulaði í skóinn úti í glugga og hélt að ég tæki ekki eftir neinu. Auðvitað sagði ég henni aldrei frá því af því ég vildi ekki særa elsku, góðu ömmu.

Þegar ég bjó á Akureyri sem drengur, frá fimm ára aldri til tíu ára, voru símtölin mörg við ömmu og þau snerust ansi oft um Legó. Mig vantaði hitt og þetta Legóið, slökkviliðs- eða lögreglustöð kannski sem kostuðu nú sitt og alltaf var amma til í að gera sér ferð, fara út í búð í Reykjavík, kaupa Legóið og senda mér norður með pósti. Mamma lét sem hún vissi ekkert af þessu dekri ömmu sem var auðvitað spaugilegt leikrit og krúttlegt í minningunni. Þannig var amma Lilja. Hún vildi allt fyrir mann gera og skipti þá engu þó farið væri hressilega yfir strikið í dekrinu. Aldrei var sagt nei, jafnvel þótt borðaður væri heill ísskápur af búðingi.

Ég man ekki eftir einu einasta hvassyrði frá ömmu eða skömmum. Í minningunni er amma sveipuð ljóma þess sem elskar skilyrðislaust, þess sem veitir skjól og hlýju. Amma gat verið hörð í horn að taka en aldrei var hún hörð við við mig eða bróður minn. Aldrei nokkurn tíma.

Þegar ég hugsa um ömmu finn ég bara fyrir væntumþykju. Hún var elskuð af barnabarnabörnum og sýndi þeim sömu ást og umhyggju og okkur bræðrum og dekraði rækilega við drengina sína.

Eins sárt og það er að missa ömmu er hún nú komin á betri stað og þarf ekki að þjást lengur eins og hún því miður gerði undir það síðasta. Góða ferð, elsku amma.

Helgi Snær Sigurðsson.

Mig langar að minnast með örfáum orðum elsku Lilju systur minnar sem kvatt hefur þetta jarðneska líf.

Sem barn gat ég ekki sagt Lilja, aðeins Lillý, og alla tíð frá barnsaldri og fram á síðasta dag kallaði ég þig alltaf okkar á milli Lillý en við vorum alla tíð afar nánar og nú síðari ár vorum við duglegar að tala saman í síma.

Að þinni ósk, Lillý mín, var ég skírð á fermingardaginn þinn og man ég enn hvað mér fannst það tilkomumikið og hversu falleg og fín þú varst í hvíta kjólnum þínum og einnig þegar þú þá faðmaðir mig og hvíslaðir að mér „dugleg stelpa Fjóla“.

Fljótlega eftir ferminguna fórstu svo til heimilisvinnu hjá föðursystur okkar á Norðfjörð en áður hafðir þú aðstoðað mömmu við veitingareksturinn á Seyðisfirði, í Hafnargötunni, á meðan pabbi var við sjósókn á bátnum sínum sem var fyrsti mótorbáturinn á Seyðisfirði.

En Lillý mín, ég man líka svo vel þegar þú varst á Húsmæðraskólanum á Hallormsstað og varst búin að sauma á mig sjö fallega kjóla og kápu fyrir skólann á Seyðisfirði, ég þá 12 og 13 ára. Er ég þér ennþá svo þakklát og einnig fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og með mér þessi ár okkar á Seyðisfirði. Þú varst þá farin að vinna á sjúkrahúsinu og einnig á saumastofu og stundum fórum við saman til Bjargar frænku móðursystur okkar sem tók alltaf svo vel á móti okkur með hlýju og brosi og alltaf fengum við heimabakað bakkelsi og mjólkurglas.

Síðar fórst þú til vinnu á Hvanneyri og þar kynntust þið Helgi, við fjölskyldan vorum þá flutt á Skálanes við Seyðisfjörð og komuð þið þá saman um vorið og bjugguð einnig þar í rúmt ár en flytjið þá til Reykjavíkur þar sem ykkur síðar verður barna auðið, ykkur til mikillar gleði.

Svo farið þið þaðan til starfa á Dalatanga við gæslu á þokulúður og veðurathugun og eruð þar til nokkurra ára en farið svo aftur til Reykjavíkur þar sem þið búið ykkur fallegt heimili.

Elsku Lillý mín, enn minnist ég okkar yndislegu samverustunda, bæði á heimili ykkar og einnig okkar á Hrafnhóli og síðar á Akureyri.

Takk fyrir allt og eigum síðar okkar endurfundi.

Þín alltaf einlæg,

Fjóla Kr. Ísfeld.