Dagbjört Jónsdóttir lögfræðingur segir að það sé mikilvægt að kenna börnum að spara og að fjölskyldan setji sér sameiginleg markmið.
Dagbjört Jónsdóttir lögfræðingur segir að það sé mikilvægt að kenna börnum að spara og að fjölskyldan setji sér sameiginleg markmið. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dagbjört býr í Mosfellsbænum ásamt tveimur börnum sínum og eiginmanni og þekkir því á eigin skinni hvernig er að reka heimili og fjölskyldu. Hún segir leiðirnar sem hún miðlar í bókinni hafa hjálpað sér í sínu fjárhagslega ferðalagi í lífinu

Dagbjört býr í Mosfellsbænum ásamt tveimur börnum sínum og eiginmanni og þekkir því á eigin skinni hvernig er að reka heimili og fjölskyldu. Hún segir leiðirnar sem hún miðlar í bókinni hafa hjálpað sér í sínu fjárhagslega ferðalagi í lífinu. „Fyrir rúmum áratug var ég í háskólanámi með tvö ung börn en eins og margir þekkja getur námsmannalífið verið krefjandi fjárhagslega og ég þurfti að passa upp á hverja einustu krónu. Eftir að ég útskrifaðist og fór að vinna jukust eðlilega tekjurnar. Ég fann hins vegar að ég var ekki jafn öguð og ég var sem námsmaður í fjármálum heimilisins. Ég var ekkert sérlega meðvituð í innkaupum og ákvað þess vegna að taka fastar á allri eyðslu sem ég gerði í litlum skrefum og þannig náði ég að draga úr óþarfa útgjöldum,“ segir hún.

Setti sér skýr markmið í peningamálum heimilisins

Til að ná þessum markmiðum notaði Dagbjört mismunandi aðferðir sem hjálpuðu henni. „Ég fór að skrifa niður öll útgjöldin á heimilinu og fyrir vikið öðlaðist ég mun betri yfirsýn yfir í hvað peningarnir mínir fóru og hvað mætti betur fara í minni eyðslu. Ég setti mér skýr markmið um hvernig ég ætlaði að ráðstafa peningunum mínum, hvort sem það var að leggja þá fyrir eða ráðstafa þeim með öðrum hætti. Allt þetta leiddi til þess að ég átti nú auka pening til að leggja til hliðar, og það var einmitt það sem varð til þess að ég ákvað að gefa út bókina Fundið fé,“ segir Dagbjört og bætir við að hún hafi fyrst verið að skrá öll útgjöld á laus blöð og í stílabækur.

Vildi hafa bókina þannig að hún væri stofustáss

„Mig langaði svo að eignast bók þar sem ég gæti haldið betur utan um stöðuna á peningamálunum. Bók þar sem ég gæti líka skráð niður fjárhagsleg markmið mín og áskoranir, eitthvað til að hvetja mig áfram. Ég vildi miðla þekkingu minni og gera öðrum kleift að fá tól í hendurnar sem myndi aðstoða við ákvarðanir um útgjöld og innkaup. Bókin væri verkfæri sem endurspeglaði fjárhagslegar þarfir og áherslur hvers og eins og auðveldaði fólki að setja sér markmið. En mér fannst brýnt að bókin myndi sóma sér vel sem stofustáss og að hún væri alltaf við höndina t.d. á sófaborði eða öðrum sýnilegum stað.“

Dagbjört segir svo og að hún leggi ríka áherslu á að það sé vel hægt að gera fjármálavinnu heimilisins að gæðastund til dæmis með því að drekka góðan kaffibolla og hlusta á tónlist og þess vegna finnst henni að bókin eigi að vera innan seilingar og hægt að grípa hana eftir hentisemi. „Almenna hvatningu og góð ráð þegar kemur að fjármálum fannst mér vanta á samfélagsmiðlum og því ákvað ég líka að stofna Instagram-síðu þar sem ég fræði og hvet fólk áfram en á síðunni er ég með rúmlega 3.000 fylgjendur.“ Þess má geta að síðan heitir Fundið fé og segist Dagbjört hafa fengið jákvæðar undirtektir við innihaldinu sem hún setur á reikninginn.

Bókin hugsuð sem fjárhagslegt ferðalag

En hvers konar fræðsla skyldi vera í bókinni og hvernig er hún uppbyggð?

„Það mætti líkja bókinni við eins konar vinnubók sem skipt er í tólf mánuði þar sem öll útgjöld eru skráð niður, viku fyrir viku. Í lok hverrar viku er farið yfir alla eyðslu til að meta hvort hún endurspegli áherslur og fjárhagsleg markmið. Í hverjum mánuði eru síðan spennandi áskoranir til að gera verkefnið enn skemmtilegra. Hugsunin er að fá þá sem nota bókina með í fjárhagslegt ferðalag þar sem kennt er hvað skiptir mestu máli og hvernig hægt er að forgangsraða. Einungis með því að setjast niður yfir fjármál sín í fimm mínútur á dag.“

Dagbjört bætir við að viðbrögðin við bókinni hafi farið fram úr sínum björtustu vonum og hún segist finna fyrir miklum áhuga almennings á þessum málaflokki. „Vinnan við bókina gekk vel og ferlið var skemmtilegt en taugatrekkjandi líka. Ég var svo lánsöm að komast að með hugmyndina að bókinni minni í nýsköpunarhraðal þar sem hún blómstraði og stækkaði. Ég ákvað því að láta drauminn minn rætast um að gefa bókina út og halda námskeið.“

Brýnt að kenna börnum að spara

En hvað telur Dagbjört brýnt þegar kemur að fræðslu um fjármál og fyrir hvern er bókin ætluð?

„Bókin er ekki bundin við neinn tiltekinn aldur en ég myndi telja að allir sem eru með reglubundin útgjöld eigi að geta notað bókina með góðum árangri. Mér finnst umræða um fjármál, peninga og sparnað vera mikilvæg og eiga erindi við börn og ungmenni. Fólk þarf að vera duglegt að ræða þessi mál við börnin sín. Það má ekki gleyma að við erum ekki öll eins, sumir virðast hafa einhvers konar innbyggt sparnaðardrif í sér strax frá ungum aldri á meðan slíkt vefst fyrir öðrum. Þess vegna er mikilvægt að kenna börnum og unglingum að skilja mikilvægi þess að leggja fyrir. Góð regla er að hvetja börn strax frá unga aldri til að taka helming af öllum þeim peningum sem þau eignast og leggja hann til hliðar. Þetta er góð venja sem skilar sér til frambúðar og kennir barninu þegar það verður eldra að taka alltaf hluta launa sinna og leggja í sparnað.“ Hún mælir einnig með því að foreldrar og forsjáraðilar hjálpi börnum að setja sér fjárhagsleg markmið eins og að safna fyrir ákveðnum hlut. „Það að kenna barni tilgang og markmið með því að hugsa vel um peningana veitir gott veganesti inn í framtíðina. Eins getur fjölskylda sett sér sameiginlegt fjárhagslegt markmið eins og að safna fyrir ferðalagi. Þá þurfa allir að hjálpast að og draga til dæmis úr ísbúðarferðum eða skyndibitaáti svo fátt eitt sé nefnt.“

Er með námskeið um markmiða- setningu í fjármálum

Dagbjört segir mikilvægast af öllu að setja sér fjárhagsleg markmið. „Það krefst skipulags og undirbúnings ef það á að ganga upp. Við settum okkur einmitt svona markmið og tókst að safna fyrir ferðalagi til Asíu en við þetta verkefni beittum við ýmsum aðferðum og leiðum til að ná fram okkar sparnaði. Með allt þetta í huga setti ég nýverið saman stutt námskeið um markmiðasetningu í fjármálum fyrir þá sem langar að leggjast í sjálfsskoðun með fjármál sín. Á námskeiðinu er farið í gegnum hvað það er sem skiptir mestu máli og hvaða fjárhagslega markmið hver og einn ætlar að setja sér. Námskeiðið inniheldur sjö hnitmiðaðar kennslustundir og er í formi myndbanda og verkefna. Þessi verkefni eru gerð til að byggja upp skýra sýn á hvað það er sem skiptir hvern og einn raunverulega máli og hvaða áherslur hver og einn vill hafa. Þegar hver og einn hefur unnið sig í gegnum verkefnið á sá hinn sami að vera kominn með fjárhagsleg markmið og áætlun um hvernig þau munu ná fram að ganga.“

Fyrir þá sem vilja kynna sér námskeiðið betur er hægt að fara á heimasíðuna fundidfe.is en þar fara námskeiðin fram og hver og einn getur stjórnað hraðanum á námskeiðinu eftir hentisemi.

Höf.: Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir |