Werner Ívan Rasmusson
Werner Ívan Rasmusson
Öldum saman höfum við státað af hlutleysinu. Afskipti íslenskra stjórnvalda af deilum Rússlands og Úkraínu minna óþægilega mikið á leik að eldi.

Werner Ívan Rasmusson

Við Íslendingar höfum í aldir státað okkur af hlutleysi, á sama hátt og Svíar og Svisslendingar. Ein stærsta viðurkenningin sem okkur hefur hlotnast fyrir það var þegar Reykjavík hlotnaðist sá heiður að vera valin sem fundarstaður forsetanna Ronalds Reagans og Mikhails Gorbachevs í október 1986. Efalítið var það yfirlýst hlutleysi okkar sem réð úrslitum um valið.

Ekki virtust forsetarnir óttast um öryggi sitt hér á landi. Lífverðir þeirra og okkar eigin lögregla önnuðust öryggisgæsluna, en engar sáust hríðskotabyssurnar. Þetta ætti að vera íhugunarefni fyrir þá sem leggjast gegn því að vandað sé til verka um hverjum er hleypt inn í landið og hverjum er vísað frá. Við höfum verið með galopin landamæri síðan aðildin að Schengen var samþykkt. Því miður hafa slæðst hingað of margir misindismenn þannig að ekki er hægt að halda hér slíkan fund erlendra stórforseta á sama hátt í dag, hríðskotabyssulaust.

Fjölmenningin hefur margar birtingamyndir, sumar góðar, aðrar slæmar eða verri.

Utanríkisráðherrann okkar, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, hefur verið mjög virk í að hvetja lönd og lýð til stuðnings við Úkraínumenn.

Henni hefur gengið furðu vel að sækja fé í ríkissjóð til ýmissa verkefna fyrir Úkraínu. Ef ég man fréttirnar rétt fóru 1,4 milljarðar til þess að ylja íbúum þar sl. vetur og 200 miljónir fóru í olíusjóð hjá NATÓ. Og nýlega var þeim sent sjúkrahús og nokkrar olíuflutningabifreiðar. Forgangsröðun Alþingis, ráðherra og annarra háttsettra embættismanna er oftar en ekki lítt skiljanleg öllum þorra þjóðarinnar.

Ég hef alltaf staðið í þeirri trú að það væri helsta verkefni utanríkisþjónustunnar að ganga erinda íslenskra hagsmuna á erlendum vettvangi, bæði beint með sendiráðum og með þátttöku í alþjóðasamtökum. Stjórnvöld hafa nú ákveðið að blanda sér í deilu Rússlands og Úkraínu með öðrum hætti en tíðkast hjá hlutlausum ríkjum.

Utanríkisráðherra landsins hefur nú í þrígang tekið ákvarðanir sem túlka

verður sem óvinsamlegar gagnvart Rússlandi. Að hennar undirlagi var Ísland fyrsta ríkið til þess að banna Rússum flug í lofthelgi, fyrst ríkja til þess að samþykkja inngöngu Svíþjóðar og Finnlands í NATÓ og nú fyrst ríkja til þess að loka sendiráði í Moskvu. Margt bendir til þess að við verðum ein á báti þar. Spurningin er: Þjóna þessar ákvarðanir á einhvern hátt íslenskum hagsmunum? Til viðbótar hefur ráðherrann lýst þeirri skoðun sinni opinberlega á erlendum vettvangi að Úkraínumenn „verði að vinna stríðið“. Spurt er: Stangast slík yfirlýsing af hálfu ráðherra í ríkisstjórn Íslands ekki á við yfirlýst hlutleysi þjóðarinnar?

Sérfræðingar hafa látið í ljós áhyggjur af hugsanlegum mótvægis- eða hefndaraðgerðum af hendi Rússa. Þegar hefur orðið vart við merkjanlegar netárásir, en enginn veit hvernig valdamenn í Rússlandi kunna að bregðast við.

En hvað er fram undan? Skýr stefna andúðar hefur verið birt Rússum.

Sem Íslendingi hrýs mér hugur við þegar stjórnvöld taka ákvarðanir sem hugsanlega geta leitt til vopnaðra árása á landið. Sem friðelskandi þjóð þykir mér við vera komin í alltvísýna stöðu.

Höfundur er eldri borgari.

Höf.: Werner Ívan Rasmusson