— Ljósmynd/Chris Riley
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sólveig átti þann draum í æsku að verða leikkona rétt eins og vinkonurnar. „Ég man hvað ég varð hissa þegar þær urðu viðskiptafræðingar og líffræðingar,“ segir Sólveig og segir í gríni að leikarar fullorðnist ekki alveg

Sólveig átti þann draum í æsku að verða leikkona rétt eins og vinkonurnar. „Ég man hvað ég varð hissa þegar þær urðu viðskiptafræðingar og líffræðingar,“ segir Sólveig og segir í gríni að leikarar fullorðnist ekki alveg. Ásamt frumsömdum leikritum skipuðu teikningar og skrif stóran sess þegar hún var að alast upp.

„Í áttunda bekk missti ég trúna tímabundið á því að ég gæti skrifað. Kennari gaf mér lélega umsögn fyrir sögu sem ég hafði trúað að væri mitt allra besta verk. Ég varð svo ringluð og hélt ég hefði bara enga tilfinningu fyrir skrifum fyrst mér fannst verkið gott en honum fannst það svona lélegt. Það var ekki fyrr en í covid sem ég skellti mér í námskeið í skapandi skrifum hjá Stanford og UCLAx og fór að trúa að ég gæti bara víst skrifað. En svona geta orð á viðkvæmum aldri haft mikil áhrif, bæði til góðs og ills.“

Fjölhæfnin hjálpar

Átján ára gömul fór Sólveig á vit ævintýranna til Bretlands. „Ég var svo hrifin af leikhús- og þáttagerð Breta, svo ég vissi ég vildi læra þar. Fyrsta prufan sem ég fór í bauð upp á nám sem blandaði listrænni sköpun við leiklist, European Theatre Arts í Rose Bruford. Ég hætti þá við allar hinar prufurnar mínar því mér fannst námið hljóma svo ofboðslega skapandi og samsvarandi mér sem persónu. Með því að spara flugkostnað í hinar prufurnar hafði ég einnig efni á sumarnámskeiði í LAMDA í líkamlegu leikhúsi – sem mér fannst hljóma svo ofboðslega ógnvænlegt og því vissulega þess virði að prófa,“ segir Sólveig sem flutti seinna til New York þegar fyrrverandi maður hennar, leikarinn Gísli Karl Melberg, komst inn í leiklistarskóla í Bandaríkjunum. Þau sóttu um græna kortið, unnu og skelltu sér út.

„Ég elska hvað það er rík vináttumenning í New York, enda eru margir langt frá fjölskyldum sínum. Ég bý í Greenpoint í Brooklyn þar sem mikið er af fallegum görðum, námskeiðum og mikil gróska. Hins vegar er dýrt að búa þar og pólitíkin er stundum fráhrindandi,“ segir Sólveig og viðurkennir að líf listamannsins sé ekki alltaf dans á rósum í stórborginni. Til að setja upp leiksýningu þarf samstarf við aðra listamenn, fjármagn og áhorfendur. „Ég held að það hafi bjargað mér að vera með aðra listgrein líka, því ég get alltaf teiknað, skrifað og skapað eigin tækifæri.“

Hvaða þýðingu hafa teikningarnar og sögugerðin í þínu lífi?

„Mér finnst ofboðslega gaman að skrifa sögur sem tala til innra barns míns og vonandi einnig áhorfandans. Mér finnst gott og gefandi að skoða sárar og erfiðar tilfinningar í gegnum persónur sem ég vil vernda og hjúkra. Mér finnst nærandi að sjá aðra skilja þessar persónur, eða hlæja að vandræðum þeirra, því það minnir mig á það hversu mannlegt það er að glíma við vandamál, mistök, tilfinningar og erfiði. Svo finnst mér bara ofboðslega gaman að skoða lítil augnablik í mikilli nærmynd og með húmor,“ segir Sólveig. Sögurnar hennar voru þrisvar sinnum gefnar út í The Washington Post í fyrra, og Sólveig var valin ein af níu listamönnum í fyrsta myndasögutímariti þeirra Drawn In. Sólveig hefur einnig gert vegglistaverk fyrir hótel og verslanir, Starbucks, Procter & Gamble og Matís svo eitthvað sé nefnt. Grafíska skáldsagan Geimgrísamamma er tilbúin og með hjálp umboðsmanns í Bandaríkjunum vonast hún til þess að landa frábærum útgefanda.

Opnar sjálf dyrnar

Leikarar þurfa oftar en ekki að glíma við höfnun. „Ég get misst trúna á sjálfri mér sem leikkona þegar ég bóka ekki einu sinni „hjúkka #3“ eða „söludama“ með eina línu. Ég hef grátið mikið eftir hafnanir, syrgt úrræðaleysi og upplifað sjálfa mig sem agnarsmáa. En það er í þessum pirringi sem ég hef alltaf skapað eitthvert óvænt listrænt verk, sem er gefandi og samkvæmt sjálfri mér,“ segir Sólveig sem rekur einnig leikhópinn Spindrift með öðrum kröftugum listakonum sem veitir henni mikinn innblástur.

Það eru ekki öll hlutverk spennandi og hefur Sólveig afþakkað prufur þar sem lítið er gert úr konum. „Ég er ofboðslega leið á því að fá áheyrnarprufur sem ég kalla nakta lampann. Þ.e. hlutverk þar sem konan hefur enga baksögu eða örk, heldur er bara til staðar til að beina ljósi að karlmennsku aðalhetjunnar. Mér finnst líka leiðinlegt að bóka leiklistarverkefni þar sem mér finnst ég bara vera í fyrirsætuverkefni,“ segir hún en bætir við að fyrirsætuverkefni geti auðvitað verið skemmtileg þegar fólk kýs þau.

Sólveig var á fljúgandi siglingu fyrstu árin eftir útskrift. Leikhópurinn hennar Spindrift fékk stóran styrk frá Evrópusambandinu til að setja upp sýningu í Tjarnarbíói og kenndi námskeið við virta skóla í Evrópu í tvö ár. „Strax á fyrsta árinu mínu í New York bókaði ég líka aðalhlutverk í sjónvarpsþætti með frægum leikurum sem gaf mér stærri umboðsmann, ýmis gestahlutverk og nokkrar flottar prufur. Ég vonaði að nú væri allt á uppleið fyrst það hefði byrjað svona vel. Svo fannst mér allt kulna, bransinn dó að mestu leyti í þrjú ár í covid, og síðan þá hefur mér fundist ég vera týnd, gleymd og að krafsa í læstar hurðir.“

Sólveig vildi fá fleiri prufur til að reikningsdæmið gengi upp. „Ég fór því á fund til umboðsmanns hér í Bandaríkjunum í byrjun árs, sem ég nefni ekki á nafn, til að reyna að finna út úr einhverjum leiðum. Ég hugsaði að við gætum hitt einhverja framleiðendur á fundum, sent markaðsefni á „casting“-skrifstofur, tekið ákveðna kúrsa eða fengið nýjar ljósmyndir. Sá umboðsmaður líkti mér þá við leikkonu sem er fræg í dag og Bandaríkjamönnum finnst ég ofboðslega lík. Mér finnst ekkert gaman að vera líkt við hana því hún braust inn í senuna með stóru nektarhlutverki og er nú ber í flestum hlutverkum sem hún fær. Hann sagði: „Sú var aðstoðarkona hjá okkur þegar hún var að byrja, og eins og þú, stundum voru margar prufur, stundum engin, og oft ekkert bitastæð hlutverk. En maður sá strax í þá daga, þegar hún beygði sig yfir skúffurnar, að hún hafði eitthvað.“

Ég stóð og gapti. Hér var ég mætt til að kvarta yfir því að vera endalaust kyngerð í prufum, og hann reynir að hughreysta mig með því að kyngera mig, því það kynni að opna dyr á endanum. Þetta minnti mig á að ég stæði ein og þyrfti sjálf að finna nýjar dyr til að opna,“ segir Sólveig, sem ákvað að fara í nám. Námsleiðin MA í Theatre labs í Royal Academy of Dramatic Arts varð fyrir valinu. Næsta vetur vonast hún því til að efla sig og bæta tengslanetið.

Hægt að feta ótal fallega vegi

„Maðurinn minn, John Gionis, lærði lögfræði áður en hann stökk yfir í leiklist, og hefur því mun meiri sparnað og öruggari grunn til að byggja á en ég. Einnig er nóg af lögfræði- og öðrum „white collar“-hlutverkum fyrir leikara sem hann hefur brillerað í, og því er þetta góð áminning um að ólíkur bakgrunnur og reynsluheimur myndar dýrlegar uppskriftir í bæði listinni og lífinu. Það er engin ein leið rétt. Mér sjálfri lá svo á að hefjast handa. Ég held líka að þessi ósanna klisja, að konur þurfi að vera yngri í þessum bransa, hafi hrætt mig svo mikið að mér fannst ég þurfa að hlaupa af stað.

Leiklist er gríðarlega mikil ólaunuð vinna. Ein áheyrnarprufa getur tekið tvo til þrjá vinnudaga í undirbúningi og upptökum. Þátttaka í bransanum er líka dýr, með námskeiðum, kennurum, ljósmyndum og ferilskrám á ýmsum casting-síðum. Fyrir gríðarstórar áheyrnarprufur er algengt að umboðsmaðurinn mæli með þjálfara en slíkir þjálfarar geta kostað 35.000-95.000 krónur fyrir eina prufu.“

Með árunum hefur Sólveig lært að fylgja hjartanu þótt annað virðist stundum praktískara. „Þegar mér finnst ég stöðnuð hef ég stundum hugsað hvort ég hefði átt að velja aðra leið, aðra braut, annað nám o.s.frv. Ég fæ auðveldlega minnimáttarkennd og kvíða þegar mér finnst ég ekki bókuð í nógu marga hluti, eða hef ógnvænlega lága inneign á bankabókinni. En tækifæri og reikningar sveiflast endalaust, og það eru þúsund fallegir vegir sem maður hefði getað valið. Ég held að það mikilvægasta í þessu lífi sé að binda ekki sjálfsvirðinguna við utanaðkomandi hluti heldur lifa samkvæmt sínum gildum og gleði, með fólkinu sem manni þykir vænt um. Svo getur maður alltaf prófað eitthvað nýtt,“ segir Sólveig sem hefur nóg að gera. Fyrir utan nýja námið er hún að myndskreyta íslenska barnabók eftir Hugrúnu Margréti Óladóttur, undirbúa leiksýningu með leikhópnum sínum og skipuleggja dansstuttmynd sem tekin verður upp í Reykjavík í vetur.