Hátíð í bæ Gleði, samstaða og baráttuhugur eru aðalsmerki Hinsegin daga sem hefjast í næstu viku.
Hátíð í bæ Gleði, samstaða og baráttuhugur eru aðalsmerki Hinsegin daga sem hefjast í næstu viku. — Morgunblaðið/Hanna
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við siglum inn í þetta spennt og kát, enda dagskráin fjölbreytt og áhugaverð,“ segir Gunnlaugur Bragi Björnsson formaður Hinsegin daga í samtali við Morgunblaðið. Fánar í öllum regnbogans litum prýða nú göturnar í tilefni hátíðarinnar…

Snædís Björnsdóttir

snaedis@mbl.is

„Við siglum inn í þetta spennt og kát, enda dagskráin fjölbreytt og áhugaverð,“ segir Gunnlaugur Bragi Björnsson formaður Hinsegin daga í samtali við Morgunblaðið. Fánar í öllum regnbogans litum prýða nú göturnar í tilefni hátíðarinnar sem hefst í næstu viku og nær hápunkti með árlegri Gleðigöngu frá Hallgrímskirkju þann 12. ágúst.

Að sögn Gunnlaugs verður hátíðin með svipuðu sniði og fyrri ár þó að ólík málefni séu sett á oddinn hverju sinni. Sérstök áhersla verði lögð á að styðja við hinsegin ungmenni og vekja athygli á baráttumálum trans fólks, en þetta eru tveir hópar sem orðið hafa fyrir auknu aðkasti hér á landi sem og erlendis undanfarin ár. Þá verður draglistin einnig í brennidepli og von á alþjóðlegum dragstjörnum til landsins.

Baráttunni ekki lokið

„Yfirskrift hátíðarinnar í ár er „Baráttan er ekki búin“. Þetta er auðvitað margkveðin vísa, en miðað við umræðuna núna held ég að hún eigi betur við en oft áður,“ segir Gunnlaugur og nefnir að hatursorðræða sé að færast í aukana. „Aðalsmerki Hinsegin daganna er alltaf, eins og nafn Gleðigöngunnar gefur til kynna, að gleðjast, sýna samstöðu og baráttugleði. Það verður hins vegar ekki litið fram hjá því að orðræða og viðhorf í garð hinsegin fólks hefur breyst.

Við vitum að það hefur alltaf verið til fólk sem vill hinsegin fólki illt eða finnst réttindi okkar og sýnileiki vera orðinn of mikill. Núna virðist það fólk þó vera að finna hvert annað í auknum mæli og skipuleggja sína baráttu gegn hinseginleikanum, að því er virðist að erlendri fyrirmynd og með stuðningi erlendis frá. Þetta er eitthvað sem við þurfum að vera meðvituð um og reiðubúin að svara með aukinni umræðu og fræðslu. Það má heldur ekki gleymast að það þarf ekki mikið til þess að þau réttindi sem við höfum þurft að berjast fyrir verði afturkölluð. Þetta er eitthvað sem við sjáum vera að gerast núna erlendis og getur hæglega átt sér stað hér á landi líka.

Þróun í réttindamálum hinsegin fólks víða í Bandaríkjunum, Bretlandi og á meginlandi Evrópu, svo sem hvað varðar hjónabönd samkynhneigðra og réttindi trans fólks, er vægast sagt ógnvænleg. Í því samhengi er líka ágætt að hafa í huga að þegar vegið er að réttindum hinsegin fólks er mjög stutt í að vegið verði að grundvallarréttindum fleiri hópa, t.d. kvenna. Við þurfum að vera vakandi fyrir því og halda réttindabaráttunni áfram.

Þessi uggvænlega þróun kallar sömuleiðis á það að við þéttum raðirnar. Fólk sem hefur staðið á hliðarlínunni hingað til er þegar farið að stíga fram, tilbúið að taka þátt og nýta rödd sína. Mótlætið þjappar okkur saman, og það þarf líka að gera það, vegna þess að samstaðan er aldrei eins mikilvæg og þegar á móti blæs.“

Rými fyrir hinseginleika

Sem fyrr segir verður draglistinni gefið aukið vægi í ár. „Á föstudaginn verður stór dragsýning í Gamla bíói þar sem tvær stjörnur úr bresku þáttaröðinni RuPaul's Drag Race koma fram, þau Danny Beard og Black Peppa, sem verður afskaplega gaman að sjá. Að auki verðum við með allt það besta sem íslenska dragsenan hefur upp á að bjóða, en í henni er mikil gróska. Það er ótrúlega margt flott listafólk sem við eigum hér heima.

Drag er listform sem á sér afskaplega langa, djúpa og merkilega sögu í hinseginsamfélaginu. Við höfum gert okkar besta til að gefa draglistinni pláss á Hinsegin dögum í gegnum árin og ákváðum að stíga þar inn af jafnvel enn meiri krafti núna. Orðræðan er, eins og ég segi, í auknum mæli hatursfull og það er til dæmis verið að banna drag í ákveðnum ríkjum í Bandaríkjunum. Mótsvar okkar við því er að gefa listforminu enn meira vægi en áður. Svo má ekki gleyma því að á sama tíma og drag er merkilegt listform og oft hárbeitt þjóðfélagsrýni, þá er það líka mikil skemmtun fyrir öll sem það sækja. Þess vegna ætlum við að bjóða upp á dragsmiðjur fyrir ungmenni og fjölskyldusýningar ásamt kvöldsýningum fyrir fullorðna fólkið.“

Þá verður boðið upp á ýmsa aðra viðburði vítt og breitt um borgina og má þar nefna partísiglingu, karókí, fataskiptimarkað, dragbingó og hinsegin sögugöngu. Fjölskylduviðburðir og viðburðir fyrir ungmenni verða fleiri en fyrri ár, og má þar nefna hinsegin handverkssmiðju, regnbogakökukeppni, listamarkað og bíókvöld.

Ungu hinsegin tónlistarfólki stendur síðan til boða að koma fram á tónleikum í Pride Centre í Iðnó, þar sem meginþorrinn af dagskrá Hinsegin daga fer fram. „Ungar hinsegin raddir eru tónleikar sem eru í raun sjálfsprottnir úr grasrótinni. Ætlunin er að veita þar ungu hinsegin tónlistarfólki pláss til að koma fram,“ segir Gunnlaugur og bætir við að þátttaka sé opin öllum áhugasömum en nauðsynlegt sé að skrá sig fyrir fram.

Söngur, dans og gleði

Í Pride Centre verður einnig kaupfélag og kaffihús. „Það er dýrmætt fyrir hinseginsamfélagið að eiga sér samastað á hátíðinni. Þetta er opið rými þar sem fólk getur hist, spjallað og átt notalegar stundir auk þess að sækja viðburði.“

Að venju samanstendur dagskráin bæði af fræðslu og skemmtun. Þá hafa öll fræðsluerindi verið dregin saman í Regnbogaráðstefnu á fimmtudeginum þar sem tekið verður á málefnum er varða hinseginsamfélagið, en ætlunin er að gera fræðslunni hærra undir höfði.

Hátíðin hefst með pomp og prakt á opnunarhátíðinni þriðjudaginn 8. ágúst kl. 20 í Gamla bíói undir listrænni stjórn Ástbjargar Rutar Jónsdóttur. „Við lofum fjölbreyttri dagskrá með söng, dansi og gleði til að koma öllum í gírinn fyrir vikuna,“ segir Gunnlaugur, en meðal þeirra sem koma fram eru Una Torfadóttir, Faye Knús, Omari Wiles, Monster Babylon og Hinsegin kórinn undir stjórn Helgu Margrétar Marzellíusardóttur. Dj. Hulda Luv þeytir skífum og hátíðarræðu flytur Ólöf Bjarki Antons, formaður Trans Íslands.“

Og að lokum – hvert er mikilvægi Hinsegin daga?

„Mikilvægi hátíðarinnar verður ekki undirstrikað nógu oft, en hún hefur þó sérstaka þýðingu fyrir hvert og eitt okkar. Fyrst og fremst er þetta ómetanlegur vettvangur fyrir okkur til þess að koma saman og upplifa að við tilheyrum sterku samfélagi þar sem hinsegin fólk er í meirihluta, en ekki minnihluta eins og mörg okkar upplifa í okkar daglegu lífi. Sýnileikinn er svo ofboðslega mikilvægur. Svo snýst þetta líka um að blása hvert öðru byr í brjóst. Að finna kraftinn til þess að halda áfram baráttunni, taka samtölin og setja á oddinn þau málefni sem enn eiga nokkuð í land. Saman getum við nýtt slagkraftinn okkar.“ Dagskrána í heild má finna á vefnum hinsegindagar.is.

Höf.: Snædís Björnsdóttir