Anna Rún Frímannsdóttir
annarun@mbl.is
„Fyrst og fremst bendum við fólki á að kanna ástandið á bílnum, tryggja að hann sé í góðu ástandi, áður en lagt er af stað í ferðalagið,“ segir Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB. Þá bendir hann á mikilvægi þess að huga að hjólbörðum, en æskilegt sé að hafa varadekk meðferðis.
„Það er því miður orðið fátítt í dag að nýir bílar séu útbúnir með varadekki. Flestir eru bara með dælu og kvoðu, sem getur bjargað í sumum tilfellum, en oftar en ekki, sérstaklega þegar fólk er að fara þessa erfiðari vegi okkar eins og malarvegi, geta dekk skorist á hliðum þannig að þá bjargar kvoðan ekki. Þannig að vandamál með varadekk er það sem við höfum haft mest inni á okkar borði á liðnum misserum.“
Þjónusta allan sólarhringinn
Hér áður fyrr var FÍB með sérstaka vakt á skrifstofu sinni en í dag er boðið upp á sólarhringssímsvörun.
„Það er alltaf hægt að ná í okkur, alla daga ársins. Við erum með þjónustusvæði í kringum alla helstu þéttbýliskjarna og þess utan er hægt að fá aðstoð í hinum dreifðari byggðum. Fyrir félagsmenn er aðstoð án endurgjalds bundin við þessi þjónustusvæði en það er þá hægt að fá ódýrari aðstoð og aðgang að aðstoð ef eitthvað kemur upp á því vaktin er opin allan sólarhringinn í síma 5 112 112,“ segir Runólfur og bætir við að þótt aðstoðin miðist við félagsmenn FÍB sé reynt, sérstaklega um svona annasamar helgar eins og verslunarmannahelgina, að leiðbeina öllum sem hringja í þá eftir aðstoð.
„Fyrir utan það að vera með sólarhringsvakt erum við alltaf með sérstakar ráðstafanir þessa helgi.“