Kirkjuból í Dýrafirði Bjarni gaf út minningabók um æskustöðvarnar í vor.
Kirkjuból í Dýrafirði Bjarni gaf út minningabók um æskustöðvarnar í vor. — Ljósmynd/Sayuri Ichida
Bjarni Guðmundsson fæddist 18. ágúst 1943 að Kirkjubóli í Dýrafirði og ólst þar upp til tvítugs við almenn bústörf. Hann var í barnaskóla í Haukadal og á Þingeyri og lauk landsprófi frá Héraðsskólanum að Núpi 1960

Bjarni Guðmundsson fæddist 18. ágúst 1943 að Kirkjubóli í Dýrafirði og ólst þar upp til tvítugs við almenn bústörf. Hann var í barnaskóla í Haukadal og á Þingeyri og lauk landsprófi frá Héraðsskólanum að Núpi 1960. Hann var farkennari við Þingeyrarskóla veturinn 1960-61 og lauk búfræðinámi frá Hvanneyrarskóla 1962. „Það kom þannig til að ég ætlaði að taka mér smá hlé eftir landspróf og þá vantaði kennara og ég var plataður til að taka þetta að mér. Ég lærði gífurlega mikið á þessum tíma og ég held að blessuð börnin hafi ekki borið neinn skaða af.“ Síðan var för Bjarna heitið í Menntaskólann á Akureyri í fornám og síðan lauk hann búfræðikandídatsprófi frá framhaldsdeild Hvanneyrarskóla árið 1965.

Íslenskumaður og fræðari

„Ég hafði afskaplega gaman af heyskap og jarðyrkju, en var meiri rati í kringum sauðfé,“ segir Bjarni og bætir við að hugur hans hafi alltaf staðið til búfræðináms, þó hann hafi líka haft gaman af tungumálum eins og íslensku. Hann fór í framhaldsnám við Landbúnaðarháskólann að Ási 1966-1971 en því lauk með doktorsprófi þaðan.

Meðfram náminu var Bjarni aðstoðarmaður við bútæknitilraunir Verkfæranefndar ríkisins á Hvanneyri sumarið 1964 og rannsóknarmaður við skólann 1965-66. Hann vann sumarstörf við rannsóknir hjá Bútæknideild Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins (RALA) 1967-69 og var sérfræðingur hjá Bútæknideild RALA og jafnframt stundakennari við Hvanneyrarskóla á árunum 1971-1973.

„Svo leiddist ég út í kennslu á Hvanneyri og var kennari við Hvanneyrarskóla með rannsóknarskyldu frá árinu 1973.“ Bjarni var skipaður aðalkennari við Búvísindadeild skólans og gerður prófessor við skólann árið 2000. „Kerfið var mjög formlegt á þessum árum og það tók mikinn tíma að fá viðurkenningu á náminu og gerðist ekki fyrr en um aldamótin, þrátt fyrir að við værum leiðbeinendur í lokaverkefnum nemenda í framhaldsnámi.

„Ég kenndi fram að 67 ára aldri og hef verið að sinna stundakennslu alveg fram á síðustu ár. Heilsan hefur verið góð og gott að geta unnið.“

Bjarni hefur verið mjög virkur í sínu fagi og tekið að sér ýmis störf í þágu samfélagsins. Hann var kjörinn deildarstjóri Búvísindadeildar Hvanneyrarskóla 1979-83 og aftur 1989-93; var aðstoðarmaður landbúnaðarráðherra 1983-88, í háskólaráði Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri frá 1999, var í hreppsnefnd Andakílshrepps, svo aðeins fátt sé talið. Þá stóð hann fyrir uppbyggingu Búvélasafnsins á Hvanneyri er hófst 1976, síðar Landbúnaðarsafns Íslands og árlegum sýningum þess, með góðri hjálp margra, einkum á árunum eftir 1995. „Ég hef alltaf verið gömul sál og haft áhuga á eldri búháttum og hafði gaman af því að hirða um gamla sögulega hluti.“

Ritstörfin

Fræðarinn og íslenskumaðurinn mætast í ritstörfunum. Á embættisárunum skrifaði hann urmul rannsókna og fræðslugreina um fóðuröflun, verkun og geymslu heys og korns, auk þess að rita tímaritsgreinar um búnaðarsöguleg málefni. „Ég er mikill áhugamaður um byggða- og atvinnusögu,“ segir hann.

Þá hefur hann ritað fjölda bóka á ferlinum, m.a. Halldór á Hvanneyri 1986; ... og svo kom Ferguson 2009; Alltaf er Farmall fremstur 2011; Frá hestum til hestafla 2013; Íslenska sláttuhætti 2015; Íslenska heyskaparhætti 2018, Yrkja vildi eg jörð; og Konur breyttu búháttum 2016. Árið 2011 kom einnig út ritið Ungmennastarf um aldarskeið. Ungmennafélagið Íslendingur 1911-2011 sem Bjarni tók saman. Við starfslok hjá LBHÍ skilaði Bjarni sitt hvorri kennslubókinni, Heyverkun og Verkun og geymsla korns til Landbúnaðarháskóla Íslands. Nú í sumar gaf Bjarni út bókina Dagar við Dýrafjörð, minningabók með texta og teikningum.

Teiknað á umbúðir Tímans

Tónlistin hefur spilað stórt hlutverk í lífi Bjarna og hann hefur verið í kórum og hljómsveitum og gaf út diskinn Að sumarlagi, með eigin lögum við ljóð þekktra sveitaskálda árið 2006. „Ég hafði alltaf gaman af söng og svo byrjaði ég að gutla á gítar um það leyti sem Shadows voru að verða frægir.“ Bjarni kynntist Ásdísi, eiginkonu sinni, á öðru ári sínu á Hvanneyri. „Ástin kviknaði þegar ég var að spila á balli og hún hefur kannski fallið fyrir spilamennsku minni þar.“

Bjarni hefur fengist við alþýðumyndlist, einkum teikningu og ritskreytingar og hefur haldið sýningar bæði í Safnahúsinu í Borgarnesi og á Þingeyri. „Þegar ég var krakki kom Tíminn alltaf heim í umbúðum sem hægt var að teikna á svo þannig hófst þessi áhugi, og ég nýtti það mikið í kennslu því ein mynd getur sagt meira en þúsund orð.“

Bjarni segir að hann tilheyri hópi þeirra sem fækkar jafnt og þétt í og getur tengt saman gamla tímann og þann nýja. „Vélar og verkfæri breyta heiminum og í búskap fækkaði störfum vegna aukinnar framleiðni. Mig hefur alltaf langað til að varpa ljósi á hversu mikið heimurinn hefur breyst.“

Bjarni hlaut Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu 17. júní 2005; Starfsmerki UMFÍ 2011 og Borgfirsku menningarverðlaunin 2022 úr Minningarsjóði Guðmundar Böðvarssonar skálds og bónda frá Kirkjubóli og Ingibjargar Sigurðardóttur konu hans.

Fjölskylda

Eiginkona Bjarna er Ásdís B. Geirdal, áður fulltrúi hjá Hagþjónustu landbúnaðarins, f. 10.2.1944. Þau búa á Hvanneyri í Borgarfirði. Foreldrar Ásdísar voru hjónin Bragi S. Geirdal, f. 19.3. 1904, d. 5.10. 1967 og Helga Pálsdóttir f. 21.10. 1911, d. 22.8. 1988. Þau voru bændur á Kirkjubóli í Innri-Akraneshreppi.

Börn Bjarna og Ásdísar eru 1) Ásdís Helga, yfirverkefnastjóri fræðslumála hjá Austurbrú á Egilsstöðum, f. 2.2. 1969. Sonur hennar er Guðmundur Snorri Sigfússon, framendaforritari hjá Nova, f. 15.3. 1991. 2) Þórunn Edda, deildarfulltrúi á kennslusviði Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri, f. 15.1. 1973. 3) Sólrún Halla, deildarstjóri hjá Grunnskóla Borgarfjarðar, f. 27.6. 1978, gift Ísgeir Aroni Haukssyni, trésmið, f. 26.10. 1975. Börn þeirra eru: Telma Sól, starfar á dvalarheimilinu Brákarhlíð, f. 1.8. 2003; Aron Bjarni, menntaskólanemi, f. 16.7. 2006; og Heiðar Smári, grunnskólanemi, f. 30.5. 2010.

Systkini Bjarna eru: Gunnar, fóðurfræðingur og áður ráðunautur Búnaðarfélags Íslands, f. 13.4. 1948; Guðmundur Grétar, búfræðingur og bóndi á Múlá í Dýrafirði, f. 2.12. 1952; og Sigrún, búfræðingur og bóndi á Kirkjubóli í Dýrafirði, f. 23.12. 1956.

Foreldrar Bjarna voru hjónin Ásdís Bjarnadóttir, f. 30.1. 1916, d. 3.7. 2003, og Guðmundur Jónsson, f. 28.2. 1915, d. 1.11. 1978, bændur á Kirkjubóli í Dýrafirði.