Skaðabætur Flugvélin sem Niceair notaði var í eigu félagsins Hi Fly. Samgöngustofa telur að Hi Fly hafi verið flugrekandi í flugferðum Niceair.
Skaðabætur Flugvélin sem Niceair notaði var í eigu félagsins Hi Fly. Samgöngustofa telur að Hi Fly hafi verið flugrekandi í flugferðum Niceair. — Morgunblaðið/Margrét Þóra
Hermann Nökkvi Gunnarsson hng@mbl.is Samgöngustofa, SGS, úrskurðaði í tveimur mismunandi málum á dögunum að flugrekandinn Hi Fly Ltd skyldi greiða fimm einstaklingum skaðabætur upp á 400 evrur hverjum, ríflega 58.000 krónur, vegna aflýsingar á flugferðum Niceair dagana 10.-11. apríl og greiða flugfargjald einstaklinganna sem þurftu að kaupa nýja miða hjá öðrum félögum.

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Samgöngustofa, SGS, úrskurðaði í tveimur mismunandi málum á dögunum að flugrekandinn Hi Fly Ltd skyldi greiða fimm einstaklingum skaðabætur upp á 400 evrur hverjum, ríflega 58.000 krónur, vegna aflýsingar á flugferðum Niceair dagana 10.-11. apríl og greiða flugfargjald einstaklinganna sem þurftu að kaupa nýja miða hjá öðrum félögum.

Niceair var úr­sk­urðað gjaldþrota þann 23. maí en Hi Fly var flugrekandi fyrir hönd Niceair sem seldi miðana. Úrskurðir SGS þýða því að farþegarnir eigi rétt á skaðabótum og endurgreiðslu á flugfargjöldum frá Hi Fly, ekki Niceair.

Fleiri kvartanir til meðferðar

SGS segir í svörum til Morgunblaðsins að þar sem Hi Fly hafi verið fyrirtækið sem var með flugrekstrarleyfið í þeim flugum sem úrskurðirnir fjölluðu um beri Hi Fly ábyrgð á réttindum farþega sem áttu bókuð flug samkvæmt loftferðalögum og reglugerðum um réttindi farþega.

SGS er með fleiri kvartanir til meðferðar sem snúa að flugrekandanum Hi Fly Ltd og því má vænta þess að fleiri fái skaðabætur og flugfargjöld sín greidd. „Úrskurðir Samgöngustofu hafa einungis réttaráhrif gagnvart aðilum málsins þó að úrskurðir hafi vissulega fordæmisgefandi áhrif í málum sem varða sama flug eða í sambærilegum málum,“ segir í svari SGS.

Varðandi það hvort SGS telji að Hi Fly verði við úrskurðunum og greiði skaðabætur og flugfargjöldin telja þeir það líklegt. Þeim sé ekki kunnugt um neinar mótbárur í kjölfar úrskurðanna.

„Almennt virða flugrekstrarleyfishafar úrskurði Samgöngustofu, óháð því hvar þeir hafa heimilisfesti og það þrátt fyrir að lítið sé um svör meðan mál eru til meðferðar. Reynsla Samgöngustofu er sú að flugrekendur sem hafa gilt flugrekstrarleyfi virði úrskurði stjórnvalda eða úrskurðaraðila vegna réttinda farþega.“

Höf.: Hermann Nökkvi Gunnarsson