40 ára Alexandra fæddist í Reykjavík og ólst upp í Breiðholtinu. Hún gekk í Hólabrekkuskóla og svo í Seljaskóla síðustu tvö ár grunnskóla. „Þar kynntist ég mjög mörgum af þeim sem eru bestu vinir mínir í dag.“ Þegar kom að því að velja…

40 ára Alexandra fæddist í Reykjavík og ólst upp í Breiðholtinu. Hún gekk í Hólabrekkuskóla og svo í Seljaskóla síðustu tvö ár grunnskóla. „Þar kynntist ég mjög mörgum af þeim sem eru bestu vinir mínir í dag.“ Þegar kom að því að velja framhaldsskóla fór hún í miðbæinn í Menntaskólann í Reykjavík. „Á þessum tíma var ég með ógreint ADHD og ég græddi held ég á því að vera í bekkjakerfi með meiri formfestu.“ Hún segir að árin í MR hafi verið góður tími, en eftir stúdentinn fór hún í Háskóla Íslands. „Þá var ég komin svolítið út í horn með sjálfa mig og það má segja að næsti áratugur hafi svolítið farið í það að finna mig. Það gekk illa þangað til ég fékk mínar greiningar og þjónustu í kjölfarið, bæði ADHD greininguna og svo frá trans teyminu, en eftir það fór að ganga mun betur að vinna í þessu og þá fóru góðir hlutir að gerast.“

Alexandra byrjaði í grasrótarvinnu í Pírötum árið 2014. „Píratar höfðuðu til mín því þeir eru heiðarlegir og berjast gegn spillingu. Eru róttæk, vilja laga kerfi sem eru brotin, án þess að vera ofstækisfull eða popúlísk.“ Árið 2015 var hún komin í stjórn Pírata í Reykjavík og 2017 í kosningastjórn. „Ég býð mig síðan fram í borginni 2018 og lendi þá í þriðja sæti og svo aftur í fyrra, 2022 og er þá í öðru sæti.“ Árið 2021-2022 var hún forseti borgarstjórnar, tók við formennsku umhverfis- og skipulagsráðs í eitt ár, en er nú formaður stafræna ráðsins, í stjórn Strætó og í Skóla- og frístundaráði, auk þess að vera varafulltrúi í borgarráði og áheyrnarfulltrúi í Forsætisnefnd.

Alexandra segir að mannréttindabarátta sé henni mjög hugleikin. „Ég er mjög þakklát að búa á landi þar sem mannréttindabarátta hinsegin fólks hefur náð góðum árangri, svona, á heimsvísu. Hins vegar sjáum við líka mjög forhertar tilraunir í gangi til að vinna gegn mannréttindamálum hinsegin fólks, ekki síst trans fólks. Þess vegna er mjög mikilvægt að leyfa slíkri hatursorðræðu ekki að reka fleyg á milli okkar sem stöndum í baráttunni. Við þurfum að sýna samstöðu og taka slaginn, því við viljum ekki að hatrið sigri.“

Alexandra er einhleyp en segist eiga frábæra fjölskyldu. „Við erum mjög virk saman, dugleg að hittast og ég hef aldrei upplifað nokkuð annað en stuðning frá þeim og öðrum ættingjum.“