Sigurjón Hafsteinsson
Sigurjón Hafsteinsson
Það hlakkar í stjórnarandstöðunni þessa dagana enda hennar æðsti draumur og óskhyggja að stjórnarslit gætu verið í spilunum.

Sigurjón Hafsteinsson

Það hlakkar í stjórnarandstöðunni þessa dagana enda hennar æðsti draumur og óskhyggja að stjórnarslit gætu verið í spilunum, vissulega er sá draumur fjarlægur þrátt fyrir viss deilumál innan ríkisstjórnarinnar. Það þarf ekki mörgum orðum um það að fara að stjórnarsamstarf með Vinstri grænum hefur kostað Sjálfstæðisflokkinn töluvert, um það þarf ekki að deila. Má þar nefna hvalveiðibann, útlendingamálin og umhverfismálin (flokkun úrgangs), eitt mesta rugl sem íslensk þjóð hefur horft upp á enda er þar bara verið að afhenda vissum fyrirtækjum aðgang að fjármunum ríkissjóðs, ekki neitt annað. Það sjá það flestir orðið sem betur fer að aukatunnur og fleiri dísilknúnir sorpbílar þar sem öllu ekið á sömu staðina; Gaju, Sorpu nú eða Kölku. Á endanum er stór hluti hins góða, umhverfisvæna flokkunarsorps fluttur utan til brennslu eða eyðingar með allri þeirri mengun sem slíkum sjóflutningum fylgir, jæja ég ætlaði að vera á jákvæðum nótum.

Förum aðeins á fyrri mið, þ.e.a.s. stjórnarsamstarfið þessi tvö ár sem liðin eru af kjörtímabilinu, hvað hefur verið gert og hvað má betur fara.

1. Skattar hafa verið lækkaðir á kjörtímabilinu.

2. Atvinnuleysi hefur aldrei mælst jafn lítið og á þessu kjörtímabili.

3. Hagvöxtur hefur verið framar öllum vonum.

Það sem hefði mátt gera miklu betur:

Útlendingarmálin. Kostnaður við hælisleitendakerfið er kominn í um 15 milljarða króna á ári en var fyrir 13 árum á bilinu 0,5-1 milljarður, algjörlega óviðunandi. Við erum ekki að setja fjármuni í að hjálpa þeim sem við höfum ákveðið að veita vernd því uppistaðan af þessum peningum fer í að halda uppi fólki sem við höfum ekki ennþá getuna til að svara hvort fái vernd eða ekki.

Hvalveiðibannið. Það var rætt við gerð stjórnarsáttmálans hvort kæmi til greina að koma á hvalveiðibanni en að gera það með þessum hætti daginn fyrir þann dag sem veiðar áttu að hefjast hefði aldrei átt að eiga sér stað og fyrir vikið gæti ríkissjóður átt á hættu málssókn með gríðarlegum afleiðingum.

Hvað hefur verið gert sem hægt er að lofa þessa ríkisstjórn fyrir:

Skattamál. Vörugjöldin voru aflögð, tollar lækkaðir, lækkun á efra þrepi virðisaukaskatts, frítekjumark í erfðafjárskatti var hækkað í fimm milljónir og gerðar jákvæðar breytingar á fjármagnstekjuskattinum og frítekjumark tekjuskatts var hækkað í 300 þúsund krónur. Á sama tíma er atvinnuleysið með því minnsta sem mælst hefur í tíð þessarar ríkisstjórnar og það þrátt fyrir heimsfaraldur (covid).

Nú læt ég ykkur, lesendur góðir, um að dæma um hvernig til hefur tekist en verið þess minnug að pólitík er eins og hjónaband; fólk er ekki alltaf sátt og þá eru gerðar málamiðlanir, sum sambönd lifa lengur en önnur og má þar nefna farsælt ríkisstjórnarsamband Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna undir forystu Katrínar Jakobsdóttur. Heilt á litið hefur sú ríkisstjórn gengið storminn vel af sér og engin merki þess að hún sé nokkuð á förum, þrátt fyrir andvökunætur og óskhyggju stjórnarandstæðinga undir forystu Samfylkingarinnar sem nú stígur fram og boðar nýja og marktæka skjaldborg, þ.e.a.s. vernd fyrir heimilin og fjölskyldurnar í landinu.

Höfundur er íbúi í Reykjanesbæ.

Höf.: Sigurjón Hafsteinsson