Tækling Jakob Snær Árnason reynir að verjast Philip Zinckernagel á meðan Michal Skóras og Ívar Örn Árnason fylgjast með í Laugardalnum.
Tækling Jakob Snær Árnason reynir að verjast Philip Zinckernagel á meðan Michal Skóras og Ívar Örn Árnason fylgjast með í Laugardalnum. — Morgunblaði/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
KA er úr leik í Sambandsdeild Evrópu en liðið tapaði fyrir belgíska stórliðinu Club Brugge, 5:1, á Laugardalsvelli í gærkvöldi. Belgarnir unnu fyrri leikinn einnig 5:1 og einvígið því samanlagt 10:2

Á Laugardalsvelli

Aron Elvar Finnsson

aronelvar@mbl.is

KA er úr leik í Sambandsdeild Evrópu en liðið tapaði fyrir belgíska stórliðinu Club Brugge, 5:1, á Laugardalsvelli í gærkvöldi. Belgarnir unnu fyrri leikinn einnig 5:1 og einvígið því samanlagt 10:2.

Gífurlegur gæðamunur er á liðunum en hann kom snemma í ljós í gærkvöldi. Club Brugge fór alla leið í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar á síðasta tímabili og var því ljóst að á brattann yrði að sækja fyrir KA í einvíginu.

Belgíska liðið komst snemma yfir í leiknum og tvöfaldaði svo forystuna í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Liðið bætti síðan þriðja markinu við eftir tæplega klukkutíma leik en strax í kjölfarið minnkaði Færeyingurinn Pætur Petersen muninn fyrir KA með glæsilegu marki. Brugge bætti þó við tveimur mörkum eftir það og gerði út um leikinn.

Sigurinn síst of stór

Eins og áður kom fram er mikill gæðamunur á liðunum tveimur og óð belgíska liðið í færum í leiknum. KA-menn geta þakkað markverði sínum, Steinþóri Má Auðunssyni, fyrir að tapið varð ekki stærra, en hann varði fjöldann allan af skotum í leiknum.

Úkraínski landsliðsmaðurinn Roman Yaremchuk reyndist KA-mönnum erfiður en hann skoraði þrjú mörk, öll í síðari hálfleik. Í fyrri hálfleik fékk hann þrjú virkilega góð færi, sem hann misnotaði, og hefði því hæglega getað skorað fleiri mörk í leiknum. Yaremchuk byrjaði á bekknum í fyrri leiknum úti í Belgíu en fékk tækifærið í kvöld og nýtti það svo sannarlega.

Þrátt fyrir að tapa stórt geta KA-menn svo sannarlega gengið stoltir frá borði. Liðið fór alla leið í þriðju umferð keppninnar sem er líklega meira en flestir KA-menn höfðu gert sér vonir um fyrir mót. Að tapa fyrir stórliði eins og Club Brugge er ekkert til að skammast sín fyrir og Hallgrímur Jónasson þjálfari KA mun án nokkurs vafa taka ýmislegt jákvætt út úr einvíginu, en KA-liðið sýndi í báðum leikjum flotta spilkafla, ásamt því að skora tvö mjög góð mörk.

Verðugt verkefni bíður Twente

Þá tryggðu tvö Íslendingalið sér sæti í umspili um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar í gær.

Alfons Sampsted lék fyrstu 80 mínúturnar með Twente þegar liðið vann 3:0-sigur gegn Riga í Lettlandi í síðari leik liðanna en Twente vann einvígið 5:0. Twente mætir Fenerbahce frá Tyrklandi í umspilinu.

Þá sat Sverrir Ingi Ingason allan tímann á varamannabekk Midtjylland þegar liðið vann 5:1-sigur gegn Ominia Nikósía frá Kýpur í Danmörku en Midtjylland vann einvígið 5:2. Midtjylland mætir Legia Varsjá frá Póllandi í umspilinu.

Ísak Snær Þorvaldsson og liðsfélagar hans í norska úrvalsdeildarfélaginu Rosenborg eru hins vegar úr leik eftir afar svekkjandi tap gegn Hearts í Skotlandi. Leiknum lauk með sigri Hearts, 3:1, en Ísak, sem lék fyrstu 89 mínúturnar, kom Rosenborg yfir strax á 6. mínútu. Rosenborg tapaði einvíginu 4:3.