Verslunarmannahelgi fer nú í hönd; mesta ferðahelgi ársins. Í þessari mildu síðsumarstíð er viðbúið að margir leggist í ferðalög, útilegur eða dvöl í sumarbústað. Verður raunar ekki annað af umferðinni séð en að margir hafi tekið forskot á þá sælu fyrr í vikunni.
Ýmislegt bendir einnig til þess að Íslendingar ferðist öðruvísi um eigið land en áður. Ísland er orðið ferðamannaland, sem hefur um margt breytt aðgengi og ásýnd. Því kynntumst við nánast upp á nýtt á dögum heimsfaraldurs, þegar utanlandsferðir voru ekki lengur í boði og fólk hvatt til þess að ferðast innanlands, með gát. Þá sáu Íslendingar betur en áður hvernig ferðaþjónustan hafði sprungið út og uppgötvuðu jafnvel ýmsar perlur í festi landsins, sem við höfðum ekki áður séð eða nánast gleymt.
Fyrir vikið ferðumst við meira um landið okkar, en aukin bílaeign, betri vegir og aðrir innviðir stuðla að því líka. Það er öllum hollt að ferðast um landið. Bæði til þess að kynnast því og rótum okkar, rækja og rækta þau tengsl, læra að meta fegurð landsins og að miklu leyti ósnortna náttúru og víðerni.
Það kallar enn á að við förum og ferðumst með gát gagnvart lífríkinu, skiljum við landið eins og við viljum koma að því og viljum að börn okkar og barnabörn komi að því.
En það er líka rétt að brýna fyrir öllum vegfarendum að fara með ýtrustu gát í umferðinni, sýna tillitssemi og gæta góða skapsins. Það liggur engum lífið á.