Fjölskyldan Júlíus, Björgvin Atli, Dagur Snær, Lilja Björk og Sóley Birna við stúdentsútskrift Björgvins.
Fjölskyldan Júlíus, Björgvin Atli, Dagur Snær, Lilja Björk og Sóley Birna við stúdentsútskrift Björgvins.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lilja Björk Einarsdóttir fæddist 4. ágúst 1973 í Reykjavík og flutti snemma með fjölskyldunni upp í Breiðholt þar sem hún ólst upp í Seljahverfi og gekk í Seljaskóla. „Það var allt fullt af krökkum í nýju og risastóru hverfi og við lékum okkur …

Lilja Björk Einarsdóttir fæddist 4. ágúst 1973 í Reykjavík og flutti snemma með fjölskyldunni upp í Breiðholt þar sem hún ólst upp í Seljahverfi og gekk í Seljaskóla. „Það var allt fullt af krökkum í nýju og risastóru hverfi og við lékum okkur alla daga.“

Hún byrjaði að vinna hjá Gunnari afa sínum og Þorbjörgu ömmu í garðyrkju þegar hún var tíu ára gömul. „Ég fór oft með afa á Vatnsenda þar sem hann ræktaði grænmeti og plöntur sem hann seldi í verslanir og einnig í Gróðrarstöðinni Grænuhlíð, sem amma og afi áttu. Þau kenndu mér handtökin í garðinum og ég vann hjá þeim í tíu ár við að rækta og selja blóm, tré og runna og líður eiginlega hvergi betur á vorin en í moldinni.“

Lilja fór í Verslunarskólann og gekk vel í námi. „Það sem stendur samt upp úr er frábær vinkonuhópur sem blandaðist úr Seljaskóla og Versló. Eftir Versló langaði mig að læra meira um garðyrkju og fékk nemasamning hjá Reykjavíkurborg og vann þar um veturinn. Ég lærði á keðjusög og að leggja hellur og margt nytsamlegt. Enda er ég óhrædd við hvers konar stórframkvæmdir í garðinum.

Ég ákvað þó að hrókera og fara í véla- og iðnaðarverkfræði í HÍ. Á öðru ári hitti ég manninn minn, Fylkismanninn Júlíus Atlason, og við höfum verið saman síðan. Námið var frábært. Erfitt en skilaði sér í þrautseigju og stórkostlegum vinahópi, Bekkinn köllum við okkur og við eldumst saman eins og gott vín. Eiginkonurnar hafa komið sterkar inn, en ég var lengi eina stelpan í hópnum.“

Lilja og Júlíus fóru í nám til Bandaríkjanna árið 1999, þá var Sóley sex mánaða. Lilja lauk mastersgráðu í fjármálaverkfræði og Júlíus lauk doktorsnámi í aðgerðastjórnun (Operations Research), hvort tveggja frá University of Michigan í Ann Arbor. Björgvin Atli fæddist í Michigan. „Eftir nám starfaði ég hjá Ford Motor Company við að gera ýmiss konar áhættustjórnunarlíkön, sú reynsla hefur nýst vel.“

Fjölskyldan flutti síðan til London árið 2005 og Lilja hóf störf hjá Landsbanka Íslands sem var þá að opna starfsstöð í London. „Ég vann við uppbyggingu á starfseminni til að styðja við lánastarfsemi og miðlun. Eftir fjármálahrunið var fókusinn á að hámarka virði eigna, sem tókst verulega vel enda til mikils að vinna. Þetta er tími sem er erfitt er að gera skil í stuttu máli. Það var mjög margt sem þurfti til þess að ná þeim góða árangri sem náðist.

Við eignuðumst marga vini í London og þar byrjuðum við öll að spila tennis og vorum smám saman öll á bólakafi í tennislífinu. Ég var yfir mig metnaðarfull, og þrátt fyrir litla getu í byrjun æfði ég mig mikið og vann mig svo upp í að komast í liðakeppni, fyrst fimmta liðið og svo upp í fyrsta liðið í klúbbnum. Tennis er frábær íþrótt og ég hef haldið áfram að stunda hana á Íslandi og komist í góðan félagsskap tennisfólks hér. Þetta er sport fyrir lífstíð. Ég tók stutt hlé í tennis þegar Dagur minn fæddist árið 2013 en það var ekki langt.“

Lilja var ráðin bankastjóri Landsbankans 2017 og flutti fjölskyldan þá heim til Íslands. „Ég einsetti mér að hafa jákvæð áhrif í starfi, hvernig sem á það er litið. Mér líkar við að horfa til langs tíma og hef lítinn áhuga á skammtímareddingum. Það skiptir máli að vinnan sé gefandi og óskadagurinn er þegar samstarfsfólk er enn fullt af orku í lok vinnudags. Það blæs oft um banka en þetta hefur verið gefandi starf með einstökum hópi fólks um allt land og með skýran tilgang um að vera traustur banki fyrir farsæla framtíð.

Okkur líður vel á Íslandi og gerum margt með vinum, systkinum og foreldrum. Lykillinn að lífshamingjunni hér á Íslandi er að njóta þess að vera úti að leika og eiga hlýja úlpu, það bjargar flestu. Við erum mikið á skíðum, oftar en ekki í frábærum félagsskap hjá Hengli skíðafélagi þar sem yngsti sonurinn æfir, en auk þess á gönguskíðum og aðeins að fikta við fjallaskíði. Síðan erum við búin að ferðast í tjaldvagni um þvert og endilangt landið og við erum alltaf á fallegum stöðum. Nú síðast í Þórsmörk eftir 30 ára hlé og ganga yfir Fimmvörðuháls með gönguklúbbi Landsbankans var besta byrjunin á þeirri útilegu.“

Fjölskylda

Eiginmaður Lilju er Júlíus Atlason, f. 18.12. 1975, framkvæmdastjóri hjá Five Degrees. Þau búa í Bústaðahverfi í Reykjavík. Foreldrar Júlíusar eru hjónin Brynhildur Sverrisdóttir, f. 16.5. 1953, viðskiptafræðingur, og Atli Gunnar Guðmundsson, f. 30.7. 1949, hugbúnaðarsérfræðingur. Þau búa í Reykjavík.

Börn Lilju og Júlíusar eru 1) Sóley Birna, f. 29.1. 1999, eðlisfræðingur, starfar á leikskólanum Jörfa; 2) Björgvin Atli, f. 12.7. 2001, nemi í hugbúnaðarverkfræði við HÍ. Kærasta hans er Rakel Sif Mánadóttir, f. 2.12. 2002; 3) Dagur Snær, f. 13.6. 2013, grunnskólanemi. Börnin búa öll í foreldrahúsum.

Systkini Lilju eru 1) Guðmundur Heiðar Einarsson, f. 1.6. 1977, byggingarfræðingur. Maki: Laura Moncada Hengel, viðskiptafræðingur. Þau búa í Kópavogi; 2) Dagbjört Erla Einarsdóttir, f. 13.10. 1980, yfirlögfræðingur Regins. Maki: Ásgeir Einarsson, framkvæmdastjóri Egils Árnasonar ehf. Þau búa í Reykjavík.

Foreldrar Lilju eru Jóna Gunnarsdóttir, f. 4.4. 1948, kennari og mikil prjónakona, býr í Mosfellsbæ, og Einar Elínus Guðmundsson, f. 5.9. 1950, viðskiptafræðingur og fv. forstjóri Vatnsvirkjans, býr í Reykjavík.