Pagliacci Kristján Jóhannsson ásamt félögum úr kór Íslensku óperunnar.
Pagliacci Kristján Jóhannsson ásamt félögum úr kór Íslensku óperunnar. — Morgunblaðið/Frikki
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eru Sinfónían, Þjóðleikhúsið og Listasafnið næst í fallöxina hjá ráðamönnum?

Árni Tómas Ragnarsson

Válegar fréttir hafa borist um framtíð Íslensku óperunnar, öllu starfsfólki verið sagt upp og engin dagskrá fram undan næsta vetur. Og þetta er ákveðið af stjórnvöldum aðeins örstuttu eftir að eldhuginn og stofnandi Óperunnar, Garðar Cortes, fellur frá. Þetta eru svik og engir mannasiðir og hlýtur að verða leiðrétt. Íslenska óperan hefur verið elskuð af tugum þúsunda Íslendinga frá því hún var stofnuð fyrir rúmum 40 árum og verið vettvangur fyrir marga helstu listamenn okkar allan þann tíma. Óperan og sýningar hennar hafa bæði aukið þroska listafólksins og glatt landsmenn í allan þennan tíma auk þess sem margir þeirra hafa borið hróður Íslands út um víða veröld.

Jafnt ábyrgð og skilningsleysi þeirra ráðamanna sem fyrir þessu standa er í rauninni fáheyrt fyrirbæri. Eru Sinfónían, Þjóðleikhúsið og Listasafnið næst í fallöxina hjá ráðamönnum? Ef það vakir fyrir stjórnvöldum að gera skipulagsbreytingar á starfsemi Óperunnar, mætti þá ekki gera þær með minna brútal og fljótræðislegum hætti?

Þó er það þannig að það hefur verið basl með skipulag Óperunnar í langan tíma og hef ég skrifað um það nokkrum sinnum. Þannig er mál með vexti að Sinfónían og Óperan deila ekki aðeins vinnustað heldur líka listafólki. Nær allir spilarar Sinfó spila líka fyrir Óperuna og söngvarar hennar og kór taka oft þátt í tónleikum Sinfóníunnar. Hvað er því eðlilegra og hagkvæmara en að þessar stofnanir sameinist rekstrarlega undir einn hatt og yfirstjórn? Þannig er þetta gert víða erlendis á miklu fjölmennari stöðum. Auðvitað ætti listræn yfirstjórn síðan að vera aðskilin.

Höfundur er læknir.