Þúsaldarkreddur

Haustið 2009 ákvað Svandís Svavarsdóttir, þá umhverfisráðherra, að sækja ekki um frekari undanþágur frá Kyoto-bókuninni. Hún færði ekki önnur rök fyrir því en að Íslendingar ættu að axla engu minni byrðar en aðrir í loftslagsmálum.

Svipað horfir varðandi álögur á skipaflotann í þágu loftslagsmála, en Þórdís K. R. Gylfadóttir utanríkisráðherra ætlar nú ekki að sækjast eftir neinum undanþágum (öfugt við flugið). Aftur án annarra raka en að Íslendingar eigi ekki að sleppa betur en aðrir. Hér séu engar aðstæður eða ástæður til annars.

Það er þó bersýnilega ekki rétt: Ísland er fámenn eyja, á jaðarsvæði fjarri meginlandinu og með litla aðra samgöngukosti. Eins og alltaf er litið hjá því að Íslendingar hafi fyrir löngu náð meiri loftslagsmarkmiðum en flest önnur ríki.

Ekki verður annað séð en að stjórnvöld vilji beinlínis færa fórnir í loftslagsmálum, óháð rökum, nytsemi eða sanngirni, nánast eins og af trúarsannfæringu.

Íslensk stjórnvöld eru ekki ein um slíka fórnfýsi, sunnan úr Evrópu berast fregnir um stórkostlegustu dýrafórnir mannkynssögunnar, þar sem milljónum búfénaðar skal fórnað í nafni loftslagsbótar. Er ávinningurinn þó hæpinn í hnattrænu samhengi.

Stjórnmálamenn – þar sem hér – mættu þó minnast þess að fórnfýsi er engin dyggð ef aðrir eiga að færa fórnirnar.