Helen Hannesdóttir fæddist 28. apríl 1934 á Húsavík. Hún lést á HSN, Sjúkrahúsinu á Húsavík, 8. ágúst 2023.

Hún var dóttir Hannesar Jakobssonar, f. 2. sept. 1899, d. 14. jan. 1962, og Hansínu Karlsdóttur, f. 27. mars 1904, d. 26. maí 1977. Bróðir Helenar var Karl Hannes Hannesson, f. 25. feb. 1930, d. 26. jan. 2018. Hann var giftur Herdísi Þuríði Arnórsdóttur, f. 27. nóv. 1929.

Þann 25. júní 1955 giftist Helen Ólafi Erlendssyni, f. 24. apríl 1926, d. 17. okt. 2005. Fyrstu sjö búskaparárin bjuggu þau í Reykjavík. Þau fluttust til Húsavíkur 1962 og bjuggu þar síðan. Helen starfaði lengst af sem bókavörður í bókasafni Suður-Þingeyinga ásamt því að hafa umsjón með bókasafninu á Sjúkrahúsinu á Húsavík og bókasafni Hvamms, dvalarheimilis aldraðra á Húsavík. Helen var listfeng og mikil hannyrðakona og eiga afkomendur marga muni eftir hana.

Kjördætur Helenar og Ólafs eru: 1) Hildigunnur Ólafsdóttir, f. 27. júlí 1962, sambýlismaður er Freddy Kristiansen, f. 1. júlí 1953. Dætur Hildigunnar með fyrrverandi eiginmanni, Auðuni Þorsteinssyni, f. 27. okt. 1960, eru a) Helen A. Axfjord, f. 10. maí 1983. Börn hennar eru; Sara Axfjord, f. 10. ágúst 2005, og Sebastian Vårvik, f. 30. júlí 2007. b) Emma Auðunsdóttir, f. 3. nóv. 1987. 2) Elín Ólafsdóttir, f. 18. ágúst 1969. Gift Hjálmari Skarphéðinssyni, f. 8. okt. 1969. Börn þeirra eru: a) Dagur Hjálmarsson, f. 8. feb. 1996. Sambýliskona hans er Vala Rún Stefánsdóttir, f. 24. mars 1999. b) Eva Hjálmarsdóttir, f. 17. júní 2003, og c) Orri Hjálmarsson, f. 18. ágúst 2006. 3) Stjúpdóttir Helenar er Stefanía Ólafsdóttir, f. 29. mars 1950, maki Bjarni Andrésson, f. 8. des. 1949. Börn þeirra eru: a) Valgerður Sif Bjarnadóttir, f. 27. nóv. 1970, gift Njål Bakka, f. 18. okt. 1971. Þau eiga tvær dætur: Freydísi, f. 25. mars 2005, og Eyvöru, f. 27. maí 2008. b) Ólafur Örn Bjarnason, f. 15. maí 1975, giftur Kolbrúnu Lind Sævarsdóttur, f. 11. mars 1976, sonur þeirra er Bjarni Þór Ólafsson, f. 11. júlí 1992. Sambýliskona hans er Maren Duus, f. 13. mars 1995, c) Guðmundur Andri Bjarnason, f. 8. ágúst 1981, giftur Rannveigu Jónínu Guðmundsdóttur, f. 23. ágúst 1984. Synir þeirra eru Friðrik Franz, f. 22. nóv. 2006, og Stefán Logi, f. 27. jan. 2011.

Útför hennar fer fram í Húsavíkurkirkju í dag, 18. ágúst 2023, klukkan 13.

Nú hefur elskuleg móðir mín kvatt þennan heim. Hennar verður sárt saknað. Mamma var kletturinn í lífi mínu, var með mikla tilfinningagreind og tók allar ákvarðanir af mikilli skynsemi. Æskuheimilið var eins og best gerist; ástríkir og traustir foreldrar sem veittu okkur systrum mikið öryggi og hamingjuríka æsku. Mamma var mikil húsmóðir, bæði hvað viðkom máltíðum, bakstri og handavinnu. Hún var mjög gestrisin og ekki lengi að skella í tertuhlaðborð ef sjaldséða gesti bar að garði. Ávallt voru börnin úr hverfinu og aðrir vinir velkomnir inn á heimilið. Mamma var líka mikil amma. Hún veitti mér mikinn stuðning með börnin mín, þótt hún hafi verið komin á efri ár þegar yngri börnin fæddust. Alltaf var stutt í faðmlög og bros.

Elsku pabbi lést fyrir um 18 árum og talaði mamma mikið um hann í veikindum sínum að undanförnu. Þau voru búin að vera gift í 50 ár þegar pabbi kvaddi og var það mikill harmur fyrir mömmu að missa hann. Það er trú mín að þau séu nú loksins sameinuð á ný.

Móðir mín kæra er farin á braut,

til mætari ljósheima kynna.

Hún þurfti að losna við sjúkdóm
og þraut,

og föður minn þekka að finna.

Vönduð er sálin, velvildin mest,

vinkona, móðir og amma.

Minningin mæta í hjartanu fest,

ég elska þig, ástkæra mamma.

Þakka þér kærleikann, hjartalag hlýtt,

af gæsku þú gafst yl og hlýju.

í heimi guðsenglanna hafðu það blítt,

uns hittumst við aftur að nýju.

(Höf. ók.)

Minning þín lifir með okkur.

Elín Ólafsdóttir.

Það er erfitt að finna orð til að minnast mömmu. Hetjunnar minnar, eins og ég kallaði hana. Sem hún bara hló að. Og spurði svo bara hvernig í ósköpunum ég gæti kallað hana hetju.

En hún var það. Sterk kona sem tók á lífinu eins og það kom og kvartaði aldrei. Sýndi öðrum ómælda blíðu, þolinmæði og umhyggju og naut þessa umönnunarhlutverks sem hún hafði sem móðir okkar systra. Og seinna sem amma barnabarna sinna og langömmubarna. Og sinnti því vel og af alúð. Og hún krafðist aldrei neins til baka.

Ég var svo heppin að það var hún sem varð mamman mín. Þegar maður hugsar til baka, orðin móðir og amma sjálf, þá áttar maður sig betur á því hversu stór manneskja hún var. Þegar ég sem barn streittist á móti hennar draumum um að klæða litla krullaða stelpu í kjóla og blúndur og ég vildi bara vera klædd eins og strákarnir í götunni, þá saumaði hún bara strákabuxur. Og hvernig hún kenndi mér lífsins gagn og nauðsynjar með því að gefa mér alltaf hlutverk í því sem hún var að gera og láta mér finnast að mín hjálp væri mikilvæg. Leyfði mér að vera hluti af hennar daglega lífi. Dinglandi fótunum á eldhúsbekknum þegar nágrannakonurnar litu við í kaffi, eins og ekkert væri sjálfsagðara en að unglingurinn héngi yfir vinkonum hennar. Hvernig hún studdi mig alltaf í öllum mínum draumum. Hún leyfði mér að láta mig dreyma, prufa, mistakast eða lukkast. Alltaf með hennar stuðningi. Og alltaf tilbúin með hlýjan faðminn ef mistökin voru að buga mig.

Hún var alltaf glöð og með góðan húmor. Mér er það sérstaklega minnisstætt þegar hún sendi mér bréf í heimavistarskólann og sagði að það kæmi enginn pakki núna þar sem það var þröngt í búi, en hún hefði tínt til það sem til var og það voru fjórir 10 krónu peningar sem voru límdir efst á bréfið. Ég á það bréf ennþá, með peningunum á.

Dætrum mínum, Helen og Emmu, var hún góð amma og minnast þær hennar með einskærri hlýju og þakklæti. Helen átti strax á unga aldri litla handavinnutösku hjá ömmu og þær áttu þar sameiginlega ástríðu fyrir ýmsu handverki. Hún sýndi sína ótrúlegu þolinmæði og hjartahlýju þegar Emma var búin að tína upp allt útsæðið og kom svo hlaupandi alsæl til að sýna ömmu hvað hún var dugleg að finna kartöflur. Auðvitað fékk hún hrós fyrir dugnaðinn. Á sama hátt gladdist hún stolt yfir langömmubörnunum þegar þau gerðu sitt besta til að tala íslensku við langömmu sína. Þau minnast hennar með hlýju og gleði.

Já, það eru margar sögurnar og munum við geyma þær með okkur.

Elsku mamma, það er sárt að kveðja. En ég ann þér svo innilega hvíldarinnar.

Þú varst mín móðir, vinur og fyrirmynd. Takk fyrir að vera mamman mín.

Þín,

Hildigunnur (Dunna).

Elskuleg eiginkona pabba míns, hún Helen, er látin. Ég man það svo vel þegar ég hitti Helen í fyrsta skipti, pabbi og hún höfðu þá nýlega hafið sambúð á Nýbýlaveginum. Þótt ég hafi alltaf verið í sambandi við pabba og föðurfjölskylduna mína var það ekki eins mikið og er nú til dags. Ég var því mjög kvíðin þegar ég fór í fyrsta skipti í vikuheimsókn til þeirra. Sá kvíði var algerlega ástæðulaus, Helen tók mér opnum örmum og umvafði mig frá fyrstu stundu. Það gerði hún alltaf og var okkur Bjarna og börnum okkar einstaklega góð. Systkinin eiga góðar minningar um ömmu Helen sem prjónaði ófáar peysurnar, sokkana og vettlingana á þau og börnin þeirra. Við vorum alltaf í góðu sambandi og minnist ég hennar fyrir alveg einstaka góðmennsku og glaðværð. Þótt hún væri orðin léleg til heilsunnar síðasta árið var hún alltaf hress og kát þegar ég hringdi í hana og sagði að það væri nú ekki mikið að sér, sér liði vel og hefði ekki yfir neinu að kvarta.

Ég votta systrum mínum, Ellý og Dunnu og þeirra fjölskyldum mína dýpstu samúð, minningin um yndislega konu lifir.

Stefanía Ólafsdóttir.

Elskulega góða og glaða frænka mín er dáin. Á tímabili vorum við Helen og Hildur systir mín nánast eins og systur. Við Hilla áttum ófá spor eftir endilöngu þorpinu frá Sólbakka og upp í Túnsberg og komumst óskaddaðar fram hjá sýslumannsgassanum sem hvæsti á okkur í hvert sinn. Ég minnist bjartrar vormorgunstundar þar sem við þrjár stóðum við breiða handriðið á stóra pallinum vestan við Túnsberg og sungum af öllu hjarta út yfir túnið og ána nýjasta „danslag kvöldsins“ úr útvarpinu. Við hikuðum ekki við hlaupa yfir borðin tvö sem lögð voru yfir ána til þess að fá okkur góða bunu í rólunum sem afi hafði hengt upp vestan við hlöðuna. Stöku sinnum fórum við í ævintýraferð upp að Afatúni. Við gengum upp á melinn ofan við Tungu og þá var stutt eftir. Ég held að við höfum aldrei komist inn á túnið, það var svo vel girt og hliðið harðlæst. En við slepptum aldrei að stansa við álfasteininn þarna rétt hjá, börðum að dyrum en aldrei kom neinn til dyra. Allmörgum árum seinna undruðumst við hvað steinninn hafði minnkað. Helen trítlaði líka alla leið út í Sólbakka. Þótt hún væri yngri en við tók hún samt þátt í okkar djörfu dimmufeluleikjum þar sem við príluðum upp á fremur mjóa lista á veggjum á óinnréttuðu Norðurlofti, ljósin voru slökkt. Eitt sinn kallaði Helen óttaslegin: „Æ… stelp… dett…“ og svo datt hún en meiddist ekkert sem betur fer.

Löngu, löngu seinna, þegar Siggi var að læra verkfræði og við bjuggum úti í Kaupmannahöfn, komu Helen og Óli í heimsókn. Við fengum barnfóstru, fórum með þau í Lorry, þann gamla, góða skemmtistað innréttaðan í konunglegum hesthúsum úti á Friðriksbergi. Á sunnudegi fórum við með lest út á Klampenborg og í Dyrehaven og á Bakkann. Adda og Sigga voru í ljósgrænum kjólum sem Helen hafði prjónað og fært þeim og við vorum vissar um að samferðafólkið væri að dást að því hvað mamma þeirra væri myndarleg prjónakona.

Þegar Helen og Óli fluttu til Húsavíkur og við settumst að í Reykjavík fækkaði fundum og sambandið var lítið allra síðustu ár. Ég þakka Helen innilega fyrir þær samvistir sem við áttum hér á jörð. Dunnu og Ellý og fjölskyldum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Anna María Þórisdóttir.

Alltof oft birtist dauðinn okkur óvænt, miskunnarlaus og skilur eftir sig djúp og illlæknanleg sár. En dauðinn á sér einnig aðra hlið, bjarta og líknandi. Þannig trúi ég því að hann hafi birst elsku Helen á fallegum sumardegi þegar hún kvaddi ástvini sína eftir erfiða sjúkralegu. Hella lifði friðsamlega og fallega. Hellu þekktu allir lestrarhestar Húsavíkur, enda vann hún á bókasafninu, eiginlega var hún sjálft bókasafnið. Þangað fór maður og fékk bækur til að svolgra í sig. Samviskusamlega tók hún á móti bókum og lánaði nýjar. Mér fannst þetta afar virðingarverð staða og passaði mig ætíð að láta Hellu ekki nappa mig við að skila bókum of seint. Hellu þekkti ég þó fyrst og fremst eftir að ég og Ellý urðum samlokur á unglingsárunum. Þá var ég heimagangur hjá Hellu og Óla á Ketilsbrautinni og á ótal góðar minningar frá þeim tíma. Óli var léttur í lund og stríddi okkur iðulega, fannst við fullmiklar gelgjur. Hella var alvarlegri og traustari en nokkur klettur. Faðmur hennar var mjúkur og alltumlykjandi. Þau skipti sem ég gisti hjá Ellý vorum við vaktar upp við lambalæri í hádeginu á sunnudögum. Þau voru með þeim fyrstu sem ég þekkti sem áttu vídeótæki og þar sátum við og horfðum á Dallas. Við Ellý fórum saman í nám, bjuggum á heimavist á Bifröst og leigðum saman íbúð þegar við vorum í Versló. Við fórum ekki tómhentar í borgina að hausti, Hella leysti okkur út m.a. með slátri og kartöflum sem dugði okkur vel. Við vorum sáttar við það enda vildum við gjarnan verja sumarhýrunni í eitthvað annað en mat, bíó og böll voru í forgangi.

Hella var mikil fjölskyldukona og stórfjölskyldan öll var henni afar mikilvæg. Hún sá ekki sólina fyrir dætrum sínum, barnabörnum og barnabarnabörnum. Hún var viðkvæm á ákveðinn hátt þótt hún væri sterk persóna, sannur vinur vina sinna. Hún og Óli voru ólík en samrýnd og hún missti mikið þegar Óli féll skyndilega frá. Hella var hjartahlý og hreinskiptin, kom til dyranna eins og hún var klædd og sagði hvað henni bjó í brjósti. Hún hafði skýra mynd af mönnum og málefnum en hún var líka tillitssöm og varkár í tali þegar það átti við. Hún var næm á fólk, ráðagóð og felldi ekki dóma. Hún var málsvari þeirra sem minna máttu sín, ekki síst þeirra sem höfðu orðið undir í baráttu lífsins. Hún sjálf var óspar á hrós en var ekki mikið fyrir að láta hrósa sér eða hampa. Hún var einstök kona, með stórt og fallegt hjarta sem við sem hana þekktum munum ætíð muna eftir. Elsku Ellý, Hjalli, Dagur, Eva og Orri. Vegur sorgarinnar er vissulega langur og strangur en hvorki ófær né endalaus. Innilegustu samúðarkveðjur sendi ég Dunnu, Stellu og fjölskyldum.

Ég kveð Helen með söknuði en fyrst og fremst með hlýju, þakklæti og virðingu.

Þó að kali heitur hver,

hylji dali jökull ber,

steinar tali og allt hvað er,

aldrei skal ég gleyma þér.

(Vatnsenda-Rósa)

Heiðrún Jónsdóttir.