Menning Með framtakinu er ætlað að efla aðgengi ungs fólks að menningu en verð leikhúsmiða er gjarnan hátt.
Menning Með framtakinu er ætlað að efla aðgengi ungs fólks að menningu en verð leikhúsmiða er gjarnan hátt. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mist Þ. Grönvold mist@mbl.is Frá og með þriðjudeginum 22. ágúst mun ungu fólki á aldrinum 15-25 ára standa til boða að nýta sér nýja áskriftarleið Þjóðleikhússins sem miðar að því að efla aðgengi ungs fólks að leiklist hér á landi. Áskriftarleiðin veitir aðgang að öllum sýningum leikhússins á leikárinu, eins oft og hver vill, á mun lægra verði en áður hefur þekkst í leikhúsum hérlendis, eða 1.450 krónur á mánuði.

Mist Þ. Grönvold

mist@mbl.is

Frá og með þriðjudeginum 22. ágúst mun ungu fólki á aldrinum 15-25 ára standa til boða að nýta sér nýja áskriftarleið Þjóðleikhússins sem miðar að því að efla aðgengi ungs fólks að leiklist hér á landi. Áskriftarleiðin veitir aðgang að öllum sýningum leikhússins á leikárinu, eins oft og hver vill, á mun lægra verði en áður hefur þekkst í leikhúsum hérlendis, eða 1.450 krónur á mánuði.

Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri segir nýju áskriftarleiðina vera byltingarkennda leið til þess að opna leikhúsið enn frekar fyrir ungu fólki, sem oft eigi erfitt með kostnaðinn sem fylgi því að sækja leiksýningar.

Vill lækka verðþröskuldinn

„Það hefur auðvitað verið þannig á Íslandi eins og í öllum löndum að það er erfitt fyrir menningarstofnanir að ná til ungs fólks,“ segir Magnús Geir. „Það eru margar ástæður fyrir því en aðalástæðan er verðþröskuldurinn. Það er dýrt að fara í leikhús og á tónleika og þetta er aldurshópur sem er oft með minna fé á milli handanna.“

Hann segir að fram undan sé metnaðarfullt og flott leikár og tekur fram að stjórnendur Þjóðleikhússins leggi mikið upp úr að velja verk sem höfði til sem flestra, ekki síst ungs fólks, því til sé stór hópur leikhúsunnenda sem hingað til hafi reynst erfitt að sækja leikhús reglulega. „Ég veit að það er hópur sem hefur rosalegan áhuga á leikhúsi en hefur ekki getað notið þess jafnmikið og hann vildi,“ segir Magnús Geir. „Nú er komin sérsniðin lausn á viðráðanlegu verði fyrir þau þannig að ég er mjög bjartsýnn á að þetta leiði til þess að mörgum, sem lengi hefur langað í leikhús, sé loksins fært að láta verða af því að verða reglulegir leikhúsgestir.“

Magnús Geir segir mikilvægt að ungu fólki sé gert kleift að sækja sýningar Þjóðleikhússins þar sem leikhúsið sé sameign þjóðarinnar sem allir ættu að geta notið góðs af.

Sameign þjóðarinnar

„Þjóðleikhúsið er eign allrar þjóðarinnar, þar á meðal ungs fólks. Þjóðin ákvað fyrir sjötíu og fimm árum að reka hér þjóðleikhús og styðja við það og þá þurfum við auðvitað að reyna að mæta öllum þeim þörfum sem eru í samfélaginu. Við fáum stóran hluta þjóðarinnar í leikhús, en þarna er ákveðinn hópur sem á erfitt með að mæta vegna þess að kostnaðurinn er mikill og erum við að reyna að mæta honum með þessum hætti,“ segir Magnús Geir.

„Á sama tíma erum við líka að horfa á aðra hópa sem ekki hafa haft gott aðgengi að húsinu, til dæmis þá sem tala ekki íslensku og erum við að byrja að texta leiksýningar á ensku í vetur líka. Við erum að reyna allt sem við getum til þess að standa undir nafni sem alvöru þjóðleikhús og leikhús í eigu
þjóðarinnar,“ segir Magnús Geir loks og kveðst hlakka til að sjá hvaða viðtökur nýja áskriftarleiðin komi til með að fá.

Höf.: Mist Þ. Grönvold