Örlaganótt Allt að 80 bátar ferjuðu Vestmannaeyinga upp á fastalandið í janúar 1973 þegar eldgos hófst í Heimaey. Hluti þeirra sést á myndunum.
Örlaganótt Allt að 80 bátar ferjuðu Vestmannaeyinga upp á fastalandið í janúar 1973 þegar eldgos hófst í Heimaey. Hluti þeirra sést á myndunum. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ljósmyndasýningarnar Til hafnar og Við gosið verða opnaðar í dag í Hafnartorgi Gallery í Reykjavík en báðar hafa þær Heimaeyjargosið í forgrunni. Eru sýningarnar tengdar við Menningarnótt enda er Vestmannaeyjabær heiðursgestur Reykjavíkurborgar í ár

Baksvið

Elísa A. Eyvindsdóttir

elisa@mbl.is

Ljósmyndasýningarnar Til hafnar og Við gosið verða opnaðar í dag í Hafnartorgi Gallery í Reykjavík en báðar hafa þær Heimaeyjargosið í forgrunni. Eru sýningarnar tengdar við Menningarnótt enda er Vestmannaeyjabær heiðursgestur Reykjavíkurborgar í ár.

Á sýningunni Til hafnar er dreginn upp sjóndeildarhringur með ljósmyndum af bátunum sem sigldu með Eyjamenn gosnóttina örlagaríku. Sýningarstjórarnir, Vala Pálsdóttir og Joe Keys, fengu hugmyndina að sýningunni fyrir nokkrum árum en þau ólust bæði upp við að sjá báta bundna við bryggju eða sigla við sjóndeildarhringinn og hafa hrifist af fagurfræði þeirra. „Svo fór ég til Vestmannaeyja og sá myndir af gömlum bátum og ég sagði að þessi hugmynd gæti nú orðið að veruleika í Eyjum. Bæjarstjórinn hafði síðan samband við mig og spurði hvort ég gæti komið að sýningunni með henni á Menningarnótt. Þá datt mér í hug að það væri hægt að gera þessari gosnótt skil með þessum bátum,“ segir Vala í samtali við Morgunblaðið.

Meiri háttar afrek

Hún segir að það hafi komið henni á óvart þegar hún tók til við að skoða söguna hversu margir bátar komu við sögu þessa afdrifaríku nótt. Hún bætir við að þeir bátar sem ferjuðu fólk úr Heimaey hafi verið tæplega 80 talsins. „Þegar maður fer að skoða myndirnar og fjölda fólks í hverjum báti þá fer maður að átta sig á hversu mikið afrek þetta í rauninni var. Það var alveg gæsahúðarupplifun þegar ég fór að bera saman listana yfir bátana við farþegana,“ segir hún en í framhaldinu fóru Vala og Joe í samstarfi við Safnahús Vestmannaeyja að finna myndir og útfæra hugmyndina. „Þannig fæddist nú sýningin.“

„Við þurftum að finna eitthvert húsnæði fyrir sýninguna og vorum svo heppin að Hafnartorg Gallery tók svona vel á móti okkur og bauð okkur autt rými við höfnina sem á svo vel við sýninguna líka,“ segir Vala. Sýningarnar eru raunar tvær en hin ljósmyndasýningin ber, sem fyrr segir, heitið Við gosið. Þar eru til sýnis ljósmyndir Sigurgeirs Jónassonar af Heimaeyjargosinu. „Þá buðu þeir mér að sýna í nýjum sal sem þeir eru komnir með í Hafnartorgi Gallery þar sem eru myndbandsskjáir og að vera með ljósmyndasýningu. Þá lá beinast við að leita í smiðju Sigurgeirs Jónassonar sem er eiginlega ljósmyndari Vestmannaeyja. Eftir hann liggja milljónir mynda og myndirnar sem tengjast gosinu hlaupa á þúsundum,“ segir Vala. Tekur hún fram að í ljósi þess gríðarlega fjölda af myndum hafi ekki skort efnivið fyrir sýninguna en á móti komi að erfitt hafi verið að velja á milli ljósmyndanna.

„Hann Sigurgeir sagði við mig að á þessari gosnóttu hafi hann verið að þræta um bílinn við konuna sína, hvort hún ætti að fara á honum niður á höfn eða hvort hann myndi nota hann til þess að fara um bæinn og mynda. En hann dvaldi bara við eldgosið og eins og hann sagði „ég var við gosið“. Þess vegna heitir sýningin Við gosið. Það er annars vegar að hann hafi verið við gosið og svo hins vegar að það var bara hann og gosið,“ segir Vala.

Eldgosið í forgrunni

Hún segir sýningarnar tvær í raun óskyldar og sjálfstæðar en eigi sér þó sama uppruna og því séu þær eins konar systursýningar. „Þær tengjast báðar gosinu og hluti af myndunum sem við notum af bátunum eru auðvitað myndir eftir Sigurgeir. En Safnahús Vestmannaeyja á ríkulegt safn af myndum af bátum sem tengjast Vestmannaeyjum með einum eða öðrum hætti. Þannig urðu til þessar tvær sýningar. Þó þær séu sjálfstæðar sýningar þá eru þær samt sem áður tengdar,“ segir Vala.

„Það lá einhvern veginn beint við, fyrst að Vestmannaeyjabær er heiðursgestur á Menningarnótt, að taka efnivið tengdum því og í ár hefur bærinn verið að gera 50 ára goslokaafmælinu skil,“ segir hún að lokum.

Menningarnótt

Eyjamenn heiðursgestir

Vestmannaeyjabær er heiðursgestur á Menningarnótt í ár en fimmtíu ár eru liðin frá goslokum í Vestmannaeyjum og munu Eyjamenn færa Reykvíkingum þjóðhátíðarstemninguna, allt frá hvítu tjöldunum yfir í sönginn. Hvítu þjóðhátíðartjaldi verður m.a. komið upp í Tjarnarsal Ráðhússins.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri Vestmannaeyja kynntu dagskrá Menningarnætur á blaðamannafundi í gær.

„Við ætlum að horfa bæði til þess að liðin eru 50 ár frá goslokum og þakka Reykvíkingum fyrir það hvernig þeir aðstoðuðu okkur í þessu,“ sagði Íris m.a. við Morgunblaðið.

Höf.: Elísa A. Eyvindsdóttir