Ferðaþjónusta Kristófer Oliversson situr í starfshóp ferðamálaráðherra.
Ferðaþjónusta Kristófer Oliversson situr í starfshóp ferðamálaráðherra. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Andrea Sigurðardóttir andrea@mbl.is Gistináttaskattur á skemmtiferðaskip er hvergi nærri nægilegur til þess að jafna leik skemmtiferðaskipa og ferðaþjónustuaðila í landi eða mæta þeim áhrifum sem komur skipanna hafa á ferðamannastaði.

Andrea Sigurðardóttir

andrea@mbl.is

Gistináttaskattur á skemmtiferðaskip er hvergi nærri nægilegur til þess að jafna leik skemmtiferðaskipa og ferðaþjónustuaðila í landi eða mæta þeim áhrifum sem komur skipanna hafa á ferðamannastaði.

Þetta segir Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri Centerhotels og formaður FHG – Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, í samtali við Morgunblaðið. Hann segist hafa orðið hissa þegar hann las ummæli Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, í viðtali við blaðið í gær þar sem meðal annars var komið inn á komur skemmtiferðaskipa hingað til lands.

Lilja var þar spurð hvort til greina kæmi að takmarka skipakomur við einhvern tiltekinn fjölda skipa og/eða farþega til að bregðast við því hve litlu farþegar skipanna skila í samhengi við samfélagslegan kostnað við að taka á móti þeim. Í viðtalinu kom fram að aðgangsstýringar væru ekki í kortunum en að fyrir lægi að gistináttaskattur yrði útvíkkaður þannig að hann nái líka til skemmtiferðaskipa, þannig að farþegar þeirra skili meiru inn í þjóðarbúið.

Kominn fram úr starfshópnum

Kristófer situr í einum af sjö starfshópum á vegum ráðuneytis Lilju sem nú vinnur að nýrri aðgerðaáætlun fyrir ferðaþjónustuna.

„Efst á blaði þar er gjaldtaka og álagsstýring,“ segir Kristófer og heldur áfram: „Þess vegna brá mér svolítið við að lesa að það liggi núna fyrir að ekki standi til að bíða eftir niðurstöðum hópsins, heldur leggja gistináttaskatt á að nýju um áramót og að ekki sé vilji stjórnvalda til að koma á fót aðgangsstýringum gagnvart hótelskipum.“

Þykir Kristófer ráðherra þarna kominn fram úr vinnu starfshópsins.

„Skemmtiferðaskipin eru stærsta áhyggjuefnið núna hjá okkur í hótelbransanum. Samkvæmt mælaborði ferðaþjónustunnar eru að koma um 1,3 milljónir ferðamanna inn í gegnum Keflavík yfir háannatímann og svo koma skemmtiferðaskipin allt í einu með hátt upp í þetta, ef talið er saman áhafnir og farþegar, en þessi hópur er ekki að skila neinu inn í samfélagið, hann er ekkert að borga af þessum sköttum sem við erum að greiða.“

Gistináttaskatturinn geri lítið til að jafna leikinn að hans sögn.

„Áhyggjuefnið í þessu er að við, hótelin í landi sem erum oft bara nokkra metra frá þessum skipum, erum að greiða virðisaukaskatt, tryggingagjald, áfengisskatt, fasteignagjöld, staðgreiðslu og útsvar starfsmanna, ásamt gistináttaskattinum. Af þeim heildargjöldum sem við erum að skila til ríkis og sveitarfélaga er gistináttaskatturinn aðeins 5%, sem dugar hvergi nærri til að jafna aðstöðuna. Með því að leggja eingöngu gistináttaskatt á skemmtiferðaskip eru þau enn laus við 95% af þeim sköttum og gjöldum sem hótel í landi skila.“

Mun meira þurfi til

„Það þarf að gera eitthvað svo miklu meira varðandi þessi skip en að setja á þau gistináttaskatt. Þau munu einfaldlega hrópa húrra ef þau sleppa bara með gistináttaskatt. Ef það á að reyna að stýra eitthvað umferð af þessum skipum, og við eigum yfir höfuð að hafa eitthvað upp úr þeim annað en troðningstúrisma, þá þarf að gera meira en þetta og aðgangsstýring eins og ýmis lönd eru farin að beita er einnig mikilvæg í þeim efnum,“ segir Kristófer.

Þá bendir hann á að uppbygging í landi sé í ört vaxandi mæli heilsársuppbygging ferðaþjónustu, meðan skipin koma hingað einungis yfir þegar þéttsetna sumarmánuðina.

„Nýverið hafa forstjórar tveggja stóru flugfélaganna stigið fram og tjáð sig um umræðu um komugjöld. Birgir Jónsson forstjóri Play sagðist vilja skoða upptöku komugjalds til að byggja upp innviði í ferðaþjónustu sem komin sé að þolmörkum. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði á hinn bóginn að komugjald í Keflavík hjálpaði ekkert til við álagsstýringu, það yrði einungis gert með greiðslu inn á vinsælustu svæðin. Það liggur fyrir að þau rök eiga klárlega einnig við um gistináttaskatt. Án þess að ég ætli að fara að kalla eftir komugjaldi þá liggur fyrir að það er mun sanngjarnari og breiðari gjaldtaka en gistináttaskattur. Gistináttaskattur fyrirfinnst ekki á neinu öðru Norðurlandanna,“ segir Kristófer

Skattar séu vel ígrundaðir

Hann segir að það hljóti að vera vera forgangsmál að stilla upp aðgerðaáætlun um hvernig ferðamannaland við viljum byggja upp hér á landi, í sátt við landsmenn og náttúru.

„Ferðaþjónusta skilar hundruðum milljarða til íslensks samfélags á ári og hið opinbera hefur þegar himinháar tekjur, beinar og óbeinar, af ferðamönnum sem sækja landið heim. Ef stjórnvöld telja nauðsynlegt að leggja sérstaka viðbótarskatta á greinina umfram þetta skiptir miklu að slíkir skattar séu vel ígrundaðir og styðji við samkeppnishæfni greinarinnar. Þegar aðgerðaáætlun hefur verið mótuð er það stjórnvalda í samstarfi við markaðsaðila að innleiða hana. Það er ekki líklegt til árangurs að setja slíka vinnu í gang en ætla svo ekkert að horfa til hennar,“ segir Kristófer einnig.