Turn minninganna Óperan Torre da Memória var frumsýnd í bæjarslippnum sem var umbreytt í óperuhús.
Turn minninganna Óperan Torre da Memória var frumsýnd í bæjarslippnum sem var umbreytt í óperuhús. — Ljósmynd/Pedro Sardinah
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ívar Sverrisson leikari og leikstjóri er nýkominn heim til Oslóar þar sem hann býr og starfar eftir 3.500 km langt ferðalag á mótorhjóli frá hafnarbænum Esposende sem stendur norður af borginni Porto í Portúgal

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

Ívar Sverrisson leikari og leikstjóri er nýkominn heim til Oslóar þar sem hann býr og starfar eftir 3.500 km langt ferðalag á mótorhjóli frá hafnarbænum Esposende sem stendur norður af borginni Porto í Portúgal. Ferðin tók átta daga og jafn marga suður á bóginn en þangað fór hann á stálfáknum til að leikstýra óperunni Torre da Memória eða Turni minninganna, á listahátíð bæjarins.

„Þetta er ný ópera sem við frumsýndum fyrir um viku. Nýtt handrit og tónlist sérstaklega samið fyrir þessa listahátíð,“ segir Ívar hinn hressasti þegar Morgunblaðið náði tali af honum.

„Sögusviðið er í víðasta skilningi þess hugtaks fiskiþorpið og útgerðarmenning Portúgala á þessum slóðum en sjálf sagan er byggð á sönnum atburðum sem gerðust í Esposende. Fiskveiðar eru Portugölum í blóð bornar og órjúfanlegur hluti lífs og tilveru íbúanna. Þjóðin hefur í árhundruð þurft að stóla á það sem hafið gefur og sætta sig við það sem það tekur. Að því leyti eigum við margt sameiginlegt með Portúgölum og ég fann að það hjálpaði mér heilmikið til að tengjast sögunni sterkari böndum og skilja kúltúrinn.“

Hvernig kom það til að þú varst fenginn til að leikstýra verkinu?

„Þau voru að leita að leikstjóra sem var með reynslu af fýsísku leikhúsi, jafnvel dansleikhúsi, sem gæti hjálpað þeim að gera tilraunir á óperuforminu og það er oft þannig í þessum bransa að maður þekkir mann og orðspor mitt sem dansleikhúshöfundur barst til þeirra með krókaleiðum. Í leikhúsinu reiðum við okkur á tilviljanir.“

Ívar segist himinlifandi með hvernig til tókst á endanum en æfingaferlið stóð í aðeins fjórar vikur.

„Þetta var „site specific“ eins og það kallast á listamáli því við breyttum slippnum í bænum í óperuhús og sýndum þar. Við vorum með fimmtán manna kór og sex hljóðfæraleikara og svo gerði ég tilraun með að blanda hljómsveitarstjóranum inn í sýninguna, sem er óheðfbundið. Hann var í búningi og með tiltekið hlutverk og það tókst mjög vel til. Svo komu miklu fleiri en við áttum von á. Stappfullt.“

En hvernig gekk svo ferðalagið sjálft?

„Þetta var fyrsta langa mótorhjólaferðin sem ég hef farið. Hefur verið draumur lengi þannig að ég ákvað að slá tvær flugur í einu höggi og keyra í vinnunni. Reddaði pössun fyrir hundinn, pakkaði saman tveimur dögum fyrir og skellti mér af stað. Þetta var miklu erfiðara en ég hélt líkamlega en tók ekki síður á andlega þegar hlutirnir gengu ekki upp. Veskið flaug til dæmis úr vasanum á miðri hraðbraut í Frakklandi og þá nótt neyddist ég til að sofa í hengirúmi á bensínstöð með tvær evrur í vasanum. Svo rann ég eiginlega út á tíma. Var staddur í Bilbao á Spáni og sá þykk rigingarský safnast saman í fjöllunum sem ég þurfti að aka yfir til að komast niður til Portúgal og þá voru góð ráð dýr. Úr varð að ég skildi hjólið eftir á hóteli og flaug yfir fjöllin til Porto og gat mætt á réttum tíma.“