Á þessum árstíma þegar skólarnir eru að byrja er ekki úr vegi að endurstilla sig aðeins og koma sér upp nýjum siðum sem hafa jákvæð áhrif á heimilislífið. Fullorðnir geta gert margt sniðugt til þess að efla sig á alla kanta en það þarf líka að huga að ýmsum atriðum þegar kemur að börnum og unglingum

Á þessum árstíma þegar skólarnir eru að byrja er ekki úr vegi að endurstilla sig aðeins og koma sér upp nýjum siðum sem hafa jákvæð áhrif á heimilislífið. Fullorðnir geta gert margt sniðugt til þess að efla sig á alla kanta en það þarf líka að huga að ýmsum atriðum þegar kemur að börnum og unglingum.

Það kannast örugglega margir nútímaforeldrar við togstreituna sem skapast þegar allir fjölskyldumeðlimir eru fastir í símanum sínum, eða tæki djöfulsins eins og sumir kalla það. Þegar streitan hefur yfirtekið allar frumur líkamans er freistandi að leggjast bara upp í sófa og fá að vera heiladauður í friði og leyfa börnunum að gera slíkt hið sama.

Þegar barnið er fast í tæki djöfulsins hrakar íslenskukunnáttunni mikið og orðaforði minnkar. Á sama tíma verður barnið slakara í mannlegum samskiptum. Það er ekki gott fyrir börn að eiga fyrirmyndir sem eru dofnar og veita ekki viðnám. Barnauppeldi er ekki tívolíferð og foreldri þarf að setja skýr mörk ef barnið á að blómstra og verða að almennilegri manneskju á fullorðinsárum.

Jón Pétur Zimsen aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla sendir foreldrum barna í skólanum alltaf vikulegan tölvupóst. Þessir tölvupóstar eru svo vel skrifaðir og sniðugir að þeir eru lesnir upp til agna. Þeir fara ekki beint í ruslakörfuna. Í viðtali hér í blaðinu útskýrir hann til dæmis hvers vegna það skipti máli að barnið sé ekki alltaf í símanum.

„Með tilkomu snjalltækjanna virðist félagsfærni hafa minnkað, það sýna tölur. Börn, ungmenni og fullorðnir eiga erfiðara með að tjá sig beint við næstu manneskju og við það tapast ákveðinn vettvangur og tækifæri til að tjá tilfinningar sínar. Tjáning yfir skjá getur auðveldlega misskilist eða rangtúlkast, þörfin fyrir raunsamskipti eru samofin mennsku okkar,“ segir hann. Hann segir að börn þurfi að læra mannleg samskipti og hann finni vel fyrir því í sínum skóla að unglingum liggur mikið á hjarta. Þeir þurfi á hlustun og stuðningi að halda. Jón Pétur segir að félagsmiðlar séu skaðlegir á margan hátt.

„Það er enginn sem birtir af sér mynd nýbúinn að hnerra með hor út á kinn heldur er allt fallega framsett og ákveðinn draumaveruleiki sem birtist. Krakkar horfa svo á eitthvað rosa flott í 15 sekúndur og fá fullt af endorfínum en um leið bera þau sig saman við einhverjar óraunhæfar fyrirmyndir, ekkert gott getur komið út frá slíkum samanburði,“ segir hann.

Það er auðvitað ekki hægt að segja börnum og unglingum að slökkva á símanum þegar foreldrarnir eru sjálfir í samfelldu tengslarofi. Þau hvorki heyra né sjá því verið er að fylgjast með nýjustu Instagram-veiðiferðinni eða skoða kettlingamyndbönd á TikTok.