Kolbrún Dóra Gunnarsdóttir fæddist í Reykjavík 17. ágúst 1970. Hún lést á hjúkrunarheimilinu í heimabæ sínum Sæbø í Noregi 12. ágúst 2023.

Kolbrún Dóra ólst upp í Reykjavík til fimm ára aldurs, fluttist síðan á Klausturhóla í Grímsnesi, síðar á Selfoss árið 1984 og fluttist til Noregs sumarið 1997. Foreldrar hennar voru Gunnar Jón Engilbertsson rafvélavirki, f. 23. mars 1934 á Akureyri, d. 14. apríl 1976, og Dóra María Aradóttir, f. 9. október 1938 í Hellisfirði í Norðfirði. Kolbrún Dóra var yngst af sex systkinum, hin eru: Óskírður drengur, f. og d. 8. janúar 1957, Dagbjartur Ari, f. 19. desember 1957, Guðný Ester, f. 21. júní 1959, Ebba Guðlaug, f. 19. janúar 1964, og Anna María, f. 14. desember 1965.

Í mars 2023 giftist Kolbrún Dóra sambýlismanni sínum til marga ára, Øystein Bjarte Mo, f. 23. maí 1964. Synir þeirra eru: Joakim Aron, f. 7. júní 2003, og Adrian Snær, f. 5. apríl 2006.

Kolbrún Dóra var oftast kölluð Kolla. Hún var glaðvær, vinmörg, mikill vinur vina sinna og bjartsýn. Hún gekk í barnaskólann á Ljósafossi og seinna meir Héraðsskólann á Laugarvatni. Eftir að Kolbrún Dóra hóf störf á Hjúkrunarheimilinu í Sæbø í Noregi ákvað hún að fara í meira nám. Hún kláraði sjúkraliðanám og tók stúdentspróf í leiðinni.

Kolbrún Dóra tók sér margt fyrir hendur á ævinni. Snemma fór hún að vinna í Pylsuvagninum á Selfossi, þar vann hún af og til í mörg ár. Einnig starfaði hún í Mjólkurbúi Flóamanna í lengri tíma. Þegar Kolbrún Dóra var 24 ára fékk hún ævintýraþrá og skellti sér út til Noregs. Þar eyddi hún einu ári og starfaði sem au pair. Noregur náði rosalega vel til hennar og það leið ekki langur tími þar til hún flutti alveg þangað. Í Noregi kynntist hún svo ástinni í lífinu sínu, honum Øystein, og þar gerðu þau sér heimili. Kolbrún Dóra flutti aldrei aftur heim til Íslands. Þegar Kolbrún Dóra flutti til Noregs hóf hún störf í húsgagnaverksmiðju og lauk starfsferli sínum sem sjúkraliði á hjúkrunarheimilinu í Sæbø.

Útför hennar fer fram frá Hjørundfjordkirkju í dag, 18. ágúst 2023, klukkan níu að íslenskum tíma, ellefu að norskum tíma.

Elsku Kolla frænka mín.

Ég trúi því ekki ennþá að þú sért farin frá okkur, að ég eigi aldrei eftir að heyra hlátur þinn aftur eða sjá fallega brosið þitt. Það er svo margt sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa um allar þær minningar sem ég á um þig og þær stundir sem við höfum átt saman. Hugurinn leitar í blokkina á Selfossi, þar sem þú bjóst. Þú gafst þér alltaf tíma í að gera eitthvað skemmtilegt með mér, eins og að spila og það þykir mér ótrúlega vænt um.

Ég komst að því á mínum fullorðinsárum hvað við vorum líkar í raun og veru. Þegar þú grést, grét ég líka. Ég mun seint gleyma því þegar ég kvaddi þig í Noregi þegar þú byrjaðir að gráta á sama tíma og ég. Við gátum hvorki haldið aftur af tárunum meðan við horfðumst í augu né eftir að við kvöddumst.

Minningarnar eru svo margar og skemmtilegar að ég þyrfti heila bók til þess að rifja þær allar upp. Minningabankinn er fullur af yndislegum og skemmtilegum minningum og það er ég innilega þakklát fyrir. Ég er þakklát fyrir allar stundirnar og samveruna okkar, þakklát fyrir þig og að hafa átt stað í hjarta þínu og verið í lífi þínu. Þú varst alltaf góð við mig og að segja mér hversu dugleg ég væri og að ég gæti gert allt sem ég ætlaði mér. Þú hafðir óbilandi trú á mér og þessi orð ætla ég að varðveita og sýna í verki.

Þín gullnu spor

yfir ævina alla

hafa markað

langa leið.

Skilið eftir

ótal brosin,

bjartar minningar

sem lýsa munu

um ókomna tíð

(Hulda Ólafsdóttir)

Hvíldu í friði, elsku Kolla mín.

Þín frænka,

Kristín Tryggvadóttir.

Elsku besta Kolla mín er látin… Ég á svo erfitt með að trúa þessu og vonast til að vakna af þessum vonda draumi. Við Kolla erum búnar að þekkjast síðan við vorum sjö og átta ára, þegar við kynntumst í réttum heima í Vaðnesi en þangað kom hún með Ara afa sínum frá Klausturhólum að sækja sínar kindur. Við vorum vinkonur alla okkar grunnskólagöngu og fylgdumst að í Héraðsskólann á Laugarvatni þar sem við vorum saman á heimavistinni í tvo vetur og styrktist okkar vinskapur enn meira.

Kolla var mín besta vinkona öll unglingsárin, samgangur okkur var það mikill að Brynjar Þór eldri sonur minn kallaði Kollu alltaf frænku sína. Þær eru margar minningarnar um Kollu. Í hvert skipti sem ég heyri gömul Bubbalög spiluð þá rifjast upp tíminn á Laugarvatni en þar var ansi oft setið inni í herbergi hjá Kollu og spiluð tónlist, oftar en ekki voru það plötur með Bubba sem voru settar á fóninn. Fyrsta sveitaballið sem ég fór á var með Kollu, ef ég man rétt var það síðasta ballið með Sumargleðinni í Aratungu hinn 16. ágúst 1986. Kolla átti afmæli 17. ágúst og varð því 16 ára á miðnætti og voru margir sem fögnuðu með henni þetta kvöld. Eftir þetta fórum við saman á ófá sveitaböll, partí, Þórsmerkurferðir og aðrar ferðir sem við fórum með vinum okkar. Eina hringferð mín um landið var ógleymanleg tveggja vikna ferð með Kollu minni sumarið 1988.

Um tíma unnum við Kolla saman í mjólkurbúinu og varð þar til vinkonuhópur sem bættist svo í en út frá Kollu myndaðist dýrmætur níu manna vinkvennahópur, hún var miðjan okkar. Þegar Kolla flutti út til Noregs féllu nokkur tár, en þar leið henni vel í fallegu umhverfi og þar fann hún ástina sína Øystein og eignuðust þau tvo fallega drengi, þá Joakim og Adrian. Alltaf var hún dugleg að koma til Íslands og hittumst við yfirleitt vinkonurnar með fjölskyldur okkar og rifjuðum upp góða tíma og það er ómetanlegt að hafa haldið hópinn þrátt fyrir langar vegalengdir.

Ég ætlaði mér alltaf að fara út til Noregs að heimsækja Kollu en var aldrei búin að fara áður en hún dó. Miðvikudagsmorgun hinn 9. ágúst kl. 06.01 vakna ég grátandi, þá hafði Kolla komið til mín í draumi í Vaðnes í húsið sem ég ólst upp í með blómvönd og svo fallegan kjól með blómamunstri handa mér að gjöf. Við sátum og spjölluðum saman ásamt fleirum og voru öll svo hissa á að sjá Kollu sem leit svo vel út „eins og hún var áður en hún veiktist“. Mamma vildi taka mynd af okkur saman en ég finn ekki símann minn, Kolla kemur til mín og við föðmumst og kveðjum hvor aðra og svo deyr hún í fanginu á mér og ég vakna grátandi því þetta var svo raunverulegt. Mig dreymir aldrei fyrir einu eða neinu, en þarna kom hún Kolla mín og kvaddi mig og fyrir það er ég svo þakklát, þrátt fyrir að ég óskaði þess að hún væri hjá okkur á lífi þessi elska. Þær eru dýrmætar allar okkar ótal minningar. Hennar verður sárt saknað enda var hún glaðvær, skemmtileg og hvers manns hugljúfi.

Þín vinkona,

Birna Kjartansdóttir.