Skalli Gísli Eyjólfsson reynir sitt besta til þess að stýra boltanum á markið gegn Zrinjski á Kópavogsvelli.
Skalli Gísli Eyjólfsson reynir sitt besta til þess að stýra boltanum á markið gegn Zrinjski á Kópavogsvelli. — Morgunblaði/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslandsmeistarar Breiðabliks eru á leið í umspil um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar í knattspyrnu þrátt fyrir að liðið hafi unnið afar sterkan sigur gegn Zrinjski frá Bosníu í síðari leik liðanna í 3

Evrópudeildin

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Íslandsmeistarar Breiðabliks eru á leið í umspil um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar í knattspyrnu þrátt fyrir að liðið hafi unnið afar sterkan sigur gegn Zrinjski frá Bosníu í síðari leik liðanna í 3. umferð Evrópudeildarinnar á Kópavogsvelli í gær.

Leiknum lauk með 1:0-sigri Breiðabliks en Zrinjski vann fyrri leik liðanna afar sannfærandi í Mostar í Bosníu, 6:2, og einvígið því samanlagt 6:3.

Blikar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og Gísli Eyjólfsson komst tvívegis í ágætis skotfæri en í bæði skiptin setti hann boltann himinhátt yfir markið.

Gísli kom svo boltanum í netið á 43. mínútu með frábæru skoti úr teignum, eftir frábæra sendingu Jasons Daða Svanþórssonar, en markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu og staðan því markalaus í hálfleik.

Sjálfsmark réð úrslitum

Blikar komust svo yfir á 54. mínútu þegar Davíð Ingvarsson átti frábæra fyrirgjöf frá vinstri. Slobodan Jakovljevic ætlaði að hreinsa frá marki en hann hitti boltann skelfilega og setti hann í eigið mark af stuttu færi úr teignum.

Þremur mínútum síðar fengu Blikar svo hornspyrnu sem endaði á kollinum á Klæmint Olsen en skalli hans fór í stöngina og út.

Blikar áttu nokkrar álitlegar sóknir það sem eftir lifði leiks og þeir vildu meðal annars fá vítaspyrnu á 85. mínútu þegar Klæmint Olsen fór niður í vítateig bosníska liðsins en eftir að VAR-myndbandsdómgæslan hafði skoðað atvikið var ákveðið að dæma ekki neitt.

Damir Muminovic átti ágætis skottilraun, beint úr aukaspyrnu af 30 metra færi á 87. mínútu, en boltinn fór rétt fram hjá. Reyndist það síðasta marktilraun Breiðabliks í leiknum.

Breiðablik mætir Struga frá Norður-Makedóníu í umspili um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar en Struga hafði betur gegn Swift Hesprange frá Lúxemborg í 3. umferð keppninnar.

Struga vann fyrri leikinn í Norður-Makedóníu 3:1 en tapaði síðari leiknum í Lúxemborg, 2:1, í gær. Það kom hins vegar ekki að sök þar sem Struga vann einvígið 4:3.

Struga er ríkjandi meistari í Norður-Makedóníu en liðið tapaði aðeins tveimur leikjum í norðurmakedónsku 1. deildinni á síðustu leiktíð. Liðið endaði með 68 stig, 10 stigum meira en Shkupi, sem hafnaði í öðru sætinu.

Fyrri leikur liðanna fer fram fimmtudaginn 24. ágúst og sá síðari viku seinna, hinn 31. ágúst, en dregið verður í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar í Mónakó hinn 1. september.