Hey Í vor var mikill kuldi og rigning en síðan tók veðurfarið stakkaskiptum í júlí, bændum til mikillar lukku.
Hey Í vor var mikill kuldi og rigning en síðan tók veðurfarið stakkaskiptum í júlí, bændum til mikillar lukku. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hermann Nökkvi Gunnarsson Sigurður Bogi Sævarsson Heyskapur hefur gengið vel í Eyjafirði og þokkalega á Suðurlandi en flestir eru að klára seinni slátt. Bændur biðja nú fyrir rigningu eftir mikla þurrkatíð að undanförnu en þó ættu flestir að vera með ágætis magn af heyi eftir tvær lotur.

Hermann Nökkvi Gunnarsson

Sigurður Bogi Sævarsson

Heyskapur hefur gengið vel í Eyjafirði og þokkalega á Suðurlandi en flestir eru að klára seinni slátt. Bændur biðja nú fyrir rigningu eftir mikla þurrkatíð að undanförnu en þó ættu flestir að vera með ágætis magn af heyi eftir tvær lotur.

Bændur í Húnavatnssýslum voru í vikunni margir að hirða af túnum eftir seinni slátt. Þórarinn Óli Rafnsson, bóndi á Staðarbakka í Miðfirði, segir að þar um slóðir sé staðan á heyskap nokkuð misjöfn. Mjög þurrt hafi verið að undanförnu og tún í sendnum jarðvegi séu því á stundum brunnin. Heyfengur af þeim spildum sé því lítill. Sjálfur segist Þórarinn þó standa vel; hann hafi náð góðum heyfeng að undanförnu og eigi aukinheldur nokkrar fyrningar frá síðasta ári. Í héraði sé hins vegar nokkuð um bændur sem verr standi og þeirra væntingar nú séu að fá rigningu, svo spretta taki við sér. Slíkt geti þá gert gæfumuninn svo seinni sláttur verði drjúgur.

„Hér er staðan góð og af þessum fimm hekturum hér er ég að ná 40 rúllum. Með slíkt er ég sáttur,“ sagði Þórarinn þegar Morgunblaðið hitti hann á miðvikudaginn. Þá var bóndinn að taka rúllur af túnum við Reyki í Hrútafirði – rétt eins og gera þarf í ágúst að áliðnum slætti.

Sigurgeir B. Hreinsson, framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Eyjafjarðar, segir að hlýtt og gott veður í sumar hafi reynst bændum afskaplega vel og að bændur hafi í fyrsta og öðrum slætti náð miklu heyi. Þurrkatíð undanfarið hafi dregið smá úr sprettu fyrir þriðja slátt, sem sumir bændur fara út í, en að það sé með öllu óljóst hvort bændur þurfi á honum á að halda í ljósi þess hversu miklu heyi þeir náðu í fyrri sláttum. Hann reiknar með góðu heyi en niðurstöður úr mælingum koma í haust.

Tún brunnið vegna þurrka

Sveinn Sigurmundsson, framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Suðurlands, segir bændur vonast eftir rigningu vegna mikilla þurrka að undanförnu. Dæmi séu um að tún hafi brunnið af þessum völdum. Uppskeran á Suðurlandi var ekkert sérstök í byrjun sumars, að hans sögn, en það skrifast á lélegt veður í vor. Að sögn Sveins eru dæmi uppi hjá mönnum sem segja uppskeruna minni í ár en í fyrra. Nú sé hins vegar ágætis uppskera eftir að veðrið tók stakkaskiptum í byrjun júlí og telur hann bændur flesta vera komna með nóg hey.

„Almennt er gott hljóð í mönnum, sérstaklega eftir að það byrjaði að hlýna.“ Margir bændur á Suðurlandi eru búnir með annan slátt, þó einhverjir verði enn að í september, og segir Sveinn að ekki sé algengt að bændur á Suðurlandi fari út í þriðja slátt.