Ingibjörg Guðmundsdóttir fæddist í Ámundakoti í Fljótshlíð 9. október 1941. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 6. ágúst 2023.

Foreldrar hennar voru Guðmundur Guðmundsson, f. 28. júní 1900, d. 9. febrúar 1972, og Guðrún Halldóra Nikulásdóttir, f. 26. júní 1901, d. 9. nóvember 1981. Systkini hennar eru Nikulás, f. 3. ágúst 1929, kvæntur Sigrúnu Jóhannsdóttur; Árni, f. 2. febrúar 1932, d. 11. janúar 2008; og Þórir, f. 1. október 1936, d. 22. júlí 2004.

Ingibjörg flutti með foreldrum sínum og bræðrum að Múlakoti í Fljótshlíð þegar hún var á fyrsta ári. Ingibjörg lauk barnaskólaprófi og sextán ára gömul fluttist hún á Selfoss og fór að vinna í Tryggvaskála. Veturinn 1957- 58 gekk Ingibjörg í Húsmæðraskólann á Laugarvatni. Ingibjörg vann alla sína starfsæfi við verslunarstörf, hjá Siggabúð á Selfossi og hjá Kaupfélagi Árnesinga, þar sem hún m.a. stýrði bókabúðinni um langt skeið, og síðast í Nóatúni.

Ingibjörg giftist Sigurði Símoni Sigurðssyni verslunarmanni hinn 18. apríl 1965. Þau áttu eina dóttur, Guðrúnu Halldóru, f. 1964, framhaldsskólakennara, og eina dótturdóttur, Laufeyju Soffíu Þórsdóttur tónlistarkonu, f. 1994. Ingibjörg og Sigurður Símon hófu búskap á Kirkjuvegi 5 en byggðu árið 1968 hús í Fossheiðinni á Selfossi og bjuggu þar síðan. Foreldrar Ingibjargar bjuggu í Múlakoti í Fljótshlíð og lá leiðin oft þangað í fríum. Frá 1993 ræktuðu þau Ingibjörg og Sigurður skóg á landspildu úr Múlakotsjörðinni og eyddu þar mestu af sínum frítíma meðan heilsan leyfði.

Útför Ingibjargar fer fram frá Selfosskirkju í dag, 18. ágúst 2023, og hefst athöfnin kl. 14.

Elsku mamma mín er farin héðan úr okkar jarðneska lífi. Hún vissi í hvað stefndi og við ræddum í léttum dúr um mögulegt framhaldslíf. Hún taldi nú ekki miklar líkur á að hún fengi að slaka á í „sumarlandinu“. „Ætli maður verði ekki settur í einhver verkefni.“ Þannig var mamma, alltaf í einhverju stússi. Alltaf að vinna og alltaf fyrir aðra. Hún var aldrei kyrr, svolítið eins og býfluga, settist niður og rauk strax upp aftur til að ná í eitthvað sem einhvern gæti vantað. Hún vann alla tíð við þjónustustörf og þegar heim kom hélt hún áfram að hugsa fyrst og fremst um aðra.

Ingibjörg fæddist í Ámundakoti í Fljótshlíð en ólst upp í Múlakoti til 16 ára aldurs. Fyrsta vinnan hennar var að þjóna til borðs í Tryggvaskála á Selfossi. Þar var fjörugt og náið samfélag fólks sem var að byggja upp bæinn við ána á fyrstu áratugunum eftir seinna stríð. Hún talaði alltaf hlýlega um fólkið „í skálanum“ og rifjaði reglulega upp atvik frá þessum tíma. Á Selfossi kynntist mamma svo Sigurði Símoni, pabba, og hófu þau búskap á Kirkjuvegi 5. Árið 1968 fluttu þau inn í nýbyggt hús í Fossheiðinni, sem þá var í útjaðri bæjarins. Í þá daga réðst ungt fólk í láglaunastörfum í húsbyggingar og gerði flest sjálft með aðstoð vina og ættingja.

Þó skólaganga móður minnar væri fjögurra ára barnaskólanám, annan hvorn dag í nokkra mánuði yfir vetrartímann, þá var hún ágætlega sjálfmenntuð og fróðleiksfús. Hún fékk tölvu í fimmtugsafmælisgjöf árið 1991 og námskeið fylgdi með. Eftir það var hún ævinlega með á nótunum í tölvumálum og naut þess að fylgjast með á samfélagsmiðlum. Mamma lærði líka á hljóðfæri. Sem unglingur lærði hún á fótstigið orgel sem til var á heimilinu í Múlakoti en upp úr 1980 fékk hún sér rafmagnsorgel og lærði á það. Hún var dugleg við alls kyns prjónaskap og þau pabbi ræktuðu fallegan garð við húsið. Mikill tími og orka fór líka í annað og verra sem var glíman hans pabba við Bakkus. Mamma stóð alla tíð með honum í þeirri baráttu sem oft var hörð.

Mamma eignaðist eitt barnabarn, sem er Laufey dóttir mín. Við dvöldum hjá foreldrum mínum á Selfossi fyrstu árin og hún átti alltaf vísan stað hjá þeim þar sem var dekrað við hana eins og vera ber. Reyndist hún þeim mikill gleðigjafi.

Það verða viðbrigði að geta ekki hringt í mömmu eða rennt austur til hennar og rætt um landsins gagn og nauðsynjar. Mamma var skörp og skemmtileg og fylgdist vel með þjóðmálum. Ég held að hún hafi alltaf upplifað sig unga og treysti sér í ótrúlegustu framkvæmdir. Það er stutt síðan hún hikaði ekki við að fara upp á þak til að kanna ástandið á bílskúrnum. Síðustu tvö árin réðst hún í miklar viðhaldsframkvæmdir við húsið enda vafðist ekki fyrir henni að slá á þráðinn til rétta fólksins og mikið var hún ánægð með þetta allt saman. Eitthvað grunar mig að hún hafi verið að hugsa um að skilja við allt í besta standi fyrir okkur yngri mæðgurnar sem nú erum bara tvær eftir. Ég hafði tekið eftir að heilsu mömmu var tekið að hraka í vetur en ekki grunaði okkur að ástæðan væri óhræsis krabbinn sem lagði hana að velli á einungis þremur vikum.

Ég kveð mömmu full þakklætis fyrir árin öll.

Meira á: www.mbl.is/andlat

Guðrún Halldóra
Sigurðardóttir.