Lausaganga Kindur koma víða að til Stöðvarfjarðar og valda ama.
Lausaganga Kindur koma víða að til Stöðvarfjarðar og valda ama. — Ljósmynd/Ívar Ingimarsson
Bæjarráð Fjarðabyggðar telur að mikil óvissa sé í tengslum við túlkun laga um búfjárhald og laga um afréttarmálefni og fjallskil. Þetta kemur fram í bókun ráðsins en tilefnið er ósk landeiganda Óseyrar í Stöðvarfirði um að bæjarfélagið sjái um…

Hörður Vilberg

hordur@mbl.is

Bæjarráð Fjarðabyggðar telur að mikil óvissa sé í tengslum við túlkun laga um búfjárhald og laga um afréttarmálefni og fjallskil. Þetta kemur fram í bókun ráðsins en tilefnið er ósk landeiganda Óseyrar í Stöðvarfirði um að bæjarfélagið sjái um smölun ágangsfjár í landi jarðarinnar sem hefur valdið eigandanum truflun, eins og fram hefur komið í umfjöllun Morgunblaðsins.

Ekki sé til staðar leiðbeinandi álit um þau álitaefni sem eru uppi m.a. um framkvæmd afgreiðslu beiðna um smölun ágangsfjár, hvað teljist verulegur ágangur búfjár og hvenær sveitarfélagi beri að bregðast við honum, réttindi og skyldur fjár- og landeigenda til að afstýra óæskilegum ágangi og inngripi sveitarfélags eða lögreglustjóra.

Fjallskilanefnd segir í áliti sínu til bæjarráðs að sveitarfélaginu beri ekki að verða við kröfu landeiganda um smölun, sem hefur sent stjórnsýslukæru til innviðaráðuneytisins og hyggst sækja skaðabætur vegna tjóns, m.a. vegna skógræktar.

Málið er flókið en fjallskilanefndin telur að sterkar líkur séu á því að fé sem leggur leið sína um land Óseyrar komi frá Breiðdal en jafnframt hafi fé komið í Stöðvarfjörð frá Héraði og Fáskrúðsfirði. Bæjarráðið hefur frestað afgreiðslu málsins og bíður niðurstöðu ráðuneytisins. hordur@mbl.is