Reynslumikill Júlíus hefur starfað lengi í ýmsum deildum lögreglu.
Reynslumikill Júlíus hefur starfað lengi í ýmsum deildum lögreglu. — Morgunblaðið/Eggert
Brátt verður hægt að gægjast inn í reynsluheim lögreglumanna en Júlíus Einarsson þjóðfræðingur vinnur nú að því að safna frásögnum íslenskra lögreglumanna af starfinu, ásamt lýsingum þeirra á upplifun og reynslu sinni af störfum sínum

Elísa A. Eyvindsdóttir

elisa@mbl.is

Brátt verður hægt að gægjast inn í reynsluheim lögreglumanna en Júlíus Einarsson þjóðfræðingur vinnur nú að því að safna frásögnum íslenskra lögreglumanna af starfinu, ásamt lýsingum þeirra á upplifun og reynslu sinni af störfum sínum.

Júlíus segir í viðtali við Morgunblaðið að hugmyndin hafi kviknað þegar hann las bókina Cops eftir Mark Baker á sínum tíma, sem byggð er á viðtölum við fjölda bandarískra lögreglumanna. „Hún veitti góða innsýn í reynsluheim almennra lögreglumanna og mér fannst vera mikill samhljómur með starfi lögreglumanna þar og hér, auk þess sem verkefni og upplifanir væru svipaðar í flestu tilliti,“ segir Júlíus og bætir við að hann hafi strax einsett sér að taka saman og fá gefið út eitthvað svipað, þar sem byggt væri á reynslu íslenskra lögreglumanna.

Verkefni lengi í bígerð

„Það er langt síðan ég byrjaði að skrifa niður einstakar frásagnir lögreglumanna í þessu skyni. Nú fyrst er ég farinn að gera það skipulega með það fyrir augum að gefa út á bók. Ég kynnti þetta fyrir Guðjóni hjá bókaútgáfunni Hólum sem tók strax vel í hugmyndina og féllst á að annast útgáfuna en hún er fyrirhuguð haustið 2024,“ segir Júlíus en hann hyggst safna frásögnum 30 til 50 lögreglumanna af báðum kynjum, öllum aldri, með fjölbreyttan bakgrunn og starfsreynslu af sem flestum sviðum löggæslu í því skyni að ná fram fjölbreytni.

Þá greinir hann frá því að hann vonist til þess að bókin komi til með að veita innsýn í störf lögreglustéttarinnar. „Það kemur stundum fyrir að manni þykir gæta misskilnings meðal almennings og jafnvel þeirra sem fjalla um málefni lögreglu opinberlega, um hlutverk, heimildir og starfsaðferðir lögreglu. Mér finnst mikilvægt að gefa þessa innsýn til þess að auka skilning og eyða misskilningi,“ segir hann og bætir við að einstaklingur hafi haft samband við hann í tengslum við verkefnið og sagðist vona að bók af þessu tagi yrði til þess að eyða fordómum í garð lögreglu.

Ekki allir alltaf sáttir

Þá tekur hann fram að það megi vel vera og hann voni að það reynist rétt. „Þó held ég að fordómar gagnvart íslenskri lögreglu séu ekki mjög almennir þó svo að stundum verði vart við andúð sem sett er fram með hávaða og glamri. Eðli málsins samkvæmt verða ekki allir alltaf sáttir við lögreglu en ég bendi á að hún nýtur alltaf einna mests trausts almennings af öllum stofnunum sem spurt er um í reglulegum skoðanakönnunum undanfarin ár,“ segir Júlíus.

Söfnun hefur verið hleypt af stokkum til þess að fjármagna bókarskrifin og hægt er að styðja verkefnið á vef Karolina Fund.