„Landris í Öskju hefur verið nokkuð stöðugt síðan það byrjaði og það er ekkert lát á því,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur og sérfræðingur í jarðskorpuhreyfingum, í samtali við Morgunblaðið í yfirferð um nokkrar eldstöðvar og stöðu þeirra

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

„Landris í Öskju hefur verið nokkuð stöðugt síðan það byrjaði og það er ekkert lát á því,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur og sérfræðingur í jarðskorpuhreyfingum, í samtali við Morgunblaðið í yfirferð um nokkrar eldstöðvar og stöðu þeirra.

Segir Benedikt risið í Öskju líklega nema um 80 til 90 sentimetrum sem sé drjúgt, „en menn þurfa að átta sig á því að hún hefur verið að síga áður og hún er ekki komin í sömu hæð núna og þegar hún byrjaði að síga '72 eða '73, hún á alveg hálfan metra í að ná því,“ segir hann.

Benedikt telur ekki mikilla tíðinda von frá Öskju næstu mánuði fyrir utan að búast megi við að landrisið haldi áfram. „Ef eitthvað meira fer að gerast munum við sjá stóraukna skjálftavirkni, aukinn jarðhita og fleiri merki.“

Hekla er að þenjast út og hefur verið að því síðan í síðasta gosi, á útmánuðum 2000. „Þeim mun lengur sem hún þenst út, því stærra verður næsta gos og Hekla er þannig að hún byrjar að gjósa með engum fyrirvara eða mjög litlum fyrirvara,“ segir Benedikt.

Grímsvötn er eldstöð sem jarðeðlisfræðingurinn telur að geti hæglega gosið á næstu árum. „Grímsvötn eru komin í hærri stöðu en þau voru í fyrir síðasta gos,“ bendir hann á, „skjálftavirknin er smám saman að aukast og miðað við söguna er það yfirleitt undanfari goss, smávaxandi skjálftavirkni,“ segir Benedikt og játar aðspurður að Grímsvötn gætu vel orðið næst á goslistanum.

„Það þyrfti ekkert að koma á óvart en það er erfitt að segja, Holuhraunsgosið 2014 hafði gríðarleg áhrif á Grímsvötn sem gæti valdið því að eldstöðin hagi sér öðruvísi núna en í fortíðinni.“