Sólveig María Gunnlaugsdóttir fæddist í Skrúð í Skerjafirði 29. september 1939. Hún lést 6. ágúst 2023 á Landakoti.

Foreldrar hennar voru Sesselja Sigríður Þorkelsdóttir, f. 2.10. 1909, d. 26.9 1950, og Gunnlaugur Oddsen Vilhjálmur Eyjólfsson, f. 14.8. 1909, d. 17.2 1951. Systkini Sólveigar voru Magnea Dagmar, f. 25.6. 1930, d. 16.4 1997, Gunnlaugur Oddsen, f. 17.9. 1931, d. 22.5. 2012, Aðalheiður Svanhvít, 3.10. 1932, d. 5.6. 2001, og Erla Sigríður, f. 7.3. 1937, d. 19.12. 2022.

Sólveig giftist eftirlifandi eiginmanni sínum, Einari Halldóri Gústafssyni brunaverði, f. 6.2. 1938, þann 29.9. 1957. Foreldrar hans voru Lovísa Sigurrós Einarsdóttir, f. 16.12. 1910, d. 28.12. 1959, og Gústaf Adolf Guðjónsson, f. 20.11. 1909, d. 5.9. 1985. Sólveig og Einar eignuðust þrjú börn. 1) Sigríður, f. 17.2. 1958, börn hennar eru: Sóley María, f. 1987, og Einar Páll, f. 1994. 2) Sigurrós, f. 20.10. 1960, maki Smári Hauksson, f. 1961. Dætur þeirra eru: a) Lilja, f. 1983, maki Finnur Ingi Hermannsson, f. 1984. Börn þeirra eru: Aníta Karen, f. 2010, Telma María, f. 2012, og Viktor Ingvi, f. 2014. b) Linda, f. 1986, maki Arnþór Breiðfjörð Agnarsson, f. 1979. Dætur þeirra eru: Fjóla Breiðfjörð, f. 2013, Ylva Breiðfjörð, f. 2015, sonur Arnþórs úr fyrra sambandi er Sigurður Agnar Breiðfjörð, f. 2003. 3) Einar Þór, f. 29.3. 1962, d. 13.3. 2014, maki Steinunn Þórhallsdóttir, f. 1966. Synir þeirra eru: Steinar Þór, f. 1997, og Fannar Þór, f. 2000. Dóttir Einars Þórs úr fyrra sambandi er Ágústa Ósk, f. 1982, maki Einar Hróbjartur Jónsson, f. 1980. Börn þeirra eru: Ásgeir Atli, f. 2010, Karen Arna, f. 2012, og Einar Andri, f. 2014.

Sólveig ólst upp í vesturbæ Reykjavíkur. Hún missti foreldra sína ung og þá tók elsta systirin, Dagmar, við uppeldinu. Sólveig gekk í Melaskóla og Gagnfræðaskóla verknáms að Hringbraut 121. Veturinn sem Sólveig var 8 ára var hún á heimavist í Laugarnesskóla ásamt systur sinni Erlu. Sólveig og Einar hófu búskap á Bjarnarstíg 11, fluttu síðan á Kleppsveg 140. Þau byggðu sér síðan hús að Bláskógum 13. Eftir 27 ára búsetu þar fluttu þau út á Álftanes að Suðurtúni 23. Hin síðari ár áttu þau annað heimili á Selfossi þar sem þau dvöldu mikið um helgar. Sólveig starfaði aðallega við verslunarstörf og þá lengst af í Álfheimabakaríi. Síðar gerðist hún dagmamma til að annast barnabarn sitt, Sóleyju Maríu. Sólveig tók virkan þátt í starfi eldri borgara á Álftanesi og þá einkum að spila vist. Hún hélt utan um Eldliljurnar, hóp eiginkvenna brunavarða, sem hittust reglulega á kaffihúsum. Hún naut sín í ömmuhlutverkinu, var alltaf til staðar fyrir barnabörnin og naut samverunnar við langömmubörnin. Sólveig og Einar byggðu sér sumarbústað við Þingvallavatn sem þau dvöldu mikið í. Barnabörnin dvöldust oft hjá þeim í sumarbústaðnum og eiga dýrmætar minningar þaðan.

Sólveig María verður jarðsungin frá Garðakirkju í dag, 18. ágúst 2023, kl 13.

Einn sólríkasti júlímánuður frá 1939 er liðinn. Elsku mamma fæddist þetta sólríka ár og kvaddi nú í ágústbyrjun. Hún var bjartsýn og jákvæð að eðlisfari – ávallt með sól í sinni og bar því nafn sitt Sólveig með rentu.

Mamma ólst upp á Nesvegi 57, skáhallt á móti föðurömmu og -afa á Eylandi. Leiksvæðið var klappirnar í fjörunni við Sörlaskjólið og Ægisíðan. Heilsað var oft upp á hermennina í Camp Knox sem ósjaldan stungu að þeim sælgæti. Mamma ólst upp við að ráðskonur voru á heimilinu þar sem mamma hennar glímdi við berkla í mörg ár og dvaldist langdvölum á Vífilsstöðum og undir lokin á Kristneshæli. Mamma missti foreldra sína um 11 ára aldur.

Mamma og pabbi kynntust ung í Bankastrætinu og giftust á 18 ára afmælisdegi mömmu. Þau eignuðust þrjú börn á fjórum árum, byggðu íbúð, einbýlishús og sumarbústað saman og héldust í hendur í 66 ár.

Mamma var heimavinnandi húsmóðir þar til við systkinin voru orðin 8, 10 og 12 ára. Þá réð hún sig til afgreiðslustarfa í Álfheimabakaríi. Það hefur áreiðanlega haft mikið að segja að Álfheimabakaríið var við hlið Langholtsskóla þar sem við systkinin gengum í skóla enda kom það sér vel að geta verið samferða henni í skólann á morgnana og geta skroppið út í bakarí í frímínútum.

Þegar dóttir mín, Sóley María, fæddist 1987 var ég svo heppin að mamma sagði skilið við bakaríið eftir 17 ára starf og gerðist dagmamma dóttur minnar. Dóttir mín og síðar sonur, Einar Páll, nutu góðs af því að alast upp að hluta til í ömmu- og afahúsi þar sem þau nutu umhyggju og öryggis. Þar lærðu þau að m.a. að spila á spil, leggja kapal, prjóna, smíða og hjóla. Vinsælastar voru þó sumarbústaðarferðirnar að Þingvöllum.

Ég er óendanlega þakklát móður minni fyrir að hafa tekið að sér hlutverk dagmömmunnar. Á þessum tímum var erfitt að fá dagvist fyrir börn og fæðingarorlofið var stutt. Sem starfandi flugmaður í óreglulegri vaktavinnu var það ómetanlegt fyrir mig að geta farið í flug og aldrei þurft að hafa áhyggjur af börnunum. Þetta fæ ég aldrei fullþakkað móður minni.

Elsku mamma greindist með brjóstakrabbamein fyrir tíu árum sem tók sig upp fyrir fjórum árum. Mamma var valkyrja sem sýndi ótrúlegt baráttuþrek og æðruleysi. Hún kvartaði aldrei og hafði meiri áhyggjur af öðrum en sjálfum sér. Hún dvaldist á Landakoti síðustu tvo mánuði ævi sinnar.

Við fjölskyldan nýttum góðviðrisdagana í sumar og fórum með mömmu í hjólastólarallý á hverjum degi út frá Landakoti. Mamma naut þess að fara í könnunarleiðangra um Kvosina, heimsækja æskuslóðirnar út við Ægisíðu og strolla upp á Skólavörðuholtið þar sem hún og pabbi stofnuðu sitt fyrsta heimili í afahúsi. Hádegisverðir á Jómfrúnni og á Hnoss í Hörpunni voru í uppáhaldi fyrir utan ísleiðangra í Valdísi á Grandanum. Við upplifðum dýrmætar sólskinsstundir með mömmu og bjuggum til ljúfar minningar sem nú ylja okkur um hjartarætur.

Elsku mamma, hafðu þökk fyrir allt og allt. Þakklæti mitt er óendanlegt fyrir að þú varst alltaf til staðar. Minning þín verður ávallt ljósið í lífi mínu.

Þín elskandi dóttir,

Sigríður.

Elsku tengdamamma.

Það var seint í mars árið 1994 sem sonur þinn ákvað að kynna þig fyrir kærustunni sinni.

Við komum saman í Bláskógana og ég var með pínu hnút í maganum enda ekki áður verið kynnt með þessum hætti. Þarna opnaðir þú fyrir okkur brosandi og blíð eins og einkenndi þig alla tíð og ég eignaðist bestu tengdamömmuna. Við urðum strax góðar vinkonur og meðal margra góðra minninga eru stundirnar sem við sátum og sötruðum kaffi og spjölluðum í Melgerðinu þegar ég var heima með strákana okkar litla.

Þið Einar tengdapabbi hittust ung og voruð saman í um 66 ár sem er langur tími á lífsins leið.

Það kemur því upp í huga minn vísa sem ég lærði fyrir langalöngu, um bát á ólgusjó sem er tenging við lífið sjálft og ástina.

Því ævi okkar allra er ævintýraför

og margar æstar öldur þar ógna lífsins knörr

En haldist tveir í hendur er hættan engin nei

þá bjargar ástin bátnum svo brotna fær hann ei.

Takk fyrir vináttuna í gegnum tíðina og hjálpsemina sem þú varst alltaf reiðubúin að veita okkur fjölskyldunni.

Við vitum hver tók á móti þér við himnahliðið, það var litli drengurinn þinn, maðurinn minn, sem við þurftum að kveðja allt of snemma.

Þín

Steinunn (Steina).

Margar hugsanir hafa skotið uppi kollinum, bæði síðan amma greindist aftur með krabbamein og síðan hún lést. Þessar hugsanir og orð hafa farið frá ósanngirni, sjálfsvorkunn og samkennd með þeim sem eftir lifa, út í fegurð, baráttu og í það sem ég kýs að láta standa upp úr – forréttindi.

Fyrir 36 árum hætti amma að vinna í Álfheimabakaríi til þess að passa mig sem dagmamma meðan foreldrar mínir byggðu upp starfsferla sína. Þau gerðu það vissulega vel og það hefur mótað mig allar götur síðan sem ég er þakklát fyrir, en ég er líka óendanlega þakklát ömmu fyrir ekki bara það tækifæri, heldur endalausa þolinmæði og fullkomlega skilyrðislausa ást og umhyggju, allan þann tíma sem ég fékk með henni.

Það var alltaf veisla í sumarbústaðarferðum á Þingvöllum, skíðaferðum í Breiðholtsbrekku, Ártúnsbrekku og síðar Bláfjöllum. Grill og béarnaise eða vöfflukaffi – ég var sögð matvönd, en ég kunni bara best (og kann enn) við ömmumat. Sem barn var það kókópöffs yfir „Afa“ í sjónvarpinu á laugardagsmorgnum, síðar kaldar kótelettur beint af beininu og í fullorðinstíð kósí kasmírbuxur, það er margt sem mun alltaf minna mig á ömmu. Amma kenndi mér líka að spila af mikilli alvöru, og við vorum mikið fyrir það að lesa saman, þótt sín bókin hvor væri oft við höndina.

Tvítug tók ég þá ákvörðun að flytja til Bandaríkjanna í nám. Dvölin þar lengdist, en amma lét það ekki á sig fá heldur lærði á iPhone, Facetime og Facebook til að fylgjast með afkomendum sínum og þannig töluðum við mjög reglulega saman. Eftir að hafa dregið úr ferðalögum í seinni tíð kom amma í heimsókn til mín til Colorado sumarið 2019, þar sem ég gat boðið henni á tónleika með uppáhaldssöngvaranum hennar – Andrea Bocelli.

Mér fannst vissulega ekki sanngjarnt að besta manneskjan sem ég hef kynnst fengi krabbamein og hvað þá oftar en einu sinni, en amma barðist af hetjuskap og bjartsýni – enda margt til þess að lifa fyrir. Mamma, Rósa og aðrir fjölskyldumeðlimir fóru með ömmu í hjólastólarall af Landakoti síðustu vikur ævi hennar og afi kom til þess að spila, borða og halda henni félagsskap. Mig langar að segja að hún hafi þess vegna verið heppin kona, en það er dýpra en það; þessi fallega kona uppskar eins og hún hafði sáð til alla ævi. Ég var hins vegar heppin að hafa átt hana sem ömmu mína, mest af öllu heppin með allt það sem hún gaf mér og kenndi mér en líka heppin að hafa fengið að taka þátt í hjólastóla-ís-ralli á hennar síðasta sólskinsdegi.

Minningarnar eru of margar til þess að komast fyrir hér en ég á margar þar sem við dönsuðum og sungum með Björgvini Halldórssyni í stofunni í Bláskógunum. Við völdum auðvitað stuðlögin en þetta lag og sérstaklega þetta erindi mun alltaf minna mig á þig, allt sem ég sagði hér að ofan, og allt það sem kemst ekki fyrir í lítilli minningargrein.

Allt saman – forréttindi.

Ég elska þig amma og megi minning þín lifa að eilífu.

Finna hjá þér ást og unað

yndislega rósin mín.

Eitt er það sem aldrei gleymist,

aldrei, það er minning þín.

(Guðmundur G. Halldórsson.)

Sóley María.

Elsku amma Solla.

Nú ert þú fallin frá eftir langa og hamingjusama ævi. Þú varst alltaf svo góð við mig og varst til í að hjálpa mér með hvað sem er. Sama hvað bjátaði á var ævinlega hægt að treysta á þig. Þú varst líka ávallt róleg og yfirveguð og komst vel fram við allt og alla. Jafnvel þegar þú áttir örfáa daga eftir ólifaða hughreystir þú mig og sagðir að við ættum ekki að syrgja þig of mikið.

Þín verður sárt saknað, elsku amma mín,

þinn

Einar Páll.