Tónlistarmaður Labbi í Mánum er búinn að senda frá sér nýja plötu.
Tónlistarmaður Labbi í Mánum er búinn að senda frá sér nýja plötu. — Ljósmynd/Spessi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tónlistarmaðurinn Ólafur Þórarinsson, Labbi í Mánum, hefur sent frá sér safnplötuna Sumarkveðju með 12 lögum í nýjum útgáfum. „Það er seigla í okkur gömlu körlum,“ segir hann um framtakið, en platan, sem Zonet sér um dreifingu á, er…

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Tónlistarmaðurinn Ólafur Þórarinsson, Labbi í Mánum, hefur sent frá sér safnplötuna Sumarkveðju með 12 lögum í nýjum útgáfum. „Það er seigla í okkur gömlu körlum,“ segir hann um framtakið, en platan, sem Zonet sér um dreifingu á, er komin á Spotify, YouTube og í hljómplötuverslanir auk þess sem hún er til sölu hjá Ólafi á Facebook.

Fyrir um 40 árum gaf Skífan út plötuna Íslensk alþýðulög, sem Gunnar Þórðarson hafði veg og vanda af. Labbi rifjar upp að þá hafi hann sungið lagið „Sumarkveðju“ eftir Inga T. Lárusson í þjóðlagastíl og nafn nýju plötunnar vísi til þess. „Ég hef mikið verið spurður um þetta lag, og hef því lengi velt fyrir mér að endurvinna það, ekki síst af því ég fór ekki alveg rétt með textann, og ákvað þess vegna að koma því réttu frá mér í reffilegri útsetningu, en sú gamla er enn til fyrir þá sem vilja heyra hana.“

Langur ferill

Tónlistarferill Labba spannar um 60 ár og Mánar frá Selfossi áttu stóran þátt í að þróa sveitaballamenninguna 1965 til 1975. Á þessum árum samdi Labbi mörg vinsæl lög og hann er nú búinn að dusta rykið af sumum þeirra. „Mér finnst að mörg gömlu laga minna hafi ekki skilað nógu vel því sem ég reyndi að túlka, þó þau hafi sinn sjarma. Þess vegna ákvað ég að vinna þau aftur og færa þau nær nútímanum.“ Auk þess séu nýrri lög á plötunni. „Þau eru nánast sýnishorn frá öllum ferlinum.“

Labbi býr í Hveragerði og rekur þar stúdíóið Tónverk ásamt Bassa, syni sínum. Labbi sá alfarið um nýju útsendingarnar, upptöku og hljóðblöndun að undanskilinni upptöku á laginu „Undir bláhimni“, sem var á plötunni Íslandslögum og er í óbreyttri útgáfu. „Hún er líka það nýleg og vel heppnuð,“ útskýrir hann. Bassi annaðist lokatónjöfnun allra laganna og myndatökur á plötuumslagið, Guðlaug Dröfn, dóttir Labba, syngur lagið „Þú átt þér ósk“, en Labbi syngur hin lögin og leikur auk þess á ýmis hljóðfæri. Á meðal annarra hljóðfæraleikara eru Unnur Birna Björnsdóttir, bróðurdóttir Labba, Eyþór Gunnarsson, Gunnlaugur Briem, Jóhann Ásmundsson, Þórir Baldursson, Óskar Guðjónsson, Þórir Úlfarsson og Róbert Þórhallsson. Guðrún Birna, dóttir Labba, hannaði umslagið.

Gömlu lögin rifja upp skemmtilegar minningar og Labbi segir að þó honum sé annt um langflest lög sín þyki sér alltaf vænt um fyrstu lögin eins og til dæmis „Útlegð“ og „Þú horfin ert“. „Og svo auðvitað ,,Á kránni“ (Ó pabbi minn kæri), sem sló öll vinsældamet á sínum tíma. „Þetta voru frumskrefin. „Hvert þitt spor“ samdi ég til móður minnar og það stendur mér nærri og ekki skemmir fyrir að það hefur almennt fengið mjög góða dóma.“

Lagið „Leikur að vonum“ hefur verið eitt lífseigasta lag Labba í gegnum tíðina. „Það hefur staðist tímans tönn, margir hafa spilað það, bæði kórar og hljómsveitir. Textinn eftir Jónas Friðrik heitinn er sérlega flottur og einn sá besti í friðarsöngvum, að mínu mati.“

Labbi hefur unnið að plötunni í nokkur ár og er ánægður með útkomuna enda hafi hún þegar fengið afar góða dóma. „Nú er þetta frá og ég held áfram í stúdíóvinnunni, á eftir að endurvinna þungarokkslögin eins og „Frelsi“ og „Söng Satans“ og fleira.“