Þórsteina Pálsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 22. desember 1942. Hún lést á Heilbrigisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum 4. ágúst 2023.

Foreldrar hennar voru Páll Sigurgeir Jónasson, f. 8. október 1900, d. 31. janúar 1951, og Þórsteina Jóhannsdóttir, f. 22. janúar 1904, d. 23. nóvember 1991. Systkini Þórsteinu voru 15 talsins og á lífi eru Þórunn, Sævald, Hlöðver, Birgir og Emma.

Eftirlifandi eiginmaður Þórsteinu er Þórður Karlsson, f. 2. september 1949. Foreldar Þórðar voru Karl Jóhann Gunnarsson, f. 22. desember 1926, d. 3. nóvember 2007, og Oddný Guðbjörg Þórðardóttir, f. 15. ágúst 1929, d. 23. október 1998. Systkini Þórðar eru Jón Ólafur, Gunnar Már og Ása Kristbjörg.

Börn Þórsteinu eru fimm: 1) Sigurbjörn Árnason, f. 3. maí 1962, kvæntur Eddu Daníelsdóttur, börn þeirra eru þrjú og barnabörnin níu. 2) Baldvin Þór Baldvinsson, f. 18. maí 1968, d. 8. desember 1970. 3) Kristbjörg Oddný Þórðardóttir, f. 9. október 1975, d. 4. janúar 1999, átti hún tvær dætur með Arnari Richardsyni og eru barnabörnin orðinn þrjú. 4) Þórdís Þórðardóttir, f. 18. maí 1977, gift Herði Má Þorvaldssyni, börn þeirra eru fjögur. 5) Eyþór Þórðarson, 22. júlí 1981, unnusta Andrea Kjartansdóttir, börn þeirra eru þrjú.

Útförin fer fram frá Landakirkju í dag, 18. ágúst 2023, klukkan 13.

Útförinni verður streymt á vefsíðu Landakirkju.

Til minningar um mömmu.

Til himnaríkis ég sendi,

þér kveðju mamma mín.

Á því virðist enginn endi,

hve sárt ég sakna þín.

Þú varst mín stoð og styrkur,

þinn kraftur efldi minn hag.

Þú fældir burtu allt myrkur,

með hvatningu sérhvern dag.

Nú tíminn liðið hefur,

en samt ég sakna þín.

Dag hvern þú kraft mér gefur,

ég veit þú gætir mín.

(Steinunn Valdimarsdóttir)

Sigurbjörn (Bjössi),
Þórdís, Eyþór
og tengdabörn.

Elsku besta amma mín, það tekur tíma að átta sig á því að þú sért farin frá okkur. Þú varst einstök kona og glæsileg, þú elskaðir að hafa líf og fjör í kringum þig og sast aldrei á þínum skoðunum. Ég sit eftir með fallegar minningar sem ég mun geyma mér í hjartastað og reyni hér að koma nokkrum í orð.

Amma, þú þurftir alltaf að hafa þig til áður en út úr húsi var farið, mér fannst hundleiðinlegt að bíða en var fljót að hætta að pirra mig á biðinni því þú varst alltaf með mola eða nesti fyrir mig þegar við fórum út. Þriðjudagar voru okkar dagar, þá komum við frænkurnar til þín og eyddum deginum með þér. Eftir skóla rölti ég í íþróttahúsið þar sem beið mín kókómjólk og smurðar flatkökur með hangikjöti í sundtöskunni þinni, því það var ekki annað hægt en að fá smá nesti áður en maður fór út í pott til þín. Við frænkurnar klæddum okkur oftar en ekki upp fyrir kvöldmatinn og þú hafðir alltaf jafn gaman af því. Við skiptumst á að velja hvað þú myndir elda fyrir okkur og við urðum aldrei fyrir vonbrigðum. Ég hætti ekki að koma í mat á þriðjudögum fyrr en ég flutti til Reykjavíkur 18 ára, en þú varst alltaf svo dugleg að hringja til að athuga hvernig mér gengi og segja mér alls konar sögur af þér og systrum þínum. Sögurnar voru nú aðallega frá böllunum í gamla daga og ég mun aldrei gleyma því þegar þú sagðir við mig: „Mikið hlýtur að vera leiðinlegt að vera ungur í dag því það eru aldrei böll.“ Þú varst alltaf svo dugleg að láta mig vita að þú elskaðir mig og hvað þú varst stolt af mér.

Þegar ég flutti aftur heim til eyja vann ég frekar mikið og þú varst alltaf að segja við mig hvað ég væri upptekin og hefði lítinn tíma. Hins vegar fylgdi mér ungur maður frá Reykjavík sem var ótrúlega duglegur að minna mig á að fara í heimsókn til ykkar á Búhamarinn og vildi hann frekar hanga hjá ykkur afa að drekka kaffi og borða besta túnfisksalat í heimi en að vera einn heima á meðan ég vann.

Ég er þakklát fyrir þær stundir sem við áttum saman, elsku amma. Allir þriðjudagarnir, útilegurnar, sundferðirnar, kaffibollarnir og síðustu dagarnir. Þú hélst í húmorinn og fjörið allt til enda. Það var einstaklega gott að geta hlegið saman seinustu dagana þrátt fyrir að við vissum í hvað stefndi, þú sást um að veita okkur gleði á meðan við vorum byrjuð að syrgja þig. Ég er þakklát fyrir þá tíu mánuði sem þið Arnar Manuel fenguð til að kynnast, ég lofa að segja honum sögur af þér, hann mun svo sannarlega fá að vita það að við eigum einstaka og fallega ömmuengla sem vaka yfir okkur og vernda.

Nú ert þú komin í draumalandið þar sem margir hafa beðið eftir endurfundum, þú knúsar mömmu frá okkur systrum.

Ég elska þig og sakna þín.

Þóra Guðný Arnarsdóttir.

Elsku yndislega amma Steina, ég sit hér heima og er að reyna að ná utan um það að þú sért farin frá okkur. Við áttum alveg einstakt samband og vorum mjög nánar og góðar vinkonur. Alltaf var best að leita til þín ef eitthvað bjátaði á og þá var hlýi faðmurinn opinn, tárin þerruð og góð ráð gefin. Einnig var allt best hjá ykkur afa, meira að segja súrmjólkin. Það var alltaf líf og fjör í kringum barnahópinn á Búhamrinum og voruð þið afi einstaklega natin við okkur. Það var stutt í gleðina, hláturinn og sprellið sem veitti okkur mikla gleði og hamingju.

Amma, þú gekkst í gegnum margar raunir á þinni lífsleið og er aðdáunarvert hvernig þú tókst á við þær. Þú varst alltaf mjög opin og sagðir góðar sögur og talaðir oft um hvað þið pabbi hefðuð gengið í gegnum saman. Einnig hvað þið voruð lánsöm að afi Þórður kom inn í líf ykkar og hvað þú elskaðir hann heitt. Lífskraftur þinn var mikill og sýndir þú það fram á síðustu stundu en því miður sigraði meinið.

Allra besta gjöfin mín er allt það sem þú hefur kennt mér, ráðin þín góðu, hlýja þín og ást. Án þín verður lífið aldrei eins en minningin um þig og okkar dýrmætu stundir mun lifa áfram í brjósti mér.

Kveðja til ömmu

Þú varst okkur amma svo undur góð

og eftirlést okkur dýran sjóð,

með bænum og blessun þinni.

Í barnsins hjarta var sæði sáð,

er síðan blómgast af Drottins náð,

sá ávöxtur geymist inni.

Við allt viljum þakka amma mín,

indælu og blíðu faðmlög þín,

þú vafðir oss vina armi.

Hjá vanga þínum var frið að fá

þá féllu tárin af votri brá,

við brostum hjá þínum barmi.

Við kveðjum þig elsku amma mín,

í upphæðum blessuð sólin skín,

þar englar þér vaka yfir.

Með kærleika ert þú kvödd í dag,

því komið er undir sólarlag,

en minninga ljós þitt lifir.

Leiddu svo ömmu góði guð

í gleðinnar sælu lífsfögnuð,

við minningu munum geyma.

Sofðu svo amma sætt og rótt,

við segjum af hjarta góða nótt.

Það harma þig allir heima.

(Halldór Jónsson frá Gili)

Elska þig, amma mín.

Þín,

Þórsteina (Steina).

Elsku elsku hjartans besta vinkona og amma mín. Ég trúi því ekki enn að þú sért farin frá okkur fyrir fullt og allt. Nú sit ég hér og hugsa til þín. Hugsa um allar okkar minningar og allt það skemmtilega sem við gerðum saman. Amma, þú varst fallegust og mesta skvísan, alltaf svo fín til fara, með naglalakk og skartgripi. Bæði þegar ég var yngri og enn þann dag í dag hugsa ég: Ég ætla að verða svona amma eins og þú. Þú tókst alltaf á móti mér opnum örmum og hlýju hjarta og þegar mér leið illa var alltaf gott að koma til þín í eitthvað nýbakað og gott. Þú sagðir mér í hvert skipti sem ég hitti þig hvað þú værir stolt af mér, að ég væri gullfalleg og hversu heppin þú værir að eiga mig að.

Skemmtilegt að segja frá því að í síðasta samtali okkar sagðir þú að við værum að fara saman til Kanarí en með því skilyrði að ég myndi klippa þig, gera þig huggulega og blása á þér hárið því eins og þú sagðir það, gerir það enginn betur en þú, Selma mín.

Elsku amma mín, þú varst með húmorinn upp á 10 og jafnaðargeð upp á 100. Aldrei, og þá meina ég aldrei, sá ég þig reiða, ég sá þig hneykslast á hlutum en aldrei reiða.

Það var alltaf gaman að koma í mat til þín og afa og fá dýrindis ítalskan rétt sem þú gerðir alltaf best. Þá sérstaklega þegar við tryllurnar þrjár (Bertha María, Þóra Guðný og ég) komum alla þriðjudaga til ykkar og fengum að klæða okkur upp á í alls konar föt og kjóla frá þér, máta alla hælaskó sem þú áttir og þú klæddir þig bara upp á með okkur og settir á okkur varalit. Besta amma í heimi!

Með sorg í hjarta er komið að því að kveðja þig, elsku amma. Ég er óendanlega þakklát fyrir allar okkar minningar og allt sem ég fékk að upplifa með þér. Ég er þakklát fyrir þann góða tíma sem við fengum saman. Ég mun aldrei gleyma því þegar ég kvaddi þig í síðasta sinn, þú sagði við mig: Selma, við erum að fara til Kanarí saman! Núna mun ég fara til Kanarí og heiðra minningu þína, elsku amma. Ég mun sakna þess að spjalla við þig og fá hrós frá þér en ég veit að þú ert uppi í draumalandi og færð að knúsa fjölskylduna þína sem tekur vel á móti þér. Ég mun passa vel upp á afa fyrir þig, elsku besta amma, þín verður sárt saknað. Ég mun alltaf elska þig, elsku amma mín.

Selma Rut
Sigurbjörnsdóttir.

Elsku amma okkar, það er svo erfitt að hugsa að við fáum ekki að knúsa þig einu sinni enn og segja þér hversu mikið við elskum þig. Þú varst einstök, umhyggjusöm, hlý, falleg, brosmild, fyrirmynd okkar og svo sterk. Það eru svo margar fallegar minningar sem við eigum með þér og munum alltaf geyma þær í hjarta okkar. Það var svo gott að koma niður á Búhamar vitandi að þú og afi mynduð bíða í dyrunum og gefa okkur bestu knúsin. Og þegar þú sagðir okkur alltaf hvað þér þótti vænt um okkur og hversu mikið þú hefðir saknað okkar þegar við vorum lengi í burtu. Það er allt miklu betra hjá þér, maturinn, knúsin og maður sefur alltaf lang best á Búhamrinum. Við erum endalaust þakklát fyrir að við fengum að vera með þér í sumar þegar þú varst á spítalanum í Reykjavík og í eyjum, við hlógum mikið saman þar sem þú varst alltaf að segja brandara, þú sagði okkur margar sögur frá æsku þinni á meðan við fengum að snyrta þig, naglalakka þig, gera augabrýrnar og laga fallega hárið þitt. Þér leið best þegar þú varst snyrtileg og fín. Sem þú varst auðvitað alltaf.

Amma, þú varst einstök, seinustu dagar hafa verið mjög erfiðir, okkur langar bara að knúsa þig, heyra fallegu röddina þína, liggja hjá þér, halda í höndina á þér, bara einu sinni enn. Þegar við gistum hjá þér komst þú inn í herbergið og fórst með faðirvorið, kysstir okkur á ennið sagðir síðan „guð geymi þig“ og „sofðu rótt í alla nótt“ á hverju kvöldi. Þegar við förum að sofa finnum við nærveruna þína hjá okkur, og við vitum að þú passar upp á okkur.

Ég er endalaust þakklát fyrir seinasta sumar þegar ég bjó hjá þér og afa á meðan ég vann hér í eyjum, þið biðuð alltaf eftir mér með matinn og borðuðuð með mér, þið sátuð við matarborðið og gerðuð grín að hvort öðru, við hlógum svo mikið saman og fórum í marga bíltúra á kvöldin. Ég mun ávallt geyma þessar fallegu minningar í hjartanu mínu. Ég elska þig endalaust, elsku amma mín.

(Andrea Hrönn)

Elsku amma Steina, það var alltaf svo skemmtilegt hjá okkur og ég man svo vel eftir því þegar ég var að gista hjá þér og afa á Búhamrinum. Það var alltaf svo notalegt og skemmtilegt. Þegar ég vaknaði þá heyrði ég alltaf í útvarpinu í botni og þú og afi voru hlæjandi að hvort öðru. Amma, ég elska þig með öllu mínu hjarta og ég veit að þú ert að fylgjast með mér núna.

(Tómas Þór)

Við allt viljum þakka amma mín,

indælu og blíðu faðmlög þín,

þú vafðir oss vina armi.

Hjá vanga þínum var frið að fá

þá féllu tárin af votri brá,

við brostum hjá þínum barmi.

(Halldór Jónsson frá Gili)

Guð geymi þig, elsku amma.

Andrea Hrönn
og Tómas Þór.