Pétur Stefánsson gaukaði að mér tveimur stökum: Brátt er sumar búið spil, björt er lífsins saga. Hlakka ég nú hérna til haustsins fögru daga. Um það fáir þurfa að þrátta, þannig verður skráð á blað: Ég er maður margra hátta mínar vísur sanna það

Pétur Stefánsson gaukaði að mér tveimur stökum:

Brátt er sumar búið spil,

björt er lífsins saga.

Hlakka ég nú hérna til

haustsins fögru daga.

Um það fáir þurfa að þrátta,

þannig verður skráð á blað:

Ég er maður margra hátta

mínar vísur sanna það.

Þórólfur Halldórsson segir að Vísnahornið eitt og sér sé nægt tilefni áskriftar að Mogganum og mikill gleðigjafi. Þá segist hann stöku sinnum pára eitthvað á blað. Á miðvikudagsmorgun kom þetta:

Að mörgu var að hyggja

á hverju skyldi byggja

að allt yrði í lagi

en ekki í ólagi.

Svona eftirá að hyggja.

Bragi V. Bergmann skrifar um Tuma: Hann var árrisull sem ungur drengur í sveitinni. Svo flutti hann í borgina – og tók alla hanana sína með sér. Það hefur því miður sigið heldur betur á ógæfuhliðina hjá stráknum síðan við fréttum af honum síðast.

Hann ágirnist örorkubætur,

ákaft hann drekkur um nætur,

uns heyrir hann fyrsta

hanann sig byrsta.

Þá fer hann Tumi á fætur.

Öfugmælavísan:

Miskunnsemi mesta á hrafn,

mörgum tófan bjargar,

á hafísnum er sauðasafn,

sjást þar baulur margar.

Skemmtikraftur eftir Davíð Hjálmar Haraldsson:

Torfhildur Telma á Véi

tróð upp með glensi og spéi.

Hún var fáum til ama,

flestum var sama

og stundum var hlegið í hléi.

Lýðræðislegur oddviti á sveitarfundi eftir Jónas Árnason:

Minni ætlun ég ætla að halda

um áttföldun kirkjugarðsgjalda.

Og í friði og ró

skulu fara útí mó

þeir sem ætla í móinn að malda.

Álftin yndisfagra eftir Pál Jónasson í Hlíð:

Hún var fögur og freistandi og næs

en fékk sér víst of mikinn maís.

Hún eltist og þreyttist

og óðara breyttist

í feita og gargandi gæs.Engum trúa ekki er gott,
öllum hálfu verra.
Vont svo forðist virða spott
varygð lát ei þverra.
Eyjólfur Þorgeirsson Króki kvað:
Engu kvíðir léttfær lund,
ljúft er stríði að gleyma.
Blesa ríð ég greitt um grund,
Guðný bíður heima.
Bjarni frá Gröf kvað: Þetta jafnast!
Ýmsir gjöra allt til meins,
aðrir guði þjóna.
En moldin verður alveg eins
úr öðlingi og dóna.
Ísleifur Gíslason orti:
Hærur benda aldur á
og elligalla,
en heldur vil ég hafa grá-
an haus en skalla.
Halldór Blöndal