Kristján Þorvaldsson fæddist á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað 4. maí 1962. Hann lést 6. ágúst 2023.

Foreldrar hans voru þau Þorvaldur Jónsson, lengst af umboðsmaður Eimskipa og Ríkisskipa, f. á Tanga á Fáskrúðsfirði 18. ágúst 1908, d. 1995, og Oddný Aðalbjörg Jónsdóttir frá Þorvaldsstöðum í Breiðdal, f. 18. mars 1923, d. 12. ágúst 2005. Fjölskyldan var kennd við húsið Sunnuhvol á Fáskrúðsfirði og Kristján var yngstur sinna systkina. Eldri eru systurnar Jóhanna Ásdís, f. 1944, Guðný Björg, f. 1945, og Jóna Kristín, f. 1959. Foreldrar Kristjáns fluttu til Reykjavíkur 1981.

Kristján ólst upp fyrir austan, gekk vel í skóla, lék á hljómborð í hljómsveitum og þótti efnilegur í knattspyrnu. Hann fór ungur suður í framhaldsskóla og útskrifaðist stúdent frá Menntaskólanum við Sund vorið 1982. Eftir stúdentspróf nam hann lögfræði við HÍ en hvarf frá því námi og sneri sér að blaðamennskunni, sem varð hans aðalstarf. Kristján kom víða við í blaða- og fréttamennsku. Í fyrstu við útgáfu Stúdentablaðsins og Kvikmyndablaðsins, skrifaði bókagagnrýni í Helgarpóstinn, og blaðið Gamli bærinn, sem kom út 1984, var tilraun hans og Einars Guðjónssonar til að gefa út hverfisblað um lífið í 101. Eiginlegan blaðamannsferil hóf hann á Alþýðublaðinu og starfaði þar í nokkur ár. Hann var síðan um tíma á Morgunblaðinu og ritstjóri Pressunnar um hríð, sem og seinna Mannlífs og Vikunnar. Hann var einn af stofnendum tímaritsins Séð og heyrt 1996 og ritstjóri þess við annan mann um tíu ára skeið. Einnig hélt hann um tíma utan um ársrit Slysavarnafélags Íslands. Kristján var jafnframt í nokkur ár útvarpsmaður í dægurmálaútvarpi Rásar 2 og hafði meðal annars umsjón með morgun- og síðdegisútvarpi, Þjóðarsálinni og hélt úti þættinum Sunnudagskaffi um nokkurra ára skeið. Kristján skrifaði ævisögu stjórnmálamannsins Guðmundar Árna Stefánssonar: Hreinar línur, sem kom út árið 1994. Síðustu árin sinnti Kristján ýmsum tilfallandi störfum.

Sonur Kristjáns með Helgu Jónu Óðinsdóttur er Þorvaldur Davíð leikari, f. 27. september 1983. Eiginkona hans er Hrafntinna Viktoría Karlsdóttir, f. 9. nóvember 1988. Þau eiga þrjú börn: Helgu Viktoríu, tíu ára, Emilíu Sól, sex ára, og Kristján Karl, eins árs. Dóttir Kristjáns og Árdísar Sigurðardóttur er Anna Sigríður, f. 20. nóvember 2006. Hún stundar nám við Kvennaskólann í Reykjavík. Sambýliskona Kristjáns síðustu níu árin er Oddný Vestmann Guðmundsdóttir, f. 8. mars 1955. Í desember 2018 fluttu þau til Söllested á Lálandi, Danmörku. Börn Oddnýjar eru: Ríkey Kristjánsdóttir, gift Reyni Skúlasyni, og Guðmundur Vestmann, í sambúð með Úlfhildi Gunnarsdóttur. Barnabörn Oddnýjar eru: Rökkvi, Sindri, Álfur og Kría.

Útför Kristjáns fer fram frá Langholtskirkju í dag, 18. ágúst 2023, klukkan 11.

Með söknuði kveðjum við Sunnuhvolssysturnar yndislegan bróður, Kristján.

Móðir okkar, Oddný, var komin nær fertugu og faðir okkar, Þorvaldur, hálfsextugur þegar Kristján fæddist. Sautján og átján ára aldursmunur var milli hans og eldri systranna Guðnýjar Bjargar og Jóhönnu Ásdísar og rúm þrjú ár á milli hans og Jónu Kristínar. Hann var kærkominn sonur og bróðir, elskaður og dáður. Kristján komst auðvitað upp með ýmislegt, eins og þá dynti að vilja alls ekki láta klippa sig. Til þess þurfti tiltal og ferðir alla leið á Seyðisfjörð. Önnur eldri systranna fór með föður okkar í slíkar ferðir og einhverju sinni hafði uppgefinn rakarinn á orði: „Þetta gengur alltaf svona þegar afarnir eru að skipta sér af.“ Kristján var skemmtilegur strákur, glaðlyndur, uppátækjasamur, fróðleiksfús grúskari, las alls konar bækur og greinar. Ýmislegt reyndi hann fyrir sér og var margt til lista lagt. Hann var góður í fótbolta í uppvextinum, lék með Leikni á Fáskrúðsfirði og áhuginn á knattspyrnu var alltaf til staðar.

Kristján var músíkalskur, hlustaði á alls konar tónlist, bæði í flutningi erlendra og íslenskra tónlistarmanna. Hann var liðtækur á hljómborð og greip einnig í gítarinn. Fyrir austan lék hann á hljómborð í nokkrum hljómsveitum.

Kristján var mannvinur, hjartahlýr, varði þau sem hallað var á og dró fram hið jákvæða í fari fólks. Þetta var áberandi í fari hans allt frá bernsku. Heimili foreldra okkar stóð vinum okkar opið og þangað komu margir með Kristjáni, sem var vinmargur allt frá uppvaxtarárum. Í lífinu varð hann fljótt litríkur lífskúnstner, með öllum þeim hliðum sem gjarnan fylgja.

Hann var sextán ára þegar leiðin lá að austan og suður í framhaldsskóla og útskrifaðist stúdent frá MS 1982. Árið áður höfðu foreldrar okkar flutt suður og Kristján bjó hjá þeim um tíma. Kristján byrjaði í lögfræði, en námið vék fyrir blaðamennsku og brennandi áhuga á fjölmiðlum. Hann kom að ýmsu frumkvöðlastarfi, sem ritstjóri, greinahöfundur, blaðamaður og dagskrárgerðamaður Rásar 2. Hann hafði til að bera mikinn áhuga á fólki, mannlífi og málefnum líðandi stundar.

Kristján eignaðist tvö yndisleg börn, Þorvald Davíð og Önnu Sigríði. Frá 2018 áttu þau Oddný Vestmann fallegt heimili saman á Lálandi í Danmörku og nutu góðra stunda, þrátt fyrir erfið veikindi hans undanfarin ár.

Við systurnar erum þakklátar fyrir samleiðina með bróður okkar og nánu tengslin, sem héldust traust í gegnum það allt sem lífinu gat fylgt. Við minnumst dýrmætu stundanna. Góðu eiginleikanna, sem einkenndu. Hann var hlýr og gamansamur, sagði skemmtilega frá, vel að sér um svo margt og lék af fingrum fram á rafmagnsorgelið, jafnt gamla sálma með trommutakti sem nýjustu dægurlögin.

Elsku Oddný, Þorvaldur Davíð, Anna Sigríður, Hrafntinna, barnabörnin og aðrir ástvinir og vinir, Guð blessi ykkur öll og minninguna um ljúflinginn okkar, elsku Kristján.

Við systurnar kveðjum kæran bróður og biðjum honum blessunar á eilífðarbrautum.

Jóhanna Ásdís, Guðný Björg og Jóna Kristín.

Hispurslaus, kaldhæðinn, gamansamur, orðheppinn, dugmikill, fljóthuga og frjór til orðs og æðis. Allt þetta einkenndi Kristján Þorvaldsson, en svo margt annað líka, því Kristján vinur minn var ljúfmenni sem mátti ekkert aumt sjá og fann til samkenndar með fólki, ekki síst ef það glímdi við mótlæti í lífi og starfi. Lagði þá gjarnan lið, ef unnt var.

Hann var ekki allra alltaf og um skeið var hann um sumt brokkgengur, en náði sér vel á strik á nýjan leik og varð aftur gamli góði Kristján. Hann lifði hratt. Það var hans eðli. Þannig vildi hann hafa það. Þannig var Kristján.

Við þekktumst ágætlega úr heimi blaðamennskunnar á árum áður, en sá kunningsskapur þróaðist yfir í vináttu þegar Kristján tók að sér það verkefni að skrá lífssögu mína í nóvember 1994. Það gerði hann í samstarfi við mig á 12 dögum! Já, 12 dögum frá því að ákvörðun var tekin þar til bókin var komin út á prenti. Sennilega Íslandsmet í bókarskrifum. Tilurðin var sú, að ég hafði sagt af mér ráðherradómi hinn 11. nóvember og viku síðar spratt upp sú hugmynd að koma út bókinni Hreinar línur fyrir jólabókaflóðið. Og það tókst með því að leggja nótt við dag. Kristján lyfti þar grettistaki og náði að skrifa heildstæða, vel skrifaða, vandaða og aldeilis prýðilega bók á hálfri annarri viku. Það hefði fáum öðrum tekist. Fljótur að hugsa, snöggur að vinna og ritfær vel. Það var Kristján.

Og nú er vinur minn allur. Við höfum ávallt haldið sterku samband og hringt annað slagið hvor í annan og spjallað um heima og geima. Hann hafði barist

við krabbamein um árabil, en þegar ég spurði hann um heilsufarið sagði hann gjarnan: „Ég tóri, það er ekkert að mér.“ Bætti svo raunar við, þegar ég gekk á hann, að hann væri verkjaður og lasburða. En sagði sambýliskonu sína, Oddnýju, hlúa vel að sér. Æðruleysið var algert hjá mínum manni og hann sagðist einfaldlega lifa lífinu eins og guð og gæfan leyfði.

Í gegnum vinskap okkar Kristjáns þróaðist einnig vinátta milli mín og Þorvaldar Davíðs sonar hans. Vinátta sem ég er þakklátur fyrir. Kristján sagðist svo ríkur af fólki – börnum sínum og afkomendum. En svo gripu örlögin inn í, þessi örlög sem öllu ráða þegar upp er staðið. Lífsbók Kristjáns Þorvaldssonar lokaðist.

Ég þakka af alhug fyrir að hafa fengið að njóta vináttu og trúnaðar Kristjáns Þorvaldssonar. Hann var svo frjór í hugsun, stundum meinhæðinn um menn og málefni; einkum broddborgara, en ávallt sanngjarn gagnvart okkar minni bræðrum og systrum. Enda var hann Kristján Þorvaldsson jafnaðarmaður. Hann var krati. Ég sakna vinar í stað.

Börnum Kristjáns og afkomendum, sambýliskonu, ættingjum öllum og vinum sendum við Jóna Dóra okkar kærustu samúðarkveðjur. Guð gæti ykkar og geymi.

Minning um góðan dreng, Kristján Þorvaldsson, mun lifa um ókomna tíð.

Guðmundur Árni
Stefánsson.

Það er þversagnakennt að nái fólk að lifa nógu lengi áttar það sig á að ævin er ósköp stutt. En fólk sem ekki hefur ekki lifað lengi heldur að lífið sé langt.

Þegar við Kristján kynntumst héldum við að lífið væri langt. Kristján minntist stundum á að hann hefði séð mig löngu áður en ég sá hann. Þetta var dæmigert fyrir hann og líka hitt, að hann gat tímasett þennan atburð nákvæmlega. Mig minnir að þetta hafi verið vorið 1976. Hann var í skólaferðalagi með skólasystkinum og þau voru komin upp á Hérað og dvöldu í nokkra daga í húsi Húsmæðraskólans á Hallormsstað. Ég var á heimavist í grunnskólanum þar rétt hjá og tók lítið eftir aðkomukrökkunum. Kristján var ári yngri. Við hittumst svo ekki fyrr en þremur árum síðar, haustið 1979. Þetta var í Menntaskólanum við Sund og ég var að koma í þennan skóla eftir námshlé. Þessi ókunnugi strákur stóð allt í einu íbygginn fyrir framan mig. Við vorum í öðrum bekk og á sama ári. Hann hafði séð mig áður. Hann átti oft eftir að segja söguna af því. Krakkarnir frá Fáskrúðsfirði höfðu verið að kíkja á glugga heimavistarinnar og hann varð gáttaður þegar hann sá einn nemandann standa við vask og raka sig. Svona urðu krakkar uppi á Héraði snemma fullorðnir! Kristján sagði að ég hefði verið þessi strákur. Ég sá fyrir mér nefið á honum klessast við rúðuna.

Við tóku þrjú ár í Menntaskólanum við Sund. Þar myndaðist góður vinahópur sem brallaði margt. Sum voru utan af landi. Flestir skólafélaganna bjuggu auðvitað í foreldrahúsum. En við landsbyggðarkrakkarnir lifðum lífinu upp á eigin spýtur. Kristján bjó lengi einn í lítilli skonsu í Smáíbúðahverfinu. Hún var innst í bílskúr, fyrir innan fjölskyldubílinn. Ég bjó í betra húsnæði í efri byggðum. Þar hafði ég tveggja herbergja íbúð með yngri bróður mínum.

Ég held að svona búskapur sé ekki heppilegur fyrir bráðungt námsfólk. Enda áttum við mörg í hópnum eftir að skrópa okkur oft úr skóla. Þremur árum síðar lukum við stúdentsprófinu. Þegar menntaskólanum lauk leigðum við svo nokkur saman íbúð í Þingholtunum. Kristján fór að læra lögfræði, en lauk ekki námi í þeirri grein heldur gerðist blaðamaður.

Eins og gengur var mislangt á milli þess sem við hittumst eða töluðum saman. Ég heimsótti stundum Kristján og fyrstu konu hans, Helgu Jónu, þegar Þorvaldur Davíð sonur þeirra var lítill og þau bjuggu á Grettisgötu. Seinna eignaðist Kristján Árdísi, og með henni dótturina Önnu Sigríði. Ég kom stundum í heimsókn til þeirra á Válastígnum. Kristján var húslegur og hafði gaman af matseld og það var gaman að heimsækja hann og fólkið hans. Seinna kynntist Kristján Oddnýju. Þau fluttu til Danmerkur. Þar greindist hann með krabbamein. Því miður fór ég aldrei þangað í heimsókn til þeirra.

Við Kristján töluðum síðast saman um þremur vikum áður en hann dó. Kristján hringdi í það skiptið. Honum hafði dottið í hug að ráðleggja mér að umgangast fleira fólk og stunda félagslífið betur en hann bjóst við að ég gerði. Hann nefndi líka eins og stundum áður að það væri gott að búa í Danmörku. Þessi umhyggja var Kristjáni lík. Krabbameinsmeðferðin gekk mjög vel, sagði hann.

Næst kom sú fregn, að Kristján hefði orðið bráðkvaddur. Ég vil senda allri fjölskyldu Kristjáns innilegar samúðarkveðjur mínar.

Þorbergur
Þórsson.

hinsta kveðja

Hvíl í friði kæri vinur.

Hafðu þökk fyrir samfylgdina og okkar góða son.

Helga Jóna.