Barátta Víkingurinn Selma Dögg Björgvinsdóttir í harðri baráttu við Mosfellingin Hlín Heiðarsdóttur að Varmá í Mosfellsbæ í gærkvöldi.
Barátta Víkingurinn Selma Dögg Björgvinsdóttir í harðri baráttu við Mosfellingin Hlín Heiðarsdóttur að Varmá í Mosfellsbæ í gærkvöldi. — Morgunblaði/Arnþór Birkisson
Nýkrýndir bikarmeistarar Víkings úr Reykjavík misstigu sig þegar liðið heimsótti Aftureldingu í 1. deild kvenna í knattspyrnu í 15. umferð deildarinnar að Varmá í Mosfellsbæ í gær en leiknum lauk með jafntefli, 2:2

Nýkrýndir bikarmeistarar Víkings úr Reykjavík misstigu sig þegar liðið heimsótti Aftureldingu í 1. deild kvenna í knattspyrnu í 15. umferð deildarinnar að Varmá í Mosfellsbæ í gær en leiknum lauk með jafntefli, 2:2. Hlín Heiðarsdóttir og Maya Neal skoruðu mörk Mosfellinga en Hulda Ösp Ágústsdóttir skoraði tvívegis fyrir Víkinga.

Þá vann HK nauman sigur, 3:2, gegn KR á Meistaravöllum þar sem Koldís María Eymundsdóttir skoraði mark KR-inga en þær Emily Sands, Brookelynn Entz og Isabella Eva Aradóttir skoruðu mörk HK. Jewel Boland, leikmaður HK varð svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

Grótta hafði betur gegn Grindavík í miklum markaleik í Grindavík, 5:3. Hannah Abraham, Ariela Lewis, Hallgerður Kristjánsdóttir og Arnfríður Auður Arnarsdóttir skoruðu mörk Gróttu en Jasmine Colbert skoraði tvívegis fyrir Grindavík og Ragnheiður Tinna Hjaltalín eitt mark.

Þá vann Fylkir stórsigur gegn Augnabliki, 7:1, í Árbænum þar sem Eva Rut Ásþórsdóttir og Guðrún Karítas Sigurðardóttir skoruðu tvívegis fyrir Fylki og þær Tinna Harðardóttir, Erna Sólveig Sverrisdóttir og Birna Kristín Eiríksdóttir eitt mark hver. Edith Kristín Kristjánsdóttir skoraði mark Augnabliks.