[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rúnar Alex Rúnarsson, landsliðsmarkvörður Íslands í knattspyrnu og leikmaður Arsenal á Englandi, er að ganga til liðs við enska B-deildarfélagið Cardiff á láni. Það er Football London sem greinir frá en markvörðurinn gekk til liðs við Arsenal…

Rúnar Alex Rúnarsson, landsliðsmarkvörður Íslands í knattspyrnu og leikmaður Arsenal á Englandi, er að ganga til liðs við enska B-deildarfélagið Cardiff á láni. Það er Football London sem greinir frá en markvörðurinn gekk til liðs við Arsenal sumarið 2020 frá Dijon í Frakklandi en hefur fengið fá tækifæri með úrvalsdeildarfélaginu. Hann lék með OH Leuven í Belgíu á láni tímabilið 2021-22 og Alanyaspor í Tyrklandi á láni á síðustu leiktíð. Alls á hann að baki 24 A-landsleiki.

Vlatko Andonovski hefur sagt upp sem þjálfari bandaríska kvennalandsliðsins í knattspyrnu eftir að liðið féll úr leik í 16-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi á dögunum. Bandaríkin áttu titil að verja á mótinu en liðið fagnaði sigri á bæði HM 2015 í Kanada og HM 2019 í Frakklandi. Liðið hefur fjórum sinnum orðið heimsmeistari, oftast allra, en bandaríska liðið vann aðeins einn leik í riðlakeppninni á mótinu og hefur aldrei fengið jafn fá stig í riðlakeppni HM.

Forráðamenn danska knattspyrnufélagsins Köbenhavn hafa ákveðið að setja á laggirnar kvennalið þar sem evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, hefur skyldað öll félög sem taka þátt í Evrópukeppnum til að vera með kvennalið, frá og með næsta keppnistímabili. Köbenhavn er stórveldi í dönskum fótbolta en liðið hefur 15 sinnum orðið Danmerkurmeistari. Orri Steinn Óskarsson er samningsbundinn danska félaginu.

Japanski knattspyrnumaðurinn Wataru Endo er að ganga til liðs við enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool. Það er The Athletic sem greinir frá þessu en Endo hefur leikið með Stuttgart í þýsku 1. deildinni frá árinu 2020 og var hann fyrirliði liðsins á síðustu leiktíð. Stuttgart hefur samþykkt 16,2 milljóna punda tilboð Liverpool í miðjumanninn en alls á hann að baki 50 A-landsleiki fyrir Japan. Hann er 30 ára gamall.

Knattspyrnumaðurinn Erling Haaland, framherji Englandsmeistara Manchester City, er tilnefndur sem leikmaður ársins af samtökum atvinnumanna á Englandi fyrir tímabilið 2022-23. Haaland, sem er 23 ára gamall, átti frábært tímabil með City á síðustu leiktíð þegar liðið varð Englands-, Evrópu- og bikarmeistari. Alls skoraði hann 52 mörk á sínu fyrsta tímabili í Manchester. Þá eru þeir Kevin De Bruyne og John Stones, samherjar Haalands hjá City, einnig tilnefndir sem og Bukayo Saka og Martin Ödegaard leikmenn Arsenal og Harry Kane fyrrverandi framherji Tottenham og núverandi leikmaður Bayern München.

Reece James, fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Chelsea, gæti verið frá í einhverjar vikur eftir að hafa tognað aftan í læri í leik Chelsea og Liverpool á Stamford Bridge í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar um síðustu helgi. James var gerður að fyrirliða Chelsea fyrir tímabilið en hann er uppalinn hjá félaginu.